13.03.1957
Sameinað þing: 45. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 259 í D-deild Alþingistíðinda. (2635)

131. mál, sjóefnaverksmiðja

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að ræða um þessa till. á þessu stigi, af því að ég gerði ráð fyrir, að henni mundi verða vísað til fjvn., en úr því að hér er till. um að vísa henni til allshn., vildi ég aðeins segja örfá orð um þetta mál.

Það er alveg rétt, sem hv. flm. rakti hér áðan í sinni ræðu, að rannsóknir þær, sem farið hafa fram varðandi hagnýtingu og vinnslu á salti og öðrum efnum í því sambandi, benda til þess, að það gæti verið hagkvæmt þjóðhagslega að setja upp slíka sjóefnaverksmiðju sem um ræðir í þessari till. Og er það auðvitað sjálfsagt, að það mál sé kannað til hlítar. Hins vegar vildi ég í þessu sambandi og til athugunar fyrir þá hv. n., sem fær þetta til meðferðar, aðeins upplýsa það, að þetta mál ásamt allmörgum öðrum hliðstæðum er nú til meðferðar í sérstakri n., sem Alþ. hefur kjörið, atvinnumálanefnd ríkisins, og til þess var kjörin að gera tillögur um nýjar atvinnugreinar og hagnýtingu náttúruauðlinda. Og áður en tekin yrði ákvörðun um það hér á hinu háa Alþ. að taka þetta mál sérstaklega út úr þeirri athugun, sem þar fer fram, teldi ég a.m.k. nauðsynlegt fyrir hv. allshn. að afla sér um það upplýsinga og álits atvinnumálanefndar ríkisins, hvernig þau mál stæðu þar og hvort heppilegt yrði talið að afgreiða þetta mál sérstaklega eða í sambandi við þá heildarniðurstöðu, sem vænta má að komi frá þeirri n. innan tíðar.