16.11.1956
Sameinað þing: 10. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 250 í D-deild Alþingistíðinda. (2628)

43. mál, endurskoðun varnarsamningsins

Forsrh. (Hermann Jónasson):

Það er nú smátt og smátt að koma í ljós, að þessi till. hv. 1. þm. Reykv. er ekki flutt beinlínis í þeim tilgangi, sem orðin hljóða í sjálfri tillögunni og fyrsta ræðan.

Þetta var satt að segja einhver furðulegasta ræða og furðulegustu útúrsnúningar, sem ég hef heyrt hér í þingsölunum, þessi röksemdafærsla, að ég sem forsrh. hafi látið það undir höfuð leggjast að fordæma árásirnar á Ungverjaland og sé raunverulega meðmæltur því, að það hafi verið ráðizt á Ungverjaland, því að það er það, sem kom fram í þessari ræðu, — að ég mundi vera reiðubúinn til þess að gera breytingartillögu til Evrópuráðsins um það að fordæma hana ekki, vegna þess að ég talaði ekkert um Ungverjaland, og ræddi, sem ég skal gera grein fyrir nánar, út frá hvaða sjónarmiði menn telja yfirleitt að stríðshættan stafi í dag.

Það verða aldrei of sterk orð notuð um árásina á Ungverjaland, og ríkisstj. hefur gefið þar út sína yfirlýsingu. Samræmið í málflutningnum er nú ekki meira en það, að hv. þm., segir, að fá blöð hafi fordæmt árásina eins skelegglega og Tíminn, sem þessi hæstv. ráðherra, sagði hann, þ.e. forsrh., ræður mest yfir.

Ég skal ekkert segja um það, hvort þessi ummæli hans um mín yfirráð yfir Tímanum eru rétt, en ég býst við, að það sé eins og allt annað í okkar flokki, að þar ræður okkar lýðræðislega skipulag. En það er alveg áreiðanlegt, að sú fordæming, sem þar hefur verið gerð, er ekki í minni vanþökk. En hvers vegna lét ég þau ummæli falla, að stríðshættan væri fyrst og fremst, að áliti stjórnmálamanna, í sambandi við Súez? Það er af þeirri einföldu ástæðu, að undanfarið hefur verið rætt opinberlega af stjórn Bandaríkjanna, og liggja fyrir yfirlýsingar, sem enn hefur ekki verið breytt, og það að gefnu tilefni vegna ummæla eins háttsetts stjórnmálamanns, að þeir mundu ekki fara inn í Austur-Evrópu, svokölluð leppríki, til þess að skakka leikinn; það yrði fyrst og fremst að koma sem þróun hjá þjóðunum sjálfum, áður en til þess kæmi. Og það hefur verið gengið út frá því, — það er nú einu sinni þannig með þessi veldi, — að ef til þess kæmi, væri þar vís heimsstyrjöld. Og þrátt fyrir þessar hjálparbeiðnir, sem hljóma um víða veröld frá Ungverjum, þá er þetta það sorglega, að ekkert hefur verið hægt að gera. Eftir yfirlýsingunni, sem fyrir liggur, er þessu þannig háttað.

En viðkomandi Súez er það að segja, að það hafa sennilega flestir gert sér grein fyrir því, að núna standa sakir þannig, og rétt þegar ég kom hingað, voru að berast blöð erlendis frá, þar sem þessir atburðir eru ræddir, og ég hafði sérstaklega í huga yfirlit New York Times frá síðasta sunnudegi um þessa atburði, þar sem það sýnir fram á, — og þeir væru þá með sama markinu brenndir og ég, ef það væri leyfileg slík röksemdafærsla að endemum sem hér hefur komið fram frá hv. þm., — að þeir tala fyrst og fremst um það, að hættan, stríðshættan, sé vegna þeirra geysilegu hagsmuna, sem eru f kringum Súez. Og það, sem er enn þá óaðgert, eftir því sem virðist, er, að þetta takmark, sem Frakkar og Englendingar hafa reynt að ná, — ég er að fara um þetta nokkrum orðum vegna ræðu hv. þm., — það takmark, sem þeir hafa ætlað sér að ná í upphafi, hafi verið að ná Súezskurðinum og yfirráðum yfir honum, og það sé ekkert launungarmál, að það hafi verið tvennt, sem hafi snúið þeim við, það séu hótanir Rússa og hótanir Bandaríkjamanna um fjárhagslegar þvinganir. Hins vegar sé alls ekkert afgert enn, og það veit maður ekkert um, hvort Rússar og jafnvel Kínverjar — það liggur ekki nægilega ljóst fyrir enn — senda sjálfboðaliða inn í Egyptaland á svipaðan hátt og í Kóreu, og þá sjá menn vitanlega fljótt, hvað þar mun gerast, en það liggur ekki fyrir.

Hins vegar er það, sem ég sagði áðan, að Bretar hafa ekki enn þá náð þessu takmarki. Þeir hafa hætt við hálfnað verk, og það, sem liggur fyrir núna, er það, sem er eftirtektarverðast, að Nasser, sem ýmsir telja jafnvel ekki mjög sterkan í sessi enn þrátt fyrir allt, segir: Ég sleppi lögregluliðinu aldrei að Súezskurðinum. — En það var takmark Frakka og Breta að koma liði Sameinuðu þjóðanna að Súezskurðinum og láta það gæta hans. En hinir segja: Við förum ekki úr Egyptalandi, fyrr en búið er að koma lagi á siglingarnar á Súezskurðinum.

Hvað úr þessu verður, eins og með sjálfboðaliðana, veit maður alls ekki. Það veldur því, að yfir vofir sú mikla óvissa, sem vofir núna yfir veröldinni. Það er þess vegna á allan hátt sá fyllsti útúrsnúningur og rangfærslur, sem farið er með, þegar blandað er saman við fordæmingu á þessum atburðum ummælum mínum. Ég sagði ekki, að það væri eina stríðshættan; ég sagði, að þeir atburðir virtust valda mestri stríðshættunni. Og ef ég hef sagt hér annað, þá misminnir mig. En það getur komið fyrir fleiri, því að einu sinni, þegar hitnaði í þessum hv. þm. hér um daginn, lýsti hann því yfir, að hann hefði verið á móti gengisfellingunni 1950, og það birtu blöðin eftir honum. Svo lýsti hann því yfir daginn eftir, að þetta hefði ekki verið meiningin, hann hefði ætlað að lýsa því yfir, að hann hefði verið á móti gerðardómslögunum gömlu frá 1942, og ekkert blað var þannig, að því dytti í hug annað en að taka leiðréttinguna gilda. — En ég kannast ekki við að hafa sagt, að það væru einu atburðirnir; ég segi, að samkvæmt þeim rökum, sem ég hef bent á, eru það þeir atburðir, sem líklegastir eru til ófriðar eins og stendur, algerlega óskylt fordæmingu á atburðunum í Ungverjalandi, sem ég veit að enginn þm. hér í þessari hv. d. lætur sér detta í hug annað en ég fordæmi eins mikið og nokkur maður getur fordæmt.

Viðkomandi því, að við eigum að segja hér í þinginu, hvernig við ætlum að semja, og reyna að hártoga ummæli mín um það, þá er það alveg nákvæmlega sama. Og það er leiðinlegt, þegar verið er að tala um utanríkismál og eru gefnar hér upplýsingar og yfirlýsingar, sem eru þannig eins og umræður eiga að vera um utanríkismál, að slíkt skuli eiga sér stað.

Ég vil nú minna hv. þm. á það eða spyrja hann að því og spyrja hv. alþm. að því, það getur vel verið að mig misminni: Hvenær hefur það komið fyrir, þegar komið hafa samninganefndir frá erlendum þjóðum, að það hafi verið gefnar yfirlýsingar um það í einstökum atriðum, hvernig við höfum ætlað að semja? (Gripið fram í.) Hvenær hafa þær komið? (ÓTh: Hér er verið að spyrja um í grundvallaratriðum.) Ja, hann spurði um það, hvernig við ætluðum að semja, og ég spurði bara að þessu: Hvenær hefur það komið fyrir? Svari einhver þm. Og hvaða aðferð er það yfirleitt, þegar maður gengur til samninga, að lýsa því yfir í einstökum atriðum, hvernig maður ætli að semja. Sú aðferð hefur aldrei verið notuð á þeim tíma, sem hv. 1. þm. Reykv. (BBen) var utanrrh., svo að ég muni til.

Þessi ríkisstj. á að vera sérstaklega hatrömm í varnarmálunum, en svo er allt í einu snúið við blaðinu, af því að ég segi, að vitanlega ræðum við við þessa menn og sjáum, hvað þeir koma með, áður en ég fer að lýsa því yfir, hvað gera skal. Og nú á það allt í einu að vera orðið þannig, að ég á að vera orðinn svo óskaplegur Bandaríkjavinur og Bandaríkjadindill, sem í hinu orðinu er úthúðað fyrir, hvað ég sé fjandsamlegur, að ég muni fara í einu og öllu eftir þeim upplýsingum, sem þeir bera á borð. Þetta er röksemdafærslan.

En ég verð nú að segja það eins og er, að þrátt fyrir það, að það sé vitanlega skylt hverjum manni, sem semur fyrir sína þjóð, að gera sér grein fyrir þeim upplýsingum, sem hann fær, gera sér grein fyrir þeim, hvaðan sem þær koma, og gera sér grein fyrir því, hvað í þeim er rétt og hvað kann að vera rangt, að ég er ekki svo vitur, að ég telji mig það mun meiri mann en Snorra gamla goða, þegar hann var að leita upplýsinga um þau atriði og leiðbeininga um þau atriði, sem hann ætlaði að fara að ráða fram úr, og var spurður að, hvers vegna hann gerði slíkt. Hann sagði: Mér hefur reynzt það þannig, að það væri nauðsynlegt að hlusta á allar rökræður. — Efnislega þannig. (Gripið fram í: Og líka upplýsingar frá NATO?) Ég veit ekki, hvað þm. á við, það er velkomið, að hann taki fram í.

Þess vegna er það, að ég mun fara að þeirri reglu að hlusta á það, sem samningamenn segja, hvaðan sem þeir koma, en reyna að gera mér grein fyrir því, hvernig á að snúast við þeim upplýsingum og hvað í þeim ég tel rétt eða miður rétt. Það er sú regla, sem ég mun fylgja í samningum og hef fylgt fram til þessa. Þessi ummæli hv. þm. eru þess vegna, hvert einasta atriði, ekkert annað en hártogun og útúrsnúningar, þegar verið er að ræða og honum er svarað efnislega um atriði, sem ættu sannarlega að vera alvarlegar umræður um hér á Alþingi. Í raun og veru er það svo, enda kom það ekki fram hér i þessum umr., að það væri amazt við því, að þessar umr. færu fram. Það er þvert á móti eðlilegt, og ég hef oft haldið því fram, að umr. fari hér fram um utanríkismál. En þær eiga þá a.m.k. ekki að fara fram í þessum dúr, þar sem með því er ekki verið að leita, að því er virðist, að sannleikanum í málunum, heldur er ræðunum snúið upp í aðra eins útúrsnúninga og hjá hv. 1. þm. Reykv. En ég hygg, að þessi ræða sé met í því og það í alvarlegum umr. eins og þessum.