30.01.1957
Sameinað þing: 22. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 292 í D-deild Alþingistíðinda. (2680)

63. mál, íslensk ópera

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég fagna áhuga þeim, sem kemur fram hjá flm. þessarar till. á gengi þjóðleikhússins og aukinni starfsemi þess. Hins vegar fannst mér i ræðu hv. frsm. nokkuð á það skorta, að flm. hefðu gert sér raunhæfa grein fyrir þeim erfiðleikum, sem á því eru að stíga það spor, sem þeir, ég og áreiðanlega mjög margir fleiri höfum fyllsta áhuga á að stigið verði. Skal ég þess vegna leyfa mér að fara fáeinum orðum um það, sem frá mínu sjónarmiði séð er kjarni málsins.

Hv. frsm. gat þess, sem ég hafði skýrt honum frá, að Félag íslenzkra einsöngvara skrifaði mér 10. nóv. s.l. bréf, þar sem þess var óskað, að menntmrn. athugaði sérstaklega skilyrði til þess, hvort ekki væri tímabært að gera óperu- og óperettuflutning að föstum liðum í starfsemi þjóðleikhússins. Ég leyfi mér að lesa hér, með leyfi hæstv. forseta, einn kafla úr bréfi einsöngvarafélagsins, sem er mjög ýtarlegt. Þar segir meðal annars:

„Félag íslenzkra einsöngvara leyfir sér að beina þeim tilmælum til yðar, hæstv. menntamálaráðherra, að þér látið fara fram rannsókn á því, hvort ekki væri tímabært að gera óperu- og óperettuflutning að föstum liðum í starfsemi þjóðleikhússins og jafnframt að ráða nokkra af fremstu söngvurum landsins sem fasta starfsmenn við leikhúsið. Félagið lítur svo á, að flutningur söngleika mundi mjög auka vinsældir leikhússins og aðsókn að því, auk þess sem það yrði ómetanlegt fyrir þróun og starfsemi sinfóníuhljómsveitarinnar.“

Áður en mér hafði borizt þetta bréf og einnig eftir það hafði ég raunar látið fara fram nokkra athugun einmitt á söngleikastarfseminni í þjóðleikhúsinu í sambandi við það, að ég hafði í undirbúningi ráðningu fasts hljómsveitarstjóra að þjóðleikhúsinu, sem framkvæmd var snemma á þessu hausti, þegar dr. Urbancie var ráðinn fastur starfsmaður þjóðleikhússins sem hljómsveitarstjóri. Í sambandi við það og svo auk þess einnig í sambandi við tilmæli félagsins og flutning þessarar till. var gerð athugun á þeim söngleikaflutningi, sem farið hefur fram í þjóðleikhúsinu, aðsókn að honum og fjármálum í sambandi við það.

Hv. frummælandi gat þess, hvaða óperur hefðu verið fluttar á vegum þjóðleikhússins. Hann gat þess einnig, að enginn söngleikanna hefði verið sýndur með tapi, en auk þess væri afkoman fram að þessu ekki réttur mælikvarði á það, sem vænta mætti í framtíðinni, og taldi, að flutningur söngleika mundi áreiðanlega ekki íþyngja rekstri leikhússins.

Nú er það að vísu svo, að ég tel, að ekki eigi að leggja fjárhagslegan mælikvarða — alls ekki eingöngu og ekki heldur fyrst og fremst — á það, hvað tekið er til flutnings í þjóðleikhúsinu. En ég kemst samt ekki hjá því að leiðrétta þessi ummæli, sem eru því miður alröng.

Það eru ekki til nákvæmar upplýsingar um afkomuna á Rigoletto eftir Verdi, sem var fyrsta óperan, sem sýnd var. Bókhald þjóðleikhússins var þá ekki komið í það horf, að unnt væri að fá um það fullt yfirlit. En í tilefni af þessum ummælum hv. frummælanda vil ég gefa eftirfarandi upplýsingar um niðurstöðuna af flutningi annarra söngleika, til þess að hv. þm. og aðrir, sem áhuga hafa á málinu, hafi ekki ranga hugmynd um þessi efni.

Fyrst skulum við bera saman beinar tekjur af flutningi söngleikjanna og beinan kostnað, svokallaðan kvöldkostnað, af flutningi þeirra, þ.e.a.s. sleppa til að byrja með öllum almennum, föstum kostnaði leikhússins. Þá er niðurstaðan sú, að á Leðurblökunni eftir Jóhann Strauss, sem þó var sýnd á 35 sýningum og yfir 20 þús. manns sáu, var í þessum skilningi 53 þús. kr. halli. Það skorti 53 þús. kr. á, að tekjur nægðu fyrir beinum kvöldkostnaði við flutninginn. Á óperunni La Traviata eftir Verdi var hins vegar, á sama hátt reiknað, 61 þús. kr. afgangur. Á Nitouehe varð 22 þús. kr. halli, á I Pagliacci og Cavalleria Rusticana varð 37 þús. kr. halli, en á Kátu ekkjunni eftir Lehar varð 74 þús. kr. afgangur, þannig reiknað. En þessi reikningur er náttúrlega engan veginn fullnægjandi til þess að gera grein fyrir fjárhagslegri afkomu söngleikaflutningsins, því að taka verður tillit til þess, að fastur kostnaður hvert kvöld, þ.e. hinn almenni rekstrarkostnaður hússins, er um 100 þús. kr. á mánuði, og flutningur hverrar þeirrar óperu, sem ég nefndi, hefur tekið um það bil einn mánuð auk allt að því eins mánaðar undirbúningstíma, svo að bæta verður hér við sem almennum rekstrarkostnaði við hallann 100 þús. kr. a.m.k. við hverja sýningu eða draga það frá ágóðanum, og sést þá, að mjög verulegur halli er í þessum skilningi á öllum sýningunum. Þó er ekki öll sagan sögð enn, vegna þess að meðan ópera er flutt, sýningartíminn hefur verið að meðaltali um það bil mánuður og undirbúningstíminn annar mánuður, — þá ganga allir fastir leikarar þjóðleikhússins starfslausir, en mánaðarlaun þeirra eru 94 þús. kr., svo að þjóðleikhúsið hefur 94 þús. kr. fastar launagreiðslur á mánuði, meðan á flutningi söngleika stendur, til manna, sem ekki geta starfað við sín eðlilegu störf á meðan. Fastir leikarar leikhússins eru 16. Auk þess hefur leikhúsið fasta samninga við 8 leikara aðra, sem er tryggður viss sýningafjöldi á ári.

Það er rétt, sem hv. frsm. sagði, að undanfarið hefur ekki tekizt að hagnýta alla starfskrafta allra hinna föstu leikara, m.a. vegna þess, hve óperuflutningurinn í þjóðleikhúsinu og óperettuflutningurinn hefur tekið mikinn hluta af starfstíma hvers árs. Ég nefni þessar tölur að gefnu tilefni, þó að ég telji í sjálfu sér, að yfirleitt eigi ekki að ræða rekstrarniðurstöðu einstakra verka, sem menningarstofnun eins og þjóðleikhúsið tekur til flutnings. Ég tel sem sagt nauðsynlegt að gera þetta til þess að koma í veg fyrir, að sá misskilningur breiðist út, að á söngleikaflutningnum sé í leikhúsinu hagnaður eða minni halli en á leikritaflutningnum.

Þetta hefur Félagi íslenzkra einsöngvara verið algerlega ljóst, enda segir í bréfi félagsins, með leyfi hæstv. forseta, — en félagið flutti eina óperu, La Bohéme, svo sem frummælandi gat um, — í bréfinu segir:

„Tilfinnanlegt tap varð á flutningi óperunnar þrátt fyrir troðfullt hús á hverju kvöldi og hátt verð aðgöngumiða. Þó voru allir búningar fengnir að láni frá útlöndum við mjög vægu verði.“

Þessi vitnisburður annars aðila, sem hefur haft með óperuflutning að gera, staðfestir það, sem ég var að segja, að því miður er ekki gróðavegur hjá þeirri stofnun, sem óperuflutning tekst á hendur, þó að ég endurtaki enn, að þann mælikvarða eigi að sjálfsögðu ekki að leggja á slíka starfsemi sem hér er um að ræða og allra sízt í þjóðleikhúsinu. Hitt er svo annað mál, sem er mergur þess máls, sem hér er um að ræða, að það er mjög óvenjulegt, — ég segi ekki einsdæmi, en mjög óvenjulegt, — að sama stofnunin hafi með höndum leikritaflutning og óperuflutning.

Á Norðurlöndum er það í rauninni aðeins konunglega leikhúsið í Kaupmannahöfn, sem skiptir starfsemi sinni ekki alveg jafnhliða, en að mjög verulegu leyti á milli leikritaflutnings, óperuflutnings og listdanssýninga. Skýringin á þessu er afar einföld og liggur í raun og veru í augum uppi. Ef leikhúsið ætlar að starfa að föstum flutningi bæði leikrita og óperusýninga, þarf að hafa fastráðna flokka við hvort um sig, en starfsemi leikara og söngvara fer að mjög takmörkuðu leyti saman að sömu sýningum. Þetta veldur því, að meðan á leikflutningi stendur, er söngfólkið starfslaust, og meðan á söngleikaflutningi stendur, eru leikararnir að langmestu leyti starfslausir. Þar sem þessum málum er vel skipað, er því um að ræða verkaskiptingu á milli þessara tveggja listgreina, þær eru iðkaðar hvor í sínu sérstaka húsi.

Við því er auðvitað ekki að búast, að hér verði unnt að koma á þeirri skipun á næstunni, að upp rísi sérstakt hús, sem annazt geti flutning söngleika, enda mjög vafasamt, að hægt yrði að reka bæði myndarlegt leikhús og myndarlegt söngleikahús í jafnlítilli borg og Reykjavík. En ef ætti að skapa eðlileg starfsskilyrði fyrir 5–10 söngvara, eins og till. fjallar um, við þjóðleikhúsið, sem hefur leikritaflutning að aðalverkefni, þá þýddi það að sjálfsögðu, að alls ekki eru starfsskilyrði fyrir 16 fasta leikara við þjóðleikhúsið. Það yrði því að losa þjóðleikhúsið við a.m.k. jafnmarga leikara og söngvarar yrðu að því ráðnir, ef þessir aðilar ættu að hafa venjuleg starfsskilyrði, og væru þó starfskraftar þeirra ekki nýttir að fullu, eins og frummælandi tók fram og nú á sér ekki stað um leikarana. Þegar það á sér stað, eins og hann gat um, að ekki hefur verið hægt að nota starfskrafta 16 fastra leikara og 8 leikara á B-samningi að fullu, þá má geta nærri, að mjög mikið mundi á það vanta, að hægt væri að nota þá að fullu, ef 5–10 söngvarar væru einnig fastráðnir að leikhúsinu.

Halli leikhússins er á þessu ári áætlaður umfram allar tekjur leikhússins af skemmtanaskatti um 600 þús. kr. Það mundi kosta 350 þús. kr. til 700 þús. kr. að ráða 5–10 fasta söngvara að þjóðleikhúsinu. Það skyldi ekki standa á mér að þiggja það f.h. þjóðleikhússins, ef Alþingi eða fjárveitingavaldið væri reiðubúið til þess að auka þann viðbótarstyrk, sem Alþingi nú veitir rekstri þjóðleikhússins, við skemmtanaskattinn um 350 þús. kr. eða 700 þús. kr. En það er að sjálfsögðu á valdi Alþingis að kveða á um það.

Ég saknaði þess í grg. hv. frsm., að hann fjallaði um það, hvernig hann eða flm. hefðu hugsað sér, að 350–700 þús. kr. kostnaður, sem ráðning 5–10 söngvara í viðbót mundi hafa í för með sér, yrði greiddur. Ég geri ekki ráð fyrir því, að það geti vakað fyrir flm., að föstum leikurum yrði fækkað um 5–10, það vakir vafalaust ekki fyrir þeim, — en þá er að horfast í augu við þá staðreynd, að föstum starfsmönnum verður ekki fjölgað, án þess að það kosti þá upphæð, sem ég gat um, í minnsta lagi. Raunverulegur kostnaður mundi verða miklu meiri, vegna þess að óperusýningarnar eru tiltölulega miklu dýrari en venjulegar leiksýningar, sérstaklega vegna tónlistarinnar, sem þar er flutt. Það er því eðlilegt, að menn spyrji: Á hallinn að aukast, ætla flm. að leggja til við afgreiðslu fjárlaga, að hinn áætlaði halli þjóðleikhússins, nú 600 þús. kr., verði aukinn upp í eina milljón eða 1 millj. og 700 þús., eða er meiningin að taka fé af félagsheimilunum, sem nú fá verulegan hluta af skemmtanaskattinum, og greiða söngvaralaunin á þann hátt, eða er ætlunin að hækka skemmtanaskattinn? Mér þætti vænt um að fá a.m.k. vísbendingu um það frá hv. flm., hver af þessum leiðum væri æskilegust frá þeirra sjónarmiði séð. Þetta er ekki framkvæmanlegt nema með fernu móti: 1) með því að skapa rúm við þjóðleikhúsið innan núgildandi ramma, þ.e. með því að fækka leikurum um fimm eða tíu, 2) með því að láta hallann aukast og borga hallann á fjárlögum, 3) með því að taka fé af félagsheimilunum, 4) með því að hækka skemmtanaskattinn. Hv. flm. hljóta að hafa gert sér einhverja grein fyrir þessu, því að engum dettur í hug, að söngvararnir verði fastráðnir fyrir ekkert kaup, svo að mér þætti vænt um að fá vísbendingu um, hver af þessum leiðum væri æskilegust, að dómi flutningsmannanna.

Í þessu sambandi má á það minna, að einn flokksmaður hv. flm., hv. þm. V-Sk., hefur í hv. Ed. Alþingis flutt frv. um það að skerða tekjur þjóðleikhússins af skemmtanaskatti mjög verulega, en auka hlutdeild félagsheimilasjóðsins. Ef það frv. næði fram að ganga, skerðast starfsmöguleikar þjóðleikhússins mjög verulega, og það markmið, sem ég fyrir mitt leyti vil sannarlega keppa að, að fastir söngvarar verði ráðnir að þjóðleikhúsinu, fjarlægist auðvitað mjög verulega, ef sú stefna yrði upp tekin, sem fram kemur í frv. hans. Vil ég þó með engu móti andmæla því, að félagsheimilasjóður þurfi á auknu fé að halda.

Þessar staðreyndir vildi ég láta koma í ljós þegar, áður en þessi till. fer til nefndar, en ég tel eðlilegt, að henni verði vísað til hv. allshn.

Ég vil svo að síðustu endurtaka ánægju mína yfir því, að rödd skuli heyrast hér á hinu háa Alþingi um það, að starfsemi þjóðleikhússins beri að efla, og vona, að sami skilningur verði ríkjandi af hálfu flm. þessarar tillögu við afgreiðslu fjárlaga, þegar málefni þjóðleikhússins koma þar til úrskurðar, eins og birtist í framsöguræðu hv. 1. flm.