21.11.1956
Sameinað þing: 11. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 274 í D-deild Alþingistíðinda. (2656)

48. mál, hafnarstæði

Flm. (Ásgeir Sigurðsson):

Herra forseti. Till. á þskj. 53 beinir þeirri ósk til hæstv. ríkisstj., að látin sé fram fara athugun á nokkrum nafngreindum hafnarstæðum á Íslandi.

Eins og hv. alþm. er kunnugt, þá er lítið um góðar hafnir á svæðinu frá Reykjanesi og austur fyrir Horn. Ég vil að vísu undanskilja Vestmannaeyjar, því að þar er nú tekið á með báðum höndum, verið að vinna mikið verk og langt komið með að gera þar eins góða höfn og efni standa til, enda er það ekki vonum fyrr, því að þar er mikil útgerð, þar eru sjógarpar miklir, sem sækja sjóinn fast.

Ég vil svo aðeins minnast á tvær hafnir eða tvö hafnarstæði, sem ekki hafa verið tekin með i þessa till. Það er Þykkvabæjarhöfn, þar er verið að gera athugun nú. Það væri vonandi, að hún leiddi það í ljós, að þar megi byggja góða höfn, því að sannarlega þurfa Rangæingar eins og aðrir á góðri höfn að halda. Þá vil ég með nokkrum orðum víkja að Dyrhólaey. Þar er talað um að byggja höfn. Á síðasta Alþ. mun hafa verið samþykkt, að þar skyldi fara athugun fram. Ef rétt er munað, þá munu Þjóðverjar fyrir um 50 árum hafa boðizt til þess að byggja þar höfn fyrir Íslendinga, en með þeim afarkostum, að Íslendingar gátu ekki gengið að því, og ætti það þó að vera næg sönnun fyrir því, að þar er hægt að byggja höfn. Og væri það gleðilegt, ef Vestur-Skaftfellingar fengju að lokum góða höfn, svo lengi hafa þeir barizt hetjulegri baráttu við hafnleysið og við hina brimóttu strönd. Og þá er það víst, að þegar svo langt er komið, að höfnin er komin þar, þá munu sveitirnar blómgast enn betur og akrar breiða sig yfir sandana og sjávarútvegur aukast og blómgast við hin nýju skilyrði.

Þá kem ég að fyrsta staðnum í tillögunni, þ.e. Papaós. Eins og nafnið ber með sér, þá mun það vera fyrsta höfn sem siglt hefur verið á á Íslandi. Papaós liggur austan við Vestra-Horn. Þar er skjól í þeim vindum, sem ófært er á Hornafirði. Svo hagar til þar nú, að höfnin er nærri sandorpin. Að vísu er þar innsiglingarmerki, og bátar geta flúið þar inn allt að 20 rúmlestum, en fyrr meir kvað höfnin hafa verið betri og stærri, og gamli hafnsögumaðurinn í Hornafirði tjáði mér, að hann hefði farið þar inn með 100 rúmlesta skútur. Ef byggður væri garður út á skerin, sem eru vestan við Papaós, þá er það víst, að þar mundi koma gott skjól fyrir innsiglinguna í höfnina, og ef höfnin væri grafin upp með sandsugum og grafvélum og jarðýtum, þá er líklegt, að þar mundi verða lífhöfn Nesjamanna og Austur-Skaftfellinga. En þannig hagar til á Hornafirði, að þar getur verið ófært bæði dögum og stundum vikum saman í sunnan- og vestanátt, þegar foráttuveður eru.

Úti fyrir Hornafirði er skerjótt og útgrynni mikið. Ósinn er straumharður og mjög breytingum undirorpinn. En inni á höfninni hefur verið gert mikið verk til þess að reyna að greiða fyrir sjávarútvegi, sem þar er allmikill á vetrum sérstaklega, en það nægir ekki, þegar skipin komast ekki út úr höfninni eða inn í hana dögum og jafnvel vikum saman. Sem dæmi um það, við hvaða örðugleika Hornfirðingar eiga að etja, má benda á það, að einn stórviðrisdag, þegar þeir litu til sjávar, var innsiglingarviti, sem stóð þar á sandinum innan við Hvanney, horfinn og kominn nærri skipgengur áll, þar sem vitinn stóð daginn áður. Það er með öðrum orðum ekki hægt að beizla Atlantshafið þar. Þess vegna væri mjög æskilegt og ánægjulegt, ef hægt væri að gera góða höfn fyrir Hornfirðinga á Papaósi. Og þá er það víst, að þeir menn, sem búa í þeim fögru sveitum, mundu una enn betur sinum hag við hljómkviður jöklanna, við ræktun landsins og við örugga útgerð.

Þá vík ég að Borgarfirði eystra eða Njarðvíkinni. Ég vil aðeins geta þess, áður en ég fer lengra, að svo háttar til, að frá Seyðisfirði til Eyjafjarðar er í norðaustanstórviðrunum engin örugg höfn. Að vísu er lengi hægt að hafa samband við Vopnafjörð, en það er ekki öruggt og getur orðið alveg ófært. Að vísu eru líka þrjár eyðivíkur, þar sem liggja má í skjóli, en áætlanir eru ekki þannig gerðar nú, að skip hafi tíma til þess að liggja og bíða. En á Borgarfirði hagar þannig til, að norðaustanaldan veltist þar inn alla leið inn í botn fjarðarins, svo að kolbrýtur yfir fjörðinn þveran, og þar er ekki viðlit fyrir skip að hafa viðkomu í þeim áttum. En norðan í Borgarfirðinum, innan við Krossanesið, held ég að það heiti, er Njarðvíkin. Út í þá vík eru sker suður, það langt, að ef byggður væri garður á þau sker, mundu þar skapast hin öruggustu skilyrði fyrir afgreiðslu skipa, enda er þar mörkuð skipalega í víkinni, og hefur því verið gert ráð fyrir í fornöld, að þar legðust skip. En Borgarfjarðarhérað er sumarfagurt og vetrarhart, og þar eru dugandi sjómenn, mjög duglegir menn, sem þyrftu nauðsynlega að fá góða höfn.

Ég kem þá að Vopnafirði. Það er víðlent og fagurt hérað, eins og allir vita. Þar er að vísu höfn, en hún er ekki góð, eins og ég hef áður sagt. En norður úr Vopnafjarðarflóanum, utan við Kolbeinstanga, innan við Fiskanes, er Nýpsfjörðurinn, og inn af þeim firði er Lónið. Mér er sagt, að Lónið sé djúpt og þar sé auðvelt að byggja bryggjur, og enskur verkfræðingur, sem einu sinni ferðaðist með mér, sagði mér, að á þeim stað mætti gera einhverja beztu höfn á Íslandi.

Þá kem ég að Eiðisvík á Langanesi. Hún er sunnarlega á nesinu, og þar er ágætis skjól fyrir öllum áttum frá suðvestri til norðausturs, þegar ófært er að liggja á Þórshöfn. Eiðisvíkin er hugsuð sem höfn fyrir austanverðan Þistilfjörð, því að inn af Eiðisvíkinni er Eiðisvatn, og þar á milli er malarkambur, og ef gert væri ráð fyrir því, að það væri hægt að vinna á þeim kambi, þá er það víst, að þar er hægt að gera mjög góða höfn, og vegalengdin frá Þórshöfn og út að Eiðisvatni er um 16 km, svo að það væri ekki frágangssök fyrir Þistilfirðinga að austanverðu, sem þurfa mjög á góðri höfn að halda, að aka þangað eftir vörum sínum og öðrum viðskiptum við skip, því að þar eru, eins og víða annars staðar, blómleg héruð og sumarfagurt, margar og góðar veiðiár og mikið fiski, bæði síldfiski og annað, báðum megin við Langanes.

Þá kem ég að Axarfirði. Á Axarfirði er Kópasker aðalhöfnin eins og er, og þar hagar eins til og á Þórshöfn, að þar er ófært í öllum veðrum frá suðvestri til norðausturs. Það er grunnt á legunni, mikið af skerjum og illt að fá akkerin til þess að halda, en vestan til á Axarfirðinum, upp við fjöllin, innan við Tjörnesið, er Fjallahöfn, og inn af Fjallahöfninni er lítið lón eða vatn, sem gera má ráð fyrir að væri hægt að grafa inn í. Hvernig botninn er í því lóni, veit ég ekki, eða hversu djúpt það er, en eitt er víst, og það er það, að gott er að flýja frá Kópaskeri til Fjallahafnar og liggja þar í skjóli í tunglskininu og í rólegum sjó, þegar hrikt hefur í hverju tré og menn hafa verið með hjartað í hálsinum yfir því, hvort ekki mundu slitna keðjurnar á Kópaskeri. Að vísu er talað um aðra höfn við Axarfjörð, þ.e. Leirhöfn. Sú höfn liggur utan við Snartarstaðanúp, innan við Grjótnes. Það er eins með hana og Kópasker sjálft, að hún er opin fyrir öllum vindum á sömu áttum, en að vísu öðruvísi þó, þannig að þar er skergarður mikill úti fyrir, og ef byggður væri skjólgarður út á öll skerin, þá mundi þar skapast skjól, og ef höfnin, væri grafin upp, þá mundi þar koma góð höfn. Að vísu hef ég meira álit á hinni, og væri æskilegt, að það væri gaumgæfilega athugað.

Ég kem þá að lokum að Höfðavatni eða Þórðarhöfða á Skagafirði. Þar eru, eins og allir vita, einhver fegurstu héruð landsins. Það er ekki hægt að lýsa þeim svo, að einhverjir hafi ekki gert það betur áður, en það er mikil þörf fyrir góða höfn á Skagafirði, því að á Sauðárkróki er illt að liggja, og við höfum oft flúið þaðan, þegar norðaustanstormarnir geisa, og farið yfir að Þórðarhöfða. Þar er gott og skjól, en yrði enn þá betra, ef höfn yrði grafin inn í vatnið. Ég veit ekki, hvort Skagfirðingar óska eftir því, að þar verði byggð höfn. En ef þeir óska eftir því, þá álít ég að ætti að gera það, því að þar er hafnarstæði gott. En verði það ekki gert, þá er það víst, að mikið þarf að gera fyrir höfnina á Sauðárkróki, svo að hún verði góð.

Ég held ég hafi þá með nokkrum orðum farið um þessa till. og skýrt hana svo sem í bili er þörf á, og ég vona, að hv. alþm. sjái, að meiningin með till. er að reyna að benda á staði. þar sem hægt væri að gera góðar hafnir, og hins vegar að finna leið til þess, að fólkið geti unað sér betur í þeim sveitum, sem að þessum stöðum liggja.

Ég vænti svo, að þessari till. verði að lokinni umr. vísað til hv. fjvn.