16.11.1956
Sameinað þing: 10. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 245 í D-deild Alþingistíðinda. (2626)

43. mál, endurskoðun varnarsamningsins

Utanrrh. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Herra forseti. Hv. 1. þm. Reykv. (BBen) beindi til mín fyrirspurn, sem ég gjarnan vil svara.

Hann kvartaði undan því, að það hefði ekki komið greinilega fram í ræðu minni, hvaða augum ég liti á þá atburði, sem hafa verið að gerast úti í heimi nú seinustu dagana og seinustu vikurnar, og hann kvartaði undan því, að það hefði ekki komið greinilega fram hjá mér, hvort ég vildi, svo sem ástatt er nú, að því stuðla, að varnarliðið yrði nú kvatt brott úr landi.

Ég vil minna á, að í ræðu minni sagði ég. að ég liti svo alvarlegum augum á ástandið í heiminum í dag, að ég teldi, að á þessari stundu gæti enginn um það fullyrt, hvert framhaldið kynni að verða. Ég sagði einnig, að þeir, sem bæru ábyrgð á vörnum Íslands, hlytu að fylgjast með því af gaumgæfni og með vaxandi áhyggjum, til hvers drægi í heiminum. Ég hygg, að með þessum ummælum hafi ég sagt mjög mikið og dregið upp greinilega mynd af því, hvernig ég hugsa í þessum efnum.

Hins vegar var ekki tilefni fyrir mig til að segja neitt um það, hvort ég áliti ástandið þannig, að rétt væri að fara burt með herinn úr landinu nú, vegna þess að þó að öllum uppsagnarákvæðum varnarsamningsins væri beitt til hins ýtrasta og allir frestir hafðir eins skammir og hægt er, þá eru ekki tök á því, að herinn færi úr landi, fyrr en á miðju ári 1958, þannig að þetta atriði málsins kallar ekki beinlínis á svar.

En fyrst hv. 1. þm. Reykv. spurði, þá hef ég ekkert á móti því að svara, og ég segi það sem mína skoðun, að ef við stæðum yfir þeirri spurningu í dag, hvort við vildum láta herinn víkja úr landi á morgun eða næstu daga, þá mundi ég ekki vilja láta hann gera það. Svo alvarlegum augum lít ég á ástandið eins og það er nú. Ég álít, að nú sé slíkt hættuástand, að varnarlið sé Íslandi nauðsyn.

Ég hygg, að með þessu hafi ég svo skýrt og greinilega svarað þeim spurningum, sem fyrir mig voru lagðar, að ekki verði um mína afstöðu villzt, og leyfi ég mér því að ítreka mína fyrri till. um afgreiðslu á málinu.