30.01.1957
Sameinað þing: 22. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 289 í D-deild Alþingistíðinda. (2679)

63. mál, íslensk ópera

Flm. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Það eru ekki liðin nema rúmlega sex ár síðan ópera var fyrst flutt á Íslandi. Þjóðleikhúsið var vígt á sumardaginn fyrsta 1950, og síðar sama vor kom flokkur úrvalslistamanna frá Konunglegu óperunni í Stokkhólmi og flutti Brúðkaup Figaros nokkrum sinnum. Þessar sýningar vöktu geysiathygli.

Næsta vor, 1951 var enn skref stigið og þá ráðizt í stórvirki. Óperan Rigoletto var flutt í þjóðleikhúsinu, sem sjálft stóð fyrir æfingum og öðrum undirbúningi, og listafólkið var allt íslenzkt, að leikstjóranum og einni söngkonunni frátöldum. Hér var mikið afrek unnið. Sýningar urðu alls 29 um vorið og haustið og vinsældir óperunnar miklar. Síðan hefur þjóðleikhúsið sýnt óperurnar La Traviata, Cavalleria Rustieana og I Pagliacci og svo nú síðast Töfraflautuna, svo og óperettur, en óperettusýningar höfðu verið hér nokkrum sinnum áður en þjóðleikhúsið var stofnað. Enn er þess að geta, að flokkur frá finnsku óperunni í Helsinki kom hingað til lands í boði þjóðleikhússins og sýndi óperuna Austurbotnverja eftir Levi Madetoja.

Á síðustu árum hafa fleiri farið að dæmi þjóðleikhússins og sýnt óperur. Félag íslenzkra einsöngvara og Tónlistarfélagið sýndu La Boheme, og Leikfélag Reykjavíkur sýndi Miðilinn eftir Menotti, Leikhús Heimdallar Töframanninn eftir Mozart, og ríkisútvarpið sendi flokk söngvara út á land, þar sem sýnd var óperan Ráðskonuríki eftir Pergolesi. Loks stóð Sinfóníuhljómsveit Íslands að svonefndri konsertuppfærslu á Il Trovatore á s.l. hausti.

Birtar hafa verið upplýsingar um fjölda gesta á söngleikasýningum þjóðleikhússins. Hvert sæti var jafnan skipað, þegar Brúðkaup Figaros var sýnt, og stæði seld að auki. Meðalfjöldi gesta á sýningu hefur annars verið sem hér segir, en í leikhúsinu eru alls 661 sæti. Á sýningum á Rigoletto var meðalfjöldi gesta 641, Leðurblökunni 576, Austurbotnverjum 476, La Traviata 527, Nitouche 436, I Pagliacci og Cavalleria Rusticana 579 og Kátu ekkjunni 653.

Þetta sýnir, að söngleikarnir hafa notið vinsælda. Og til samanburðar má geta þess, að meðalfjöldi gesta á sýningu í þjóðleikhúsinu var 462 fimm fyrstu starfsár þess. Meðalfjöldi gesta á söngleikasýningum er því miklu meiri.

Ástæða er til að rifja þetta upp nú til að sýna, að mikill áhugi er meðal almennings fyrir söngleikum, bæði óperum og óperettum. Og hin mikla aðsókn er enn athyglisverðari, þegar þess er gætt, að verð aðgöngumiða að söngleikasýningum er mjög hátt. Einnig má minna á, að til landsins hefur um langt skeið verið flutt mikið af hljómplötum með lögum úr söngleikum eða verkunum í heild, og auk þess hafa verið sýndar hér á landi allmargar kvikmyndir, þar sem ágætustu listamenn hafa flutt söngleika. Þessu hefur öllu verið vel tekið, og er ekki annað að sjá en að það hafi fremur hvatt fólk en latt til að sækja söngleikasýningar í íslenzkum leikhúsum.

Menn geta að sjálfsögðu lengi bollalagt um það, hvaða ályktanir um aðsókn að reglulegum söngleikasýningum megi draga af því, sem hér hefur verið rakið. Og sumir kunna að segja, að áhuginn muni minnka, þegar sýningum fjölgar. Með tilliti til þess, hvílíkra vinsælda óperur og óperettur njóta meðal annarra þjóða, virðist þó, að þessi skoðun sé á óþarfa bölsýni byggð. Líkur benda til þess, að því yrði vel tekið, ef söngleikar yrðu fluttir oftar en nú er. En til þess að svo megi verða, þarf fleira til en áhugasama áheyrendur. Þar má fyrst til nefna listamennina, sem þurfa bæði að vera vel hæfir og nægilega margir, síðan þarf fullnægjandi aðstöðu í leikhúsi eða sérstöku söngleikahúsi og síðast, en ekki sízt, fé. Skal nú nokkuð að því vikið, hvernig við Íslendingar stöndum að vígi að því er þessi atriði varðar.

Um miðja 19. öld verða nokkur umbrot í tónmenntum Íslendinga, og sú arfleifð, sem þjóðin átti á þessu sviði, þokaðist í skuggann, en áhrif frá Evrópu, sem hingað bárust um Danmörku, mótuðu tónlistarlífið. Forustumaðurinn var Pétur Guðjohnsen, og er talið, að hann hafi stjórnað fyrsta opinbera kórsöngnum, sem hér á landi var efnt til, á Langaloftinu í menntaskólahúsinu vorið 1854. Hljóðfæranotkun varð smám saman meiri og fjölbreyttari á þessum árum, og á fyrstu áratugum þessarar aldar efldust kórarnir mjög. En telja má, að straumhvörf hafi orðið í tónmennt Íslendinga um 1930. Tónlistin hefur á þeim árum, sem síðan eru liðin, orðið alþjóðareign, sennilega fyrst og fremst vegna tónlistarflutnings ríkisútvarpsins, en einnig, þótt þess sé sjaldnar getið, vegna aukins skemmtanalífs og kvikmyndasýninga. Tónmennt þjóðarinnar hefur jafnframt aukizt og styrkzt vegna bættrar tónlistarfræðslu og starfs áhugamanna, sem efnt hafa til vandaðra tónleika.

Fyrsti íslenzki óperusöngvarinn mun hafa verið Ari Jónsson, sem var á miðjum aldri um síðustu aldamót og söng í ýmsum beztu söngleikahúsum Þýzkalands. Næstur kom Pétur Jónsson, og síðan ýmsir yngri menn. Þeim, sem hafa búið sig undir að gerast söngvarar að atvinnu, hefur fjölgað að mun á síðari árum. Hafa sumir þeirra setzt hér að að námi loknu, en það þótti þeim, sem á undan fóru, ekki fýsilegur kostur. Þessir góðu listamenn hafa eflt tónlistarlífið, en vinnuskilyrði þeirra hafa þó verið slík, að starf þeirra hefur hvorki orðið þeim sjálfum né almenningi jafnnotadrjúgt og skyldi.

Hinir ungu söngvarar, sem hér hafa setzt að, hafa komið fram í söngleikum á síðustu árum og sýnt ótvírætt, að þeir eru vandanum vaxnir. En í þessum söngleikum hafa einnig komið fram íslenzkir listamenn, sem búsettir eru erlendis, en líklegt má telja, að sumir þeirra a.m.k. mundu snúa heim, ef þeir ættu þess kost að stunda list sína hér á landi.

Hópur íslenzkra einsöngvara er nú orðinn svo stór, að við, sem þáltill. þessa flytjum, teljum, að hann geti myndað fimm til tíu manna íslenzkan óperuflokk, fullfæran um að standa að flutningi þriggja til fjögurra söngleika á ári. Næg verkefni eru í tónbókmenntunum fyrir slíkan flokk, og virðist reyndar ekki frágangssök, þótt í sumum tilfellum væri leitað út fyrir þann hóp. Þar kemur á móti, að verði söngvarar fastráðnir við þjóðleikhúsið, gætu þeir komið þar oftar fram en á söngleikasýningum. Auk einsöngvaranna eigum við ágæta kóra og sinfóníuhljómsveit. Vonir standa til, að framtíð hljómsveitarinnar verði tryggð til frambúðar, og það yrði henni til stuðnings, ef hljóðfæraleikarar hennar fengju aukin verkefni við söngleikasýningar.

Þessi orð verða að nægja til að rökstyðja þá skoðun, að frá listrænu sjónarmiði sé gerlegt að koma upp íslenzkri óperu. Næst kemur til álita, hvort nokkurs staðar sé aðstaða til að hýsa þá starfsemi, sem hér um ræðir. Í till. er ráð fyrir því gert, að flutningur 3–4 söngleika á ári verði fastur liður í starfsemi þjóðleikhússins og einsöngvaraflokkur ráðinn við það, enda er í lögunum um þjóðleikhús gert ráð fyrir flutningi söngleika. Sú spurning hlýtur því að vakna, hvort nokkurt rúm sé fyrir þessa starfsemi í þjóðleikhúsinu, án þess að leiklistarstarfsemi þess dragist saman. Og svarið verður á þá leið, að unnt sé að bæta söngleikunum á starfskrá leikhússins, meðan flutningur sjónleika er ekki aukinn frá því, sem nú er, þar sem sýningar í þjóðleikhúsinu eru nú að meðaltali aðeins fimm kvöld í viku eða þar um bil.

Ekki hefur heyrzt um það rætt, að ætlunin væri að fjölga leiksýningum, þó að leikarar hússins hafi raunar aðeins örsjaldan leikið jafnoft á hverju leikári og samningar þeirra gera ráð fyrir. Og ekki virðist koma til mála að láta æfingar á sviði eða vinnu þar við leiktjaldagerð standa í vegi fyrir því, að sviðið sé notað öll kvöld á viku hverri á starfstíma leikhússins.

Það verður ekki séð, að aukinn flutningur söngleika ætti að skaða aðra starfsemi leikhússins, og því má við bæta, að ekki er til neitt annað hús, þar sem sýningar á söngleikum geta farið fram. Verði söngleikaflutningur ekki þáttur í starfsemi þjóðleikhússins, þurfa Íslendingar enn að bíða þess um ófyrirsjáanlegan tíma, að íslenzk ópera komist á fót.

Þá er komið að fjárhagshlið málsins. Reikningar þjóðleikhússins sýna rekstrartap öll starfsár þess nema hið fyrsta, þó að stofnunin fái verulegan hluta skemmtanaskattsins til að mæta rekstrarútgjöldum. Reynt hefur verið að afla upplýsinga um fjárhagsútkomu einstakra viðfangsefna leikhússins. Með örfáum undantekningum hafa leikritin verið sýnd með tapi. En mun betur hefur gengið með söngleikana, og hefur enginn þeirra verið sýndur með tapi. Þess ber þó að geta, að þessir útreikningar munu umdeildir meðal þeirra, sem þá hafa kannað, og telja ýmsir, að söngleikarnir hafi kostað leikhúsið meira en talið hefur verið. Sú gagnrýni byggist á því, að söngleikasýningunum hafi oft orðið að hraða svo mjög, að aðrar sýningar hafi ekki komizt að á sviðinu og leikarar hússins því verið starfslausir á meðan. Ástæðan hefur einkum verið sú, að listamenn, sem komið hafa frá öðrum löndum, hafa haft nauman tíma.

Svo sem áður er vikið að, standa vonir til, að með föstu söngliði megi dreifa sýningunum á allt leikárið og nota fyrir þær þau kvöld, sem nú eru ekki notuð fyrir sýningar. Þá má á það benda, að laun til söngvara fyrir hverja sýningu lækka væntanlega, þegar sýningum fjölgar og söngvararnir verða ráðnir með öðrum kjörum en nú tíðkast.

Enn er þess að geta, að leikhúsið hefur þegar og mun í enn ríkara mæli koma sér upp í framtíðinni ýmsu því, sem til sýninga þarf, svo sem búningum og leiktjöldum, og það leiðir væntanlega til þess, að stofnkostnaður fer smálækkandi fyrir hvert nýtt viðfangsefni, og að því leyti til er afkoma þeirra sýninga, sem hingað til hefur verið efnt til, ekki réttur mælikvarði á síðari viðfangsefni.

Að þessu athuguðu virðist mega telja, að vonir standi til, að söngleikasýningar muni ekki íþyngja fjárhag þjóðleikhússins.

Eftir að þáltill., sem hér er til umr., var borin fram, tjáði hæstv. menntmrh. mér, að formaður Félags íslenzkra einsöngvara, Bjarni Bjarnason læknir, hefði sent sér bréf um áhugamál félagsmanna og þar m.a. farið fram á, að tekinn verði upp söngleikaflutningur við þjóðleikhúsið. Hæstv. ráðh. hefur vinsamlega heimilað mér að kynna mér efni bréfsins, og kemur það ekki í bága við neitt af því, sem hér hefur verið sagt. En að öðru leyti mun ég ekki gera bréf þetta að umtalsefni.

Tilgangur okkar, sem flytjum þessa þáltill., er sá að flýta nokkuð fyrir því, að komið verði á fót íslenzkri óperu. Söngleikar njóta mikilla vinsælda meðal almennings í flestum menningarlöndum, og íslenzkir áheyrendur hafa sýnt, að þeir kunna vel að meta þá. Stofnun íslenzkrar óperu mundi því enn fjölga þeim tækifærum, sem íslenzkur almenningur á til að njóta góðrar listar, og því auka gleði fólks og skilning þess á fegurð lífsins.