21.11.1956
Sameinað þing: 11. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 280 í D-deild Alþingistíðinda. (2662)

49. mál, hafnargerðir

Flm. (Ásgeir Sigurðsson):

Herra forseti. Í till. á þskj. 54 er því beint til hæstv. ríkisstj. að láta athuga. hvort eigi sé hagkvæmara og hvort eigi verði við komið að gera hafnir á ýmsum stöðum með nokkuð öðrum hætti en verið hefur, þannig að verkið sé unnið meira í einum áfanga.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að víða á landinu eru hafnir í byggingu um margra ára skeið, og af þeim sökum geta orðið bæði skemmdir á höfnum eða mannvirkjunum og einnig á skipum, og mörg slys hafa orðið eða viljað til af þeim sökum. Það er því spurt að því með þessari till., hvort eigi skuli gera tilraun til þess að forða þessum óhöppum og slysum og byggja hafnirnar, þessar sem um verður getið, í einum áfanga, og þá um leið, hvort eigi sé kleift að fá til þess sérstakt lán, svo að það megi gera án þess, að það hafi áhrif á aðrar hafnargerðir á landinu.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, þegar vetur gengur í garð og samgöngur taka að spillast, bæði á landi og í lofti, að þá er kallað á auknar samgöngur á sjó. En til þess að samgöngur á sjó geti orðið öruggar, þarf auðvitað góðar hafnir, en eins og ég sagði áður, hafa slys orðið á skipum fyrir þá sök, að hafnirnar hafa ekki verið eins góðar og skyldi, og það er vitað, að öll þau slys, óhöpp og tafir, sem verða á skipum, koma í fyrsta lagi á skipafélögin og síðan á tryggingafélögin og aftur á skipafélögin í auknum iðgjöldum. Nú vil ég taka það fram. að allt það, sem sagt verður hér á eftir í sambandi við þessar hafnir, er sagt aðeins til þess að reyna að greiða fyrir þessu máli, en ber alls ekki að líta á það sem sagt í þeim tilgangi að gera athugasemdir við þær aðferðir, sem áður hafa verið hafðar, og því sízt að della á nokkurn mann eða stofnun, sem hefur haft með þessi mál að gera.

Það vita víst allir, hvílíkur þungi hvílir á alþm. um að fá hafnargerðir á mörgum stöðum í senn, og það vita enn fremur allir alþm., að það er ekki nema takmarkað fé, sem til hafnargerðanna er veitt, og því eðlilegt, að þær stóru aðgerðir, sem þarf að gera á einstökum stöðum, verði út undan. En einmitt vegna þess, að þetta er þannig, er lagt til, að reynt sé að breyta til, taka sérstök lán og gera nokkrar ákveðnar hafnir svo úr garði, að þær geti orðið færar í öllum veðrum og þar af leiðandi hættulausar fyrir skip, en eins og ég sagði áðan, þyrftu með þessu allar hinar minni aðgerðir ekki að biða, þar eð féð, sem veitt væri úr ríkissjóði árlega til þessara hafnargerða, mætti renna til þeirra.

Það er eins og við vitum, að nú er verið að vinna þrekvirki á Akranesi. Þar er bráðum búið að byggja eins góða höfn og efni standa til. Akranesbúar eru miklir sjófarendur og veiðimenn og þurftu sannarlega á góðri höfn að halda, og það er vitanlegt, að það verður gleðidagur þar og við Borgarfjörð, þegar þeirri höfn er lokið.

Á Rifi undir Jökli er mjög nauðsynlegt að byggð sé góð höfn, og til þess að hún verði góð, þarf vissulega stórt átak, því að nú er hún í byggingu og er, eins og menn vita, sem kunnugastir eru, ekki fær öllum skipum í fyrsta lagi og verður fyrir þrálátum skemmdum af ágangi sjávar af þeim sökum, að hún er ekki fullgerð. Það er því Rif, sem er fyrsta höfnin, sem talað er um í sambandi við þessa till.

Á Patreksfirði hefur verið höfn í byggingu um nokkurt skeið. Til þess að hún verði góð og fær skipum í öllum veðrum, þarf mikið átak. Patreksfjörður er mjög þokkalegur staður, húsin eru vel hirt og skipulega byggð. Á Patreksfirði er síldarverksmiðja eða mjölverksmiðja, frystihús, smiðjur, togaraútgerð og bátaútgerð og mikil viðskipti við erlend skip. Þar þarf því nauðsynlega að ljúka góðri höfn sem allra fyrst. En þannig hagar til í höfninni á Patreksfirði nú, að öðrum megin eða að austanverðunni er þil nokkurt út í opið, en hinum megin er það malarkambur, sem á að verja innsiglinguna, en sá malarkambur hrynur niður og innsiglingin grynnist, svo að hún er hættuleg skipum. Það, sem þarf að gera að dómi sjómanna allra, er að byggja þil báðum megin í höfninni og lengja þilið út að austanverðu, þá verður höfnin góð. En til þess að hún verði fullkomin og ágæt, þarf að grafa hana alla inni, svo að hægt sé að snúa þar skipum.

Ég vík þá að Skagaströnd. Þar hefur verið höfn í smíðum um margra ára skeið, og eins og allir vita, er henni ekki nærri lokið, og eins og kunnugastir menn vita, er hún í suðvestan og vestanáttum ófær öllum stórum skipum, og þar af leiðandi kemur höfnin ekki að þeim notum, sem hún þyrfti að koma. Hún er annars þannig í sveit sett, að þar eru blómleg héruð. Þar er síldarverksmiðja, þar er fiskisælt úti fyrir, og fyrir allra hluta sakir þyrfti að byggja þar góða höfn og ljúka við hana fljótt. Þetta er þriðji staðurinn, sem nefndur er í sambandi við þessa till.

Ég vík þá aðeins að höfninni á Sauðárkróki. Ef hv. alþm. Skagf. líta þannig á, að betra væri að gera meira fyrir höfnina á Sauðárkróki sjálfum og hugsa minna um að athuga hafnarstæði úti við Þórðarhöfða, þá er náttúrlega kannske eðlilegt og sjálfsagt að sinna því, en að óreyndu tel ég, að bezta hafnarstæðið fyrir Skagafjörð sé, eins og ég sagði áðan, við Þórðarhöfða.

Þá vík ég að Húsavík. Þar er höfn í smíðum, búin að vera nokkuð lengi og langt komin áleiðis. Þar eru miklar og fagrar sveitir. Þar er síldarverksmiðja, þar er heitt vatn í jörðinni, og þar er ilmur úr grasi og angan úr hrauninu og fiskisælt úti fyrir. Hægt væri að gera þá höfn eins góða og hún getur orðið með því að framlengja garðinn úr höfðanum, svo að þar verði skjól í öllum áttum, þegar fært er að sigla inn á víkina á annað borð.

Ég kem þá að Raufarhöfn. Raufarhöfn liggur austan á sléttunni. Allir þekkja Raufarhöfn. Hún er þröng og lítil og ófær í norðaustan- og austanátt, þegar hafrót er, en hana mætti gera betri með því að byggja upp í skarðið milli höfðans og hólmans og byggja garð út á grynningarnar suður af hólmanum, víkka opið inn í höfnina með því að hreinsa til í fjörunni allt grjótið, sem þar er, svo að ekki væri eins mikil hætta á, að skipin fengju síðurnar algerlega brotnar, þegar þau lenda þar í fjörunni, því að oft munar þar mjóu. Þar er oft hætt á tæpasta vaðið. Það vita allir, að Raufarhöfn er feikilegur athafnastaður á sumrum sérstaklega, og þar af leiðandi þarf á miklum samgöngum að halda, og er því fyrir allra hluta sakir nauðsynlegt að gera það, sem hægt er fyrir þá höfn sem allra fyrst.

Ég vil þá aftur koma að Vopnafirði. Ef svo skyldi reynast, að Vopnfirðingum og öðrum sýndist ekki gerlegt að gera höfnina í Lóninu inn af Nýpsfirði, eins og ég stakk upp á í hinni till., þá er að sjálfsögðu bráðnauðsynlegt að gera það, sem hægt er, sem allra fyrst fyrir höfnina, sem nú er notuð, en er ófullkomin, eins og áður er sagt.

Ég held ég hafi þá minnzt á sjö staði í sambandi við þessa till., sem til greina geta komið. Það er víst öllum hv. alþm. augljóst, að það er gert í þeim tilgangi að reyna að bæta skilyrðin til þess, að fólkið geti unað sér betur úti á landsbyggðinni en nú er, en fyrsta skilyrðið að mínum dómi er það, að fólkið hafi góðar hafnir.

Ég vil að lokum segja það, að ekki tjáir að horfa á hafnirnar eða hafnarmannvirkin, þegar himinninn er heiður og blár og hafið er skinandi bjart, það verður að horfa á það í ofviðrinu, þegar stormarnir geisa og brimrótið veltur upp að ströndinni, lemur utan hafnargarðana og mergsýgur fjörugrjótið og sogar allt með sér, bæði lifandi og dautt. Þá er hægt að marka, hvaða hafnir eru sterkar og góðar.

Ég vænti þess, að hv. alþm. sjái þörf á því, að þetta mál verði tekið til yfirvegunar, og leyfi mér að leggja til, að þessu máli verði einnig vísað til hv. fjvn.umr. lokinni.