21.11.1956
Sameinað þing: 11. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 277 í D-deild Alþingistíðinda. (2657)

48. mál, hafnarstæði

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Það er ekki nema gott um það að segja, að rannsóknir á hafnarstæðum fari fram, þar sem núv. hafnarskilyrði eru talin erfið, og vil ég því sízt amast við þessari þáltill. hv. 5. þm. Reykv. (ÁS). En ef dæma má eftir almennum aðstæðum á þeim tveim stöðum, sem ég tel mig þekkja vel til, virðist mér þessi till. furðu óraunhæf, ef um er að ræða rannsókn með tilliti til byggingar athafnahafna, en ekki neyðarhafna eða lífhafna fyrir skip.

Mér virðist það gleðilegt, ef tækist að finna gott hafnarstæði við Borgarfjörð eystra. Um það hefur verið hugsað og það athugað svo að áratugum skiptir, og varð hafnarstæðið við þorpið fyrir valinu, og féllu að því ýmis rök, sem ég fer ekki hér út í. Um Njarðvík hef ég aldrei heyrt talað í því sambandi, en hins vegar um svokallaðan Hafnarhólma við Borgarfjörð. Talsverðar lendingarbætur hafa verið gerðar við þorpið í Borgarfirði. Er nú í öllu fremur góðu hægt að afgreiða þar við bryggju skip af Herðubreiðarstærð, en öllu stærri skip á bátum frá landi, meðan fjörðurinn er sæmilega fær, en áður var það ekki ætíð hægt. Áður en farið var að byggja núverandi lendingarbætur á þessum stað, voru uppi raddir hjá kunnugum mönnum um að gera höfn hjá Hafnarhólma, sem liggur utarlega austan fjarðar, enda hafði þar oft verið þrautalending áður. Ég tel því hiklaust, að ef farið verður að athuga ný hafnarstæði við Borgarfjörð, svo sem t.d. Njarðvíkina, þá sé óforsvaranlegt að ganga fram hjá aðstöðunni við Hafnarhólma, og mun ég bera fram brtt. um það efni síðar.

Um Njarðvíkina er það að segja, að hún liggur alllangt frá Borgarfjarðarkauptúni. Fyrir botni hennar er að mestu sandur og útgrynni, en beggja vegna brött fjöll í sjó fram. Liggja víðast þar hamrar með ströndinni, en sums staðar skerast inn básar, þar sem nokkur fjara er milli bergs og sjávar. Milli Njarðvíkur og Borgarfjarðar eru hins vegar hinar svonefndu Njarðvíkurskriður og milli hennar og Héraðs allhár fjallgarður. Njarðvík er því að vetrinum til hvað snertir bílasamgöngur oftast einangruð vegna snjóa. Ég held því. að engum kunnugum manni hafi fyrr dottið í hug; að Njarðvík væri staður, þar sem skilyrði væru fyrir hendi að leysa hafnarmál Borgarfjarðar.

Um hafnarstæði í Nýpslóni við Vopnafjörð er það að segja, að ýmsum Vopnfirðingum hefur þótt það girnilegt til fróðleiks, að rannsókn færi fram á skilyrðum fyrir því að grafa út Vesturárós og dýpka ytra Nýpslón með tilliti til hafnargerðar. Hins vegar hafa Vopnfirðingar allir litið svo á, að sé hafnargerð á þessum stað sæmilega gerleg, þá sé það verkefni fjarlægrar framtíðar, þegar margfalt meiri og fjölmennari byggð er komin þar en nú er og búið að nýta hafnarstæðið við þorpið til fulls. Hins vegar vilja Vopnfirðingar ekki láta drepa á dreif uppbyggingu hafnar við kauptúnið, m.a. með einhverjum draumum um höfn í Nýpslónum, sem enn fremur hafa af fróðum mönnum verið taldir ýmsir tæknilegir annmarkar á að gera þar.

Það er knýjandi nauðsyn fyrir Vopnafjörð, að haldið verði nú áfram með meiri hraða en áður að bæta höfnina við Vopnafjarðarkauptún, svo að t.d. togarar og öll almenn vöruflutningaskip, sem hafa hæfilega djúpristu, geti fengið þar í flestum veðrum afgreiðslu við bryggju þá, sem nú er þar. Þarf í því sambandi að lengja bryggjuna á nokkru meira dýpi og gera skjólgarð fyrir þann hafnarhluta; síðar verði aðgerðin aukin með tilliti til alls hafnarsvæðisins, byggðir skjólgarðar og bryggja, þar sem meira dýpi er. Vil ég fullyrða. að fremur auðvelt er að koma upp allgóðri höfn við þorpið, sem fullnægir þörfunum um ófyrirsjáanlegan tíma. En vitanlega kostar það verulega fjárupphæð. Mér virðist sem ekki nái nokkurri átt að hverfa frá hafnarframkvæmdum á þessum stað, þar sem sæmileg skilyrði eru fyrir hendi og búið að framkvæma allmikið og núverandi athafnamannvirki, svo sem frystihús, fiskimjölsverksmiðja og fleira, eru tengd við, þótt allt þetta mætti ef til vill vera betur staðsett með tilliti til hafnarsvæðisins.

Sama má í raun og veru segja með Borgarfjörð, eins langt og það nær. Aðkallandi framhald á lendingarbótum þar verður að vera á þeim stað, þar sem þær eru nú, hvað svo sem öðrum hugsanlegum hafnarbótum kynni að líða í fjarlægri framtíð, svo sem eins og við Hafnarhólma. En um Njarðvík ræði ég ekki meira í þessu sambandi.