21.11.1956
Sameinað þing: 11. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 285 í D-deild Alþingistíðinda. (2665)

49. mál, hafnargerðir

Bernharð Stefánsson:

Út af því, sem hv. 2. þm. N-M. sagði, vil ég taka það fram, að ég minnist ekki þess, að ég væri neitt að tala um það, að einhverjar hafnir ættu að bíða um framkvæmdir, enda skildi ég hv. flm. þessarar till. ekki þannig, heldur skildist mér hann taka það fram í sambandi við það mál, sem hér var næst áður á dagskrá, að hann áliti, að þetta ætti að gerast þannig að reyna að útvega lán til þeirra hafnarframkvæmda, sem mest nauðsyn væri að ljúka, en aðrar hafnarframkvæmdir gengju fyrir sig á svipaðan hátt og verið hefur, svo að ég held, að þetta hafi verið ástæðulaust, það sem hv. 2. þm. N-M. vék að mér. En það er vitanlega gott fyrir mig að vita það og okkur þm. Eyf., að þessi hv. fjárveitinganefndarmaður álítur, að hafnir við Eyjafjörð eigi helzt að bíða af þeim höfnum, sem um er að ræða.

Það er nú spurning, landfræðilega séð, hvort Ólafsfjörður er beinlínis við Eyjafjörð, en hitt er vitað, eins og ég sagði, að þar er kaupstaður, og ég hygg, að það sé rétt, sem ég tók fram, að það er eini kaupstaður landsins, sem býr við þau hafnarskilyrði, sem Ólafsfjörður býr við. Það er kunnugt, að hv. fjvn. fer oft í ferðalög, ýmist í bifreiðum eða flugvélum, til þess að athuga mannvirki og sjá, hvar nauðsynin er mest. Ég vildi nú óska þess, að hv. fjvn. færi til Ólafsfjarðar og athugaði bæði hafnarskilyrði þar og annað. Ekki ætla ég að ráðleggja hv. n. neitt um það nú á þessum árstíma, í hvaða farartæki hún á að fara til Ólafsfjarðar, en það gæti skeð, að eftir þá ferð yrði hún af eigin reynslu dálítið fróðari um það, við hvað Ólafsfirðingar eiga að búa.