30.01.1957
Sameinað þing: 22. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 298 í D-deild Alþingistíðinda. (2684)

63. mál, íslensk ópera

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Í sambandi við ræðu hæstv. menntmrh. og ummæli hans um skemmtanaskattinn vildi ég leyfa mér að benda á, að það er áreiðanlega mjög auðvelt að auka tekjur af skemmtanaskatti verulega án þess að hækka hann. Leiðin til þess er ákaflega einföld, og hún er sú að innheimta þennan skatt skynsamlegar en nú er gert, láta hann ganga jafnt yfir eða a.m.k. jafnara yfir en nú er. Það er t.d. vitað, að sá atvinnurekstur, sem mun gefa hvað mestar tekjur af skemmtanaskatti, bíórekstur, er sumpart skattlagður og sumpart ekki. Það er fjöldi kvikmyndahúsa, sem ekki borga skemmtanaskatt, og það er eins og sé komið við hjartað í brjóstinu á sumum hv. þm., þegar það hefur verið nefnt hér á undanförnum árum, að allur kvikmyndahúsarekstur, hvaða aðilar sem að honum standa, eigi að borga þennan skatt. Vitanlega er það ekki nema sanngirnismál eitt, að þessi skattur sé innheimtur af öllum kvikmyndahúsarekstri og á töluvert viðtækari grundvelli en nú er gert. Ég skal ekki fara að ræða um það mál hér, en það liggur beint við að breyta álagningu og innheimtu skemmtanaskatts þannig, að hann gefi stórauknar tekjur og skapi þar með stóraukna möguleika til þess að gera starfsemi þjóðleikhússins fjölbreyttari og m.a. að taka upp óperu þar, eins og hv. 8. þm. Reykv., 1. flm. þeirrar till., sem hér liggur fyrir, hefur flutt mjög greinileg rök að. Ég verð að segja, að það er mjög ánægjulegt að heyra, hversu glöggt og rökfast hv. 1. flm. þessarar till. lagði málið fyrir. Og ég verð að segja það í sambandi við orðaskipti hv. flm. og hæstv. ráðh., að ég verð að láta í ljós nokkra undrun á þeim ágreiningi, sem þar kemur fram.

Ég veit ekki betur en að hv. flm. hafi sínar upplýsingar frá fyrstu hendi um þetta mál. Hæstv. ráðh. á sjálfur sæti í þjóðleikhúsráði, sem hv. flm. hefur sínar upplýsingar beint frá. Hvernig má það þá vera, að þær upplýsingar, sem hv. flm. hefur flutt hér, séu ekki réttar? Ég hef ekki heyrt nein rök frá hæstv. ráðh., sem hnekki þessum upplýsingum.

Ég vil svo segja það, að dálítið er einkennilegt, að hvaða máli sem hreyft er nú hér á hv. Alþingi og ekki sízt ef það er menningarmál, þá sjá hæstv. ráðh. og hv. stjórnarsinnar eintóm ljón á veginum, ef ekki tígrisdýr. Hæstv. ráðh. lýkur sínu máli með því hér áðan að segjast vilja endurtaka ánægju sína með framkomu þessarar tillögu. Það gat víst enginn heyrt ánægju hans né gleði, sem hlustaði á fyrstu ræðu hans. Hann var þvert á móti að reyna að færa rök að því, að þetta væri alls ekki hægt, það væri ekkert vit í því að ætla sér að fara að fastráða nokkra söngvara við þjóðleikhúsið, — ef ætti að gera það, þá yrði að stórdraga úr annarri starfsemi leikhússins.

Ég fæ ekki séð ánægjuna í þessum yfirlýsingum. Ég held þvert á móti, að hæstv. ráðh. hafi umbúðalaust, sem ekki ætti neitt að fara að draga fjöður yfir, verið að halda því fram framan í þingheim, að þetta yrði að bíða, við hefðum ekki efni á því að stofna hér til óperu. Það er alveg sama, á hvað er minnzt, hvort það er að stofna óperu eða að færa út fiskveiðitakmörkin eða að fella niður skatta af hljóðfærum, það er alveg sama á hvað er minnzt, hæstv. ráðh. sjá aldrei neitt nema ljón á veginum.

Það hefur aldeilis syrt í lofti á undanförnum mánuðum. Ég verð að segja það. Og þó er þessi hæstv. stjórn ekki búin að sitja nema 6 mánuði að völdum í landinu. Þróunin gengur alls staðar í öfuga átt við það, sem hv. stjórnarflokkar höfðu lofað. Alls staðar er stöðvun nema í skattahækkunum.

Ég get ekki látið þessari umræðu ljúka svo að vekja ekki athygli á þessu, því að ég hef aldrei heyrt slíkan afturhaldssón eins og úr hvaða ráðherrabarka sem til heyrist nú hér á hv. Alþingi. Það er ekki bara þegar á að stofna til óperu, það er sama hvað á að gera. Alls staðar er kolsvartamyrkur. Hæstv. ráðh. reika allir um í myrkri og þoku. Ég óska þess, að blessaðir mennirnir komist einhvern tíma út úr þessari villu.