13.03.1957
Sameinað þing: 45. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 257 í D-deild Alþingistíðinda. (2634)

131. mál, sjóefnaverksmiðja

Flm. (Geir Gunnarsson):

Herra forseti. Þáltill. sú, sem hér er til umr., hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að láta hraða sem mest byggingu tilraunaverksmiðju, er vinni salt og önnur efni úr sjó, og afla sér heimildar til sérstakrar fjárveitingar í því skyni. Á grundvelli tilraunanna verði síðan gerðar endanlegar áætlanir um stofn- og rekstrarkostnað fullkominnar sjóefnaverksmiðju.“

Til skamms tíma hafa Íslendingar ekki getað talið land sitt búa yfir öðrum hagnýtum gæðum en þeim, er þénuðu til fiskveiða og landbúnaðar. Afl stórfljóta, sem áður gerði landið óbyggilegra, hefur nútímatækni gert að mikilvægum auðlindum, og jarðhiti, sem áður var einungis náttúruundur, telst nú til hinna mestu landgæða.

Landsmönnum mun lengi hafa verið ljóst, að auk þess að nýta afla þann, sem sjórinn gaf, mætti hafa not af sjálfum efnum sjávarins, og með frumstæðum aðferðum var reynt að vinna úr honum salt. Árið 1773 var gerð tilraun til að nýta jarðhita í því skyni, en gafst ekki vel, enda tækni þá á lágu stigi. Síðan hefur tækninni fleygt fram og á þeim grundvelli verið gerðar frekari rannsóknir um notkun jarðhita til saltvinnslu. Árið 1949 var á vegum jarðborana ríkisins gerð athugun á möguleikum til saltvinnslu í Hveragerði, og árið 1953 fékk bæjarráð Hafnarfjarðar Baldur Líndal efnaverkfræðing til þess að gera athuganir um saltvinnslu í Krýsuvík. Í skýrslu um þá athugun taldi hann, að í Krýsuvík mætti vinna salt, sem væri ódýrara og betra en innflutt. Gat hann þess sérstaklega, að með framleiðslu saltsins innanlands mætti koma í veg fyrir, að í saltinu væru þau efnasambönd, sem valda gulu í fiski, en af henni hefur hlotizt stórfellt tjón hérlendis, svo sem kunnugt er.

Í rannsóknum þessum var gert ráð fyrir verksmiðju, sem framleiddi 35 þús. tonn af salti á ári, en ekki talið unnt á því stigi málsins að segja um, hvort sú verksmiðja yrði betur staðsett í Krýsuvík eða á Reykjanesi, þar sem þá var ekki lokið athugunum á siðar nefnda staðnum. Ári síðar, eða í desember 1954, gaf raforkumálastjórnin út fyllri skýrslu eftir Baldur Líndal um mál þessi. Telur hann þá saltþörf landsmanna svo mikla, að á þeim markaði einum megi grundvalla myndarlega saltverksmiðju, og ekki ósennilegt, að eftir nokkra tugi ára muni heildarsaltþörf innanlands nema 100–200 þús. tonna á ári.

Í skýrslu þessari gerir Baldur Líndal samanburð á hagkvæmni þriggja staða á landinu til saltvinnslu, þ.e. Reykjaness, Krýsuvíkur og Hveragerðis, og kemst að þeirri niðurstöðu, að Krýsuvík hafi bezta framtíðarmöguleika til saltvinnslu hér á landi. Telur hann, að Krýsuvík sé bezt sett um flutning á salti frá verksmiðjunni og gufuvinnslumöguleikarnir séu þar meiri og gufuvirkjun ódýrari en á Reykjanesi.

Eftir að þessi skýrsla var gefin út í desember 1954, var haldið áfram athugunum á þessu sviði og það jafnframt tekið með í reikninginn, að saltinnflutningur jókst, og þá talið, að hann væri að ná 50–60 þús. tonna á ári, auk þess sem salt hækkaði í verði.

Þess skal getið í sambandi við þessar áætlanir, sem gerðar voru seinni hluta árs 1954, að árið 1955 reyndust vera flutt inn 56 þús. tonn af salti fyrir 13.8 millj. kr., og árið 1956, á s.l. ári, 76.5 þús. tonn fyrir 21.1 millj. kr., og virðist því hafa komið fram, að saltinnflutningur hafi aukizt og saltverð hækkað.

Í nóvember 1955 var af sömu aðilum og áður er getið gefin út grg. eftir Baldur Líndal um hagnýtingu fleiri efna úr sjó jafnframt saltvinnslu. Er þá talið, að aðstæður hafi breytzt svo, að saltmarkaður hérlendis geti innan fárra ára numið á annað hundrað þús. tonna árlega, og þess vegna batnað mjög aðstaða til vinnslu aukaefna og jafnvel, miðað við þáverandi markað hér á landi, talið hagkvæmt að hagnýta aukaefnin.

Stofnkostnaður sjóefnaverksmiðju í Krýsuvík, miðað við 40 þús. tonn af salti á ári, er þá, 1955, talinn nema 30–37 millj, kr., en rekstrarkostnaður 12–13 millj. á ári, en verðmæti afurða 151/2 millj. kr. á ári. Með stærri verksmiðju, er framleiddi 100 þús. tonn salts á ári, mundi vinnslukostnaður lækka og salt það, er yrði umfram þarfir landsmanna, gæti orðið grundvöllur að stórvinnslu á klóri og vítissóda.

Sjóefnaverksmiðja, sem auk salts framleiddi magnesíum-hydroxid, kalíum-klóríð, bróm og gips, er talin geta orðið grundvöllur undir meiri háttar stóriðju til framleiðslu útflutningsverðmæta. En áður en slík verksmiðja yrði reist, þarf í fyrsta lagi að byggja tilraunaverksmiðju, til þess að örugg lokaáætlun fáist, og í öðru lagi þurfa að fara fram í Krýsuvík ýtarlegar jarðboranir, svo að fullnaðarvissa fáist fyrir því, að þar sé til staðar nægilegt gufumagn til verksmiðjunnar auk þess, sem þarf til annarra nota, og þá fyrst og fremst hitaveitu, en skv. áætlun er talið, að svo muni vera.

Líkur benda til þess, að innan tíðar verði fyrir öðrum þessara þátta séð. Í Krýsuvík munu sennilega á næstunni verða hafnar jarðboranir með stórvirkum tækjum og þá koma í ljós orkumagnið þar. Fyrir byggingu reynsluverksmiðju hefur ekki verið nógu vel séð, og er hætt við, að sú framkvæmd dragist á langinn, ef ekki er að gert. Á fjárlögum hefur á undanförnum árum staðið sama upphæð til brennisteinsrannsókna og annarra rannsókna á hagnýtingu jarðhita til iðnaðar, og hefur sú upphæð í raun og veru lækkað ár frá ári með hækkuðu verðlagi. Upphæð þessi er of lág til þess, að auk annarra nauðsynlegra rannsókna verði fyrir það fé byggð reynsluverksmiðja til sjóefnavinnslu, og þarf til þeirrar framkvæmdar að koma sérstök fjárveiting.

Með tilliti til þess, hversu brýn nauðsyn virðist á því, að reist verði hér á landi fullkomin sjóefnaverksmiðja, — og ég vil í því sambandi minna á, að á s.l. ári var salt flutt inn fyrir rúml. 21 millj. kr., leyfi ég mér að vænta þess, að hv. Alþ. samþykki að skora á ríkisstj. að afla sér heimildar til sérstakrar fjárveitingar í því skyni að hraða fullnaðarrannsókn á málinu í heild.

Þótt menn greini e.t.v. á um gildi ýmiss þess iðnaðar, sem upp hefur risið hér á landi á undanförnum árum, að því er sumir telja ýmist í skjóli tollverndar eða verzlunarhafta eða hvors tveggja, munu þó flestir sammála um, að aukning iðnaðar, sem byggir á íslenzkum hráefnum og orku og starfar í þágu útvegsins og getur aukið verðmæti fiskafurðanna og orðið grundvöllur að stóriðju til útflutnings, sé þjóðarnauðsyn. Með því að byggja upp þess konar framleiðslu með hagnýtingu innlendra orkulinda og hráefna er þjóðin að auka landgæðin og tryggja afkomu sína.

Að lokum vildi ég leggja til, að umr. verði frestað og málinu vísað til hv. allshn.