31.10.1956
Sameinað þing: 4. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 266 í D-deild Alþingistíðinda. (2643)

15. mál, eftirgjöf lána vegna óþurrkanna

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Orsökin til þess, að ég kvaddi mér hljóðs, er sú, að í grg. fyrir þessu stendur:

„Fjöldi bænda varð að minnka bústofn vegna lélegra heyja.“

Flm. hafa ekki haft fyrir að kynna sér málið nánar, en gefa þarna í skyn, að hér hafi verið um fjölda bænda að ræða og fækkunin þess vegna sjálfsagt allveruleg.

Nú liggja fyrir um þetta skýrslur, og það, sem ég þess vegna fyrst og fremst vil benda hér á, er, að þegar lögð eru svona mál fyrir alþm. yfirleitt, er varla frambærilegt að nenna ekki að hafa fyrir að afla sér þeirra upplýsinga, sem til eru, svo að málið liggi ljóst fyrir og menn eigi sem auðveldast með að átta sig á því. En þetta er ekki gert hér. og þar sem í hlut á fyrrverandi ráðherra, ætti honum að vera það alveg ljóst, að þessara upplýsinga á hann að afla sér og gefa um leið og hann leggur málið fyrir Alþingi.

Nú skulum við gá að, hvernig þetta er lagað eftir skýrslum hagstofunnar. Vestur-Skaftafellssýsla átti 861 kú og fækkaði þeim um 13, en fjölgaði fénu um 714. (Gripið fram í.) Þetta var Vestur-Skaftafellssýsla. Rangárvallasýsla átti 4415 kýr og fækkaði þeim um 168, en fjölgaði aftur fénu um 3445. Árnessýsla átti 5992 kýr. fækkaði þeim um 335, en fjölgaði fénu um 4793. Gullbringu- og Kjósarsýsla áttu 2279 kýr, fækkuðu þeim um 166, en fjölguðu fénu um 1205. Og Borgarfjarðarsýsla átti 1964 kýr, fækkaði þeim um 51 og fjölgaði fénu um 2099. Mýrasýsla átti 1834 kýr, fækkaði þeim um 77 og fjölgaði fénu um 525. Snæfellsnessýsla fækkaði kúnum um 14 og fækkaði fénu um 64, og þar er raunveruleg minnkun á meðalbúinu.

Þetta eru staðreyndirnar og á þessu byggja flm. umsögn sína um, að fjöldi bænda hafi minnkað bústofn sinn. Þetta eru tölurnar. Að öðru leyti skal ég ekki taka afstöðu til málsins núna. en ég vildi gefa þessar upplýsingar, og þessara upplýsinga áttu flm. að afla sér og leggja fram, og helzt líka um efnahag bænda á svæðinu. samanborið við hag bænda í öðrum byggðarlögum, því að líka um það má fá mikilsverðar upplýsingar, ef nennt er að afla þeirra.