30.01.1957
Sameinað þing: 22. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 297 í D-deild Alþingistíðinda. (2681)

63. mál, íslensk ópera

Flm. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Ég hafði þegar í framsöguræðu minni gert grein fyrir því, af hvaða ástæðum mætti telja líklegt, að þjóðleikhúsið gæti staðið undir söngleikaflutningi, og er það fyrst og fremst byggt á áhuga almennings fyrir söngleikum, sem hefur komið fram í þeirri miklu aðsókn, sem verið hefur að þeim í þjóðleikhúsinu, og svo upplýsingum þjóðleikhússtjóra um fjárhagsafkomu einstakra viðfangsefna þjóðleikhússins, og tjáði hann mér, að afkoma söngleikanna hefði verið að meðaltali mun betri en meðalafkoma annarra sýninga þar.

Í framsöguræðunni gat ég þess m.a., að núv. mælikvarði væri ekki fullgildur á síðari viðfangsefni, vegna þess m.a., að stofnkostnaður sýninga í þjóðleikhúsinu færi smálækkandi, þar eð leikhúsið kæmi sér í æ ríkara mæli upp ýmsum dýrum hlutum, sem til sýninga þarf, og þarf því ekki að óttast svo mjög kostnað við að setja söngleikana á svið, að hann verði eins mikill og verið hefur. En hvort sem skilningur þjóðleikhússtjóra sjálfs eða hæstv. menntmrh. á fjárhagsafkomu viðfangsefna þjóðleikhússins er réttari, þá fagna ég þeirri skoðun hæstv. ráðh., að fjárhagssjónarmið séu ekki höfuðsjónarmið í þessu máli, þó að ég sé þeirrar skoðunar, að honum finnist þau þyngri á metunum og vaxi kostnaðurinn mjög í augum.

Ég vænti þess svo, að málinu verði vísað til hv. allshn.