31.10.1956
Sameinað þing: 4. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 263 í D-deild Alþingistíðinda. (2641)

15. mál, eftirgjöf lána vegna óþurrkanna

Flm. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt 2. þm. Árn. að flytja till. á þskj. 15 um eftirgjöf lána vegna óþurrkanna sumarið 1955. Till. hefur verið útbýtt hér í hv. Alþ., og hafa hv. þm. þess vegna lesið hana og gert sér grein fyrir, hvað í henni felst. Í sjálfu sér er ekki nauðsynlegt að bæta miklu við það, sem í grg. till. felst.

Það er kunnugt, að yfir Suðvesturland gengu slíkir óþurrkar sumarið 1955, að elztu menn muna ekki slíkt, og talið, að í hálfa öld hafi ekki slíkt tíðarfar komið yfir þennan landshluta. Það er þess vegna eðlilegt, að slíkt tíðarfar skilji eftir sig spor í efnahag og lífi þeirra manna, sem hafa orðið fyrir slíku. Það er nú fyrst eftir á, sem þetta er ljósara en áður. Það er nú komið á daginn, að margir bændur hafa safnað stórskuldum vegna fóðurbætiskaupa. Það var reynt að halda fénaðinum lifandi. Það var einnig reynt að fá nokkra nyt úr kúnum og halda öðrum búpeningi óskemmdum. Og þetta tókst með því að auka fóðurbætiskaupin svo mjög sem raun ber vitni.

Þegar um það er að ræða að veita aðstoð vegna slíkra atburða, þarf helzt að hafa aðstoðina í því formi, að hún komi fyllilega að gagni. Á s.l. hausti var ákveðið að veita lán með sæmilegum kjörum, 5% vöxtum til sex ára, og samkv. þeim upplýsingum, sem ég hef fengið hjá Búnaðarbankanum, var lánsupphæðin alls 12 millj. 509 þús. og 600 kr. Þar af lagði ríkissjóður fram 9 millj. 512 þús., en framlag frá bjargráðasjóði var 2 millj. 997 þús. og 600 kr.

Það blandast vitanlega engum hugur um, að bjargráðasjóður verður að fá aftur það, sem hann lagði fram, og yrði ríkissjóður þess vegna að leggja fram nýtt fé, sem nemur þeirri upphæð, er bjargráðasjóður lét af hendi, en það eru tæpar 3 millj. kr. og verður ekki talið mikið, miðað við þær fjárhæðir, sem fjárl. nú miðast við.

Ég er ekki í nokkrum vafa um, að ef hv. þm., sem ekki eru nægilega kunnugir þessum málum, vilja hafa fyrir því að kynna sér aðstöðu þeirra, sem hafa orðið fyrir búsifjum vegna tíðarfarsins, ríkir sú sanngirni hér í hv. Alþ.,þm. fallast á samþykkt þessarar till.

Ég sé ekki ástæðu til við þessa fyrri umr. að hafa um þetta fleiri orð. Ég vil leggja til, að till. verði vísað til fjvn. að lokinni þessari umr., og þar verður þetta mál vitanlega athugað nánar, og þeir, sem ekki telja að svo stöddu réttmætt að samþykkja till., hafa þá tækifæri til þess að kynna sér málið til hlítar. Ég sé svo ekki ástæðu til að segja meira að sinni.