16.11.1956
Sameinað þing: 10. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 240 í D-deild Alþingistíðinda. (2624)

43. mál, endurskoðun varnarsamningsins

Flm. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Það er auðvitað erfitt að átta sig til hlítar á því, hvað felst í yfirlýsingu hæstv. utanrrh. við að heyra hana lesna án þess að athuga hana gaumgæfilega. Ég verð þó að segja, að að svo miklu leyti sem ég gat áttað mig á henni, þá tel ég. að svo langt sem hún nær sé hún í rétta átt, að það sé ótvíræð yfirlýsing af hans hálfu um, að Ísland megi ekki vera varnarlaust.

Nú leyfi ég mér að spyrja: Er þessi yfirlýsing gefin af hálfu allrar hæstv. ríkisstj. eða eingöngu af „utanrrh. Alþýðuflokksins“, eins og stuðningsblað hæstv. ríkisstj., það sem fylgir stærsta stjórnarflokknum að málum, komst að orði í öðru sambandi í gær?

Það er mjög nauðsynlegt, ekki aðeins fyrir Alþingi, heldur fyrir Íslendinga í heild, að vita, hver skoðun allrar ríkisstj. er um þetta efni, því þó að við samkvæmt fyrri reynslu, meðan hæstv. utanrrh. var í varnarmálanefnd, höfum ýmsir síðan ríka ástæðu til að bera sérstaklega til hans fullt traust í þessum efnum, þá höfum við jafnríka ástæðu til þess að efast um, að einn af stuðningsflokkum hæstv. ríkisstj., Alþýðubandalagið, sé sömu skoðunar og hæstv. utanrrh. lét uppi. Ég vitnaði þvert á móti í ummæli, sem Alþb. gaf, strax eftir að þessir atburðir voru hjá liðnir, ummæli, sem mjög hertu á því, að Ísland ætti með öllu að gerast varnarlaust og meira en það, þar sem því var haldið fram. að sjálfur Atlantshafssáttmálinn væri úr gildi fallinn.

Er nú ætlun þessa stuðningsflokks hæstv. ríkisstj. að styðja yfirlýsingu þá, sem hæstv. utanrrh. gaf, sem mér skildist að efni vera sú, að sjálfsagt væri að hafa nauðsynlegar varnir í landinu, þannig að Alþb. sé horfið frá sinni yfirlýsingu frá 5. nóv., eða er sú yfirlýsing enn í gildi? Og ef sú yfirlýsing er enn í gildi, þá er ljóst, að þó að ástæða kunni að vera til þess að bera traust til hæstv. utanrrh., hans persónulegu skoðana um þetta mál, þá getur þjóðin ekki borið traust til þeirrar ríkisstj., sem Alþb. hefur í hendi sér og lætur ekki lengur lifa en framfylgt er þeim skýlausa boðskap, sem fluttur var í útvarpinu 5. nóv. og síðan hefur hvað eftir annað verið ítrekaður í aðalmálgagni stærsta stuðningsflokks ríkisstjórnarinnar.

Hér er um svo mikilsvert mál að ræða, mál, sem ekki aðeins örlög, hamingja og jafnvel tilvera íslenzku þjóðarinnar, heldur heimsfriðarins kann að vera undir komin, að orðaleikur og óljósar yfirlýsingar stoða þar ekki, heldur á þjóðin rétt til þess að fá skýlaust úr því skorið. hver ætlun hæstv. ríkisstj. í raun og veru er, ekki aðeins nokkurs hluta hennar, heldur stjórnarinnar í heild. Og það fer ekki hjá því, að eftir íslenzkum stjórnlögum er það ríkisstj. í heild, sem ábyrgð ber á því, sem nú gerist, og úrslitum ræður um þá samninga, sem fara í hönd, þó að vitanlega hæstv. utanrrh. hljóti að hafa þá mest með höndum og bera á þeim ábyrgð öðrum fremur.

Þessi veikleiki í yfirlýsingu hæstv. utanrrh. verður því ekki umflúinn. En ég verð einnig að benda á annan veikleika í yfirlýsingunni, og hann er sá, að hæstv. utanrrh. lét alls ekki uppi, hverja ályktun hann sjálfur og Framsfl., sem hann í þessu virtist tala einnig fyrir, — bæði sinn flokk og Framsfl., — hefðu dregið af síðustu atburðum. Hann sagði einungis, að það hefði aldrei komið annað til mála en að hafa nauðsynlegar varnir, hitt væri svo matsatriði. hversu ríkar varnirnar ættu að vera á hverjum tíma.

Ráðherrann sagði raunar, að hann gerði ekki lítið úr þessum síðustu heimsatburðum, en hann gerði okkur ekki grein fyrir því, hvaða áhrif hann teldi að þessir heimsatburðir ættu að hafa á okkar eigin ráðstafanir, og í því efni fer honum mjög ólíkt og t.d. flokksbróður hans og enn reyndari utanríkisstjórnmálamanni en við allir erum hér til samans inni, sem Alþingi skipa, og á ég þar við utanrrh. Noregs, Halvard Lange. Hann gerði þessi mál öll að sérstöku umræðuefni á Stórþingi Norðmanna fyrir rúmri viku, og hann var allsendis ófeiminn við að lýsa því, hver áhrif þessir atburðir hlytu að hafa á utanríkisstefnu norsku stjórnarinnar, að þeir hefðu sannað, að sú stefna að fylgja Atlantshafsbandalaginu og halda uppi vörnum í landinu hefði nú komið í ljós að vera réttari en nokkru sinni fyrr. Og það blandast engum, sem þá ræðu les, að hann taldi ástandið nú uggvænlegra en það hefði um langa hríð verið.

Það kom ekkert fram í ræðu hæstv. utanrrh. Íslands áðan, sem mælti þessu í gegn, en það, sem þjóðin á heimtingu á að fá að vita, er hitt: Telur hæstv. utanrrh., telur meiri hluti hæstv. ríkisstj., svo að ekki sé talað um ríkisstj. alla í því sambandi, að nú sé rétti tíminn til að hefja samninga um brottför varnarliðsins á Íslandi?

Þetta á íslenzka þjóðin kröfu til að vita, og hæstv. utanrrh. kemst ekki hjá því að gera grein fyrir þessu innan fárra daga, þegar endurskoðunin hefst á samningunum og viðræður um hana við Bandaríkjamenn. Og óneitanlega færi mun betur á því, að sú yfirlýsing væri gefin hér á Alþ., en ekki á lokuðum fundi með erlendum samningsaðilum, hverri meginstefnu eigi að fylgja í þessu efni.

Hitt er svo enn annað atriði, sem ég tel þó ekki ástæðu til að gera nú að verulegu þrætuefni á þessu stigi málsins, — því að ég trúi því ekki að óreyndu, að hæstv. utanrrh. ætli sér að stefna málunum nú í það horf, að allt erlent varnarlið sé kvatt burt frá Íslandi, eins og horfur eru, — en það verður þó vegna ummæla hæstv. ráðh. að koma alveg ljóst fram, að ég og ýmsir fleiri berum mjög ríkan efa í brjósti um það, að sú ráðagerð sé framkvæmanleg að ætla að hafa tilbúnar varnarstöðvar á Íslandi, án þess að nokkurt varnarlið sé þar til öryggis. Ég tel, að mörg rök hnigi að því. að sú lausn sé e.t.v. hættulegasta lausnin af öllum í þessu máli og því fari svo fjarri. að hún sé til að auka öryggi landsins, að hún kunni að leiða yfir það miklar og ófyrirsjáanlegar hættur.

Ég vonast til þess, að hæstv. ráðh. geri frekari umræður um það efni á þessu stigi ónauðsynlegar með því að gefa nú skýlausa yfirlýsingu um það, sem alþjóð ætlast til af honum, að eins og horfi í dag sé allsendis óraunhæft og ótímabært að byrja samninga um það að kveðja varnarlið hinna frjálsu þjóða frá Íslandi.