16.11.1956
Sameinað þing: 10. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 246 í D-deild Alþingistíðinda. (2627)

43. mál, endurskoðun varnarsamningsins

Flm. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. utanrrh. fyrir þær upplýsingar, sem hann hefur hér gefið. Eins og ég segi, þá eru þær svo mikilsverðar, að það þarf auðvitað að skoða nánar, hvort felst í þeim allt, sem virðist við fljóta heyrn. En um þá yfirlýsingu, sem hann gaf nú síðast, verð ég að segja, að hún er mjög merkileg og gefur okkur ástæðu til þess að treysta því, að að svo miklu leyti sem hans ráð koma til, þá sé málinu a.m.k. í bili vel borgið.

Á hitt get ég þó ekki fallizt hjá hæstv. utanrrh., að það skipti í raun og veru ekki máli í þessu sambandi, hvort við teljum, að varnarliðið eigi að hverfa burt eða ekki, eins og nú standa sakir, vegna þess að samkv. öllum frestum eigi það hvort eð er ekki að fara fyrr en eftir rúmlega ár, — ég held eitthvað rúmt ár, — það eru víst liðnir einir þrír mánuðir af frestinum samkv. því, sem tiltekið hefur verið, og þá mundu það vera eitthvað 15 mánuðir, sem eftir eru. Það er að vísu rétt, að þetta er alllangur tími, en það hlýtur vitanlega að hafa úrslitaáhrif á samningsgerðina, hvað menn telja í þessum efnum.

Ég hafði ekki ætlað mér að fara hér að troða illsakir við menn varðandi liðna atburði og ætla að halda mér algerlega frá deilum um það efni. En ég kemst þó ekki, að gefnu þessu tilefni frá hæstv. utanrrh., hjá að benda á, að jafnvel þó að samþykkt hefði verið í vor hin miklu hófsamlegri till. í varnarmálunum, sem var hér flutt af hálfu Alþfl. á síðasta þingi, heldur en sú till., sem að lokum var samþykkt, — en á það hefur ekki verið lögð nóg áherzla í umr. um þetta mál, að þar á er himinvíður munur, hvað sú till. var skynsamlegri en sú till., sem samþykkt var að lokum í flýti, þegar annarleg sjónarmið voru látin ráða afgreiðslu þessa máls, — en jafnvel er nú komið á daginn, að sú till., sem ráðgerði, að hægt væri að láta liðið fara einungis með þriggja mánaða fyrirvara, hefði ekki horft Íslendingum til góðs. Það er alveg áreiðanlegt, að heimurinn er enn svo óviss og margar blikur á lofti, að fyrir þjóð eins og okkur Íslendinga er betra, sjálfra okkar vegna, svo að við hugsum alls ekki um aðra, að hafa lengri tíma en þrjá mánuði til umhugsunar. Það hafði ekki orðið gerbreyting á heimsástandinu á þremur mánuðum frá 28. marz s.l., en það er öllum ljóst og kom berlega fram í ræðum þeirra tveggja hæstv. ráðh., sem hér hafa talað, að þeir viðurkenna nú, að slík gerbreyting hafi átt sér stað, og það er vissulega þar með sannað, að meiri varúð en ráðgerð var í till. Alþfl. í þessu efni er nauðsynleg, ekki sízt af hálfu okkar Íslendinga sjálfra. Að öðru leyti skal ég svo ekki ræða um það, sem hæstv. utanrrh. sagði.

En þegar hæstv. forsrh. vitnaði í þann góða félagsskap, sem hann hefði verið í og aðrir fleiri, sem hefðu verið bjartsýnir á gang heimsmálanna undanfarna mánuði, þá er að vísu rétt að hafa það í huga, að íslenzkir stjórnmálamenn eru ekki einir um það að láta kosningar hafa áhrif á ummæli sín, og það gerist alveg eins vestur í Bandaríkjunum eins og á Íslandi. Og þó að Eisenhower sé mikill stjórnmálaforingi, þá hefur hann í þessu fallið fyrir þessari sameiginlegu freistingu allra stjórnmálamanna, að vilja gera heimsástandið nokkru bjartara en raunsæir menn töldu að það væri. En það var einn fyrirvari, sem Eisenhower hafði alltaf í öllum sínum yfirlýsingum, er hann sagði: Heimsástandið er betra, vegna þess að varnir hins vestræna heims eru í lagi. — Það var vegna þess, að varnir hins vestræna heims voru í lagi, sem Eisenhower sagði að heimsástandið væri betra en raun að lokum bar vitni um. En þá má nærri geta, hvernig farið hefði, ef vörnum Atlantshafsbandalagsins hefði ekki verið haldið við.

Það, sem við Íslendingar verðum að átta okkur á í eitt skipti fyrir öll, er, að við með okkar framlagi verðum að taka þátt í þeirri varðstöðu, sem tryggir friðinn í heiminum. Það eru að vísu margs konar óþægindi því samfara að hafa hér erlent varnarlið, en meðan ekki verður gerbreyting til hins betra frá því, sem verið hefur síðustu ár, er það siðferðisleg skylda Íslendinga gagnvart sinni eigin þjóð, gagnvart okkar eftirkomendum og gagnvart umheiminum að láta ekki varnarhlekkinn bresta á Íslandi, og það var einmitt sú hætta. sem við töldum að væri að skapast með samþykkt áætlunarinnar frá 28. marz s.l. Það er því þrátt fyrir sameiginlega bjartsýni þessara tveggja stjórnarherra okkar, hæstv. forsrh. og forseta Bandaríkjanna, verulegur munur á því, sem hvor þeirra um sig vill leggja fram, til þess að bjartsýnin geti orðið að veruleika.

Það mátti einnig nokkuð marka hug hæstv. forsrh. á því, sem hann sagði, að þeir einu erlendu atburðir, sem hann taldi að hefðu aukið stríðshættuna, voru atburðirnir í Egyptalandi. Ég bið þingmenn um að leiðrétta mig, ef hann nefndi nokkra aðra atburði, sem nú hefðu gerzt og hefðu aukið á stríðshættuna, heldur en atburðina í Egyptalandi. Það hefur enginn heyrt hann nefna hér annað. og hann bætti því meira að segja við, að hann vissi ekki um, að það væri neinn til, sem héldi því fram, að aðrir atburðir hefðu þýðingu í þessu sambandi en atburðirnir í Egyptalandi.

Ég vil þó minna hæstv. ráðh. á mjög skelegg ummæli í hans eigin málgagni 6. nóv. s.l., þar sem berum orðum var sagt, að atburðirnir í Ungverjalandi hefðu breytt ásýnd heimsins og að fjörbrot gamalla nýlenduþjóða mættu ekki verða til þess að draga athyglina frá þeirri ógnþrungnu staðreynd. Þetta eru ekki ummæli mín, þetta eru ummæli Tímans, hans málgagns, þess blaðs, sem hann ræður manna mest yfir hverju heldur fram. Blaðið hélt áfram og sagði, að þessir atburðir í Ungverjalandi hefðu leitt til þess, að allar þjóðir yrðu að taka upp endurmat á alþjóðasamskiptum sínum. Það er þess vegna síður en svo, að við sjálfstæðismenn séum hér nú einir um það, eins og Tíminn aftur á móti segir í gær, að tengja saman atburðina í Ungverjalandi og atburðina á Íslandi. Sá, sem fyrst og skeleggast varð til þess að tengja þessa atburði saman, var málgagn hæstv. forsrh. sjálfs. Jafnvel í morgun, eftir að blaðið er búið að taka stefnubreytingar fram og aftur, skrifar einn af forustumönnum ungra framsóknarmanna skelegga grein að gefnu tilefni frá blaðinu, þar sem hann enn tengir þessa atburði saman. Annar ágætur stuðningsmaður hæstv. ríkisstj., hv. þm. Siglf„ Áki Jakobsson, hélt fyrir fáum dögum erindi, þar sem ljóst kom fram, að hann taldi smáþjóðunum núna stafa hættu úr allt annarri átt en hæstv. forsrh. heldur fram.

Hæstv. forsrh. vitnar mjög í stefnuna frá 1949, sem hann réttilega segir að ég hafi átt mikinn þátt í að marka. Mér dettur ekki í hug að bera á móti því, að ég beri ábyrgð á því, sem þá gerðist, og hæstv. forsrh. getur verið alveg öruggur um það, enda eru mörg vitni því til staðfestingar, að það, sem ég hafði þá eftir valdamönnum vestan hafs, var í einu og öllu rétt, enda hef ég aldrei heyrt þess getið, að það kæmi til mála, að Bandaríkjamönnum dytti í hug að hverfa frá sínum yfirlýsingum. Ég hef alltaf talið það sjálfsagt og aldrei heyrt annað en að ef Íslendingar héldu fast við það, að Bandaríkjamenn færu héðan, þá mundu þeir hverfa héðan.

Og ég segi það enn og aftur: Það er ekki af neinu tilliti til Bandaríkjamanna, að ég tel, að verja þurfi Ísland eins og önnur þjóðlönd, heldur fyrst og fremst vegna Íslendinga sjálfra, vegna þess að eins og ástandið er í heiminum, getur Ísland eitt allra þjóðlanda ekki staðið opið og óvarið fyrir þeim fyrsta ræningja, sem vill hirða landið og myrða fólkið, eins og við sjáum svo sorgleg dæmi um.

Og ég verð að segja nokkur orð við hæstv. forsrh., sem einungis talar hér um Egyptalandsmálin. Ég skal ekki á nokkurn hátt fegra framkomu stórveldanna þar, framkoma Breta þar er nákvæmlega sú sama og hún var við okkur 1940. Þá réðust þeir inn í okkar land með ofbeldi á þann veg, að einn þeirra helzti lögfræðingur hefur sagt, að ef Bretar hefðu látið sams konar lög gilda um sína stjórnmálamenn og þeir létu gilda um Þjóðverja, þá hefðu þeir menn, sem báru ábyrgðina á árásinni á Ísland, verið dæmdir fyrir stríðsglæpi. Þetta eru ekki mín orð, þetta eru ummæli fyrrverandi Lords Chansellors í Englandi, sem hefur lýst þessari framkomu Breta. Engir þekkja betur en Íslendingar það, að Bretar nota vald, þegar þeim sýnist. En við vitum líka, að þeirra valdbeiting, svo fordæmanleg sem hún er, er allt annars eðlis en þau múgmorð, sú sálarkúgun, sem hefur átt sér stað í Ungverjalandi, og erum við með því ekki að afsaka Breta.

Heldur skulum við gera okkur ljósan þann mun, sem hæstv. ríkisstj. gerir í þessu, þegar hún er á erlendum vettvangi og innlendum. Hér innanlands lætur hún sér sæma að bera þetta tvennt saman sí og æ, og forsrh. leyfir sér að koma hér og tala einungis um atburðina í Egyptalandi. En í gær var send til blaðanna, eða í blöðunum í gær birtist yfirlýsing, sem sagt er og tekið fram að ríkisstj. hafi samþykkt að greiða atkv. með og ég vil leyfa mér að lesa, með leyfi hæstv. forseta. Þar stendur:

„Á 42. fundi fulltrúa ráðherranefndar Evrópuráðsins, sem hófst í Strasbourg 6. nóvember og stendur yfir enn, var ástandið í Ungverjalandi strax tekið til umræðu á undan öðrum dagskrármálum. Var svo hljóðandi tillaga til ályktunar lögð fram:

Ráðherranefnd Evrópuráðsins harmar af alhug hin grimmilegu örlög ungversku þjóðarinnar, sem tengd er öðrum Evrópuþjóðum órofa böndum. Telur ráðherranefndin, að árás hersveita Sovétríkjanna sé grímulaus tilraun til þess að brjóta á bak aftur sjálfstæðisviðleitni Ungverja og koma í veg fyrir, að þjóðin fái fram komið þjóðlegum hugsjónum sínum með því að velja sér stjórnarhætti að frjálsu. Lætur ráðherranefndin í ljós hneykslun sína yfir þeirri kúgun, sem Ungverjar eru beittir, og krefst þess eindregið, að almennum mannréttindum og frjálsræði einstaklingsins verði komið á og þau virt í Ungverjalandi. Ráðherranefndin lýsir yfir samstöðu og djúpri samúð með ungversku þjóðinni og vottar þeim mönnum einlæga virðingu, sem berjast, þjást og falla fyrir málstað frelsis og sjálfstæðis.“

Svo segir:

„Fulltrúi Íslands hjá Evrópuráðinu fékk fyrirmæli um að greiða atkvæði með tillögunni.“ Þetta stendur í fréttatilkynningu frá ríkisstj., sem birt er í gær. En ég segi: Hefði nú ekki verið ólíkt karlmannlegra af hæstv. ríkisstj. eftir samþykkt hennar frá 5. nóv. og úr því að hæstv. forsrh. ætlaði að halda þá ræðu, sem hann flutti hér í dag, að láta fulltrúa sinn í Evrópuráðinu gera breytingartillögu við þessa tillögu og krefjast þess þar að Bretum og Frökkum ásjáandi, að íslenzka stjórnin fordæmdi ofbeldið alveg án tillits til þess, hver það framdi? Nei, á Íslandi er gott að láta eins og þetta sé alveg sambærilegt, en kjarkurinn er dálítið minni, þegar þeir eiga að horfa framan í þá háu herra sjálfa.

Annað kom fram hjá hæstv. ráðherra, og ég bið nú þá hv. þm., sem voru hér staddir 28. marz, og almenning, sem hefur fylgzt með umræðunum síðan, að hugleiða það, sem fram kom. Hæstv. ráðherra segir: Við getum ekki í einstökum atriðum sagt, hvað við ætlum að gera í varnarmálunum, af því að áður verðum við að fá upplýsingar frá þeim samningamönnum, sem hingað eru að koma. — Endirinn á allri sjálfstæðisbaráttunni er þá sá, að nú má ríkisstj. Íslands ekki lýsa yfir því, hverju hún ætli að halda fram í varnarmálunum, fyrr en Bandaríkjamenn eru búnir að segja henni, hverju hún eigi að halda fram.

Svo segir hæstv. forsrh., að það liggi ekki enn þá fyrir, að ríkisstj. sé ósammála í þessu efni. Ja, verði kommúnistunum að góðu að fylgja ríkisstj. eftir allar þessar yfirlýsingar.