31.10.1956
Sameinað þing: 4. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 267 í D-deild Alþingistíðinda. (2645)

15. mál, eftirgjöf lána vegna óþurrkanna

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég tók ekki afstöðu til till. á neinn handa máta og ætla mér ekki að gera að svo stöddu, því að hún þarf, ef hún verður samþ. á Alþ., að vera í allt öðru formi og miklu víðtækari en þessi till. er, sem hér liggur fyrir. Ég bendi bara á þá staðreynd, að hv. 1. flm., fyrrv. ráðh., hefur ekki nennt að kynna sér málið og gefur viljandi rangar og villandi upplýsingar. Ja, hvernig er það í Rangárvallasýslu? Það eru 168 kýr, sem hefur fækkað um þar, en það er 3445 kindum fleira þar á fóðri 1955–56 en veturinn áður. Hefur þá meðalbúið minnkað? Ég spyr. Hefur fjöldinn af bændunum þá fækkað, minnkað meðalbúið verulega, þegar þeir fækka um 168 kýr og fjölga fénu um 3445? Það er svo óveruleg breyting á bústofninum sem heild hjá meðalbóndanum, að það er algerlega ástæðulaust að segja, að fjöldi bænda hafi þurft að fækka verulega, algerlega ástæðulaust. Nú, fyrir liggja þar að auki skýrslur um skuldirnar, ég skal ekki fara að fara út í það núna, en náttúrlega átti hv. ræðumaður líka að vera búinn að afla sér upplýsinga um þær — þær liggja líka fyrir — og leggja þær fyrir hér líka, en ég vil bara benda á þetta og benda á þetta til viðvörunar framvegis. Svona á ekki að leggja mál fyrir. Það á að skýra frá málunum eins og þau raunverulega liggja, þannig að menn geti áttað sig á þeim, en ekki með tæpitungu og gefa allt annað í skyn en það, sem raunverulega er.