30.01.1957
Sameinað þing: 22. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 305 í D-deild Alþingistíðinda. (2687)

63. mál, íslensk ópera

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Hv. þm. N-Ísf. hafði nú lækkað svo seglin frá því, sem var í fyrri ræðu hans, að ég get látið mér nægja aðeins örfá orð.

Ég ætla ekki að ræða skattamál hér á fundi í Sþ. Þessi tvö frv. munu koma til umr. innan skamms í hv. Nd., svo að okkur gefst áreiðanlega tilefni þar til þess að ræða meginefni þess máls, sem þar er um að ræða. Annars virðast það vera einkennileg álög á hv. stjórnarandstöðu, að hún er alltaf jafnóánægð, hvort sem lögð eru fram frv. um að hjálpa atvinnuvegunum með því að afla nokkurra tekna til hins opinbera með álögum, eins og þeir kalla það, og svo eru þeir líka óánægðir, ef fram koma frv. um að létta gjöldum af almenningi. Það virðist sem sagt vera föst regla að vera óánægður með allt, sem hæstv. ríkisstj. gerir, og á móti öllu, sem hún gerir, þó að samkvæmninni í því sé að sjálfsögðu ekki fyrir að fara. En þetta allt saman mun væntanlega gefast tilefni til þess að ræða síðar.

Hv. þm. virðist hafa sérstakan áhuga á því að slá því föstu, þó að ég hafi ekki eitt orð sagt, sem gefi tilefni til þess, að ég sé á móti flutningi söngleika í þjóðleikhúsinu. Ég hef þvert á móti sagt það í þau skipti, sem ég hef komið upp í þennan ræðustól, að ég tel það vera hlutverk þjóðleikhússins nú samkv. lögum, sem við hv. þm. einmitt sömdum í sameiningu ásamt þriðja manni, að flytja söngleika. Það var sameiginleg skoðun okkar þá og er það enn, að þjóðleikhúsið eigi að flytja söngleika, og það hefur gert það fram að þessu og mun gera það áfram. Á móti þessu getur hann því ekki staðhæft að ég sé.

Það er líklega hitt, sem hann langar til að geta staðhæft, að ég sé á móti því, að nú þegar verði ráðnir 5–10 fastir söngvarar að þjóðleikhúsinu til stöðugs óperuflutnings. Um það mál hef ég ekki sagt annað en að upplýsa, hvaða kostnaður mundi því fylgja, og segi það enn, ef það kynni að hafa farið fram hjá hv. þm., að aukinn rekstrarkostnaður þjóðleikhússins, aukinn rekstrarhalli þess af ráðningu 10 fastra söngvara mundi nema um einni millj. kr. Það er að vísu lausleg áætlun, engu að síður í meginatriðum ómótmælanleg staðreynd.

Hins vegar hvílir sú skylda náttúrlega á þeim, sem slíka till. flytja, að benda á, hvernig afla eigi tekna til að standa straum af kostnaðinum. Ég benti á það, þó að ég gerði það ekki í neinu ádeiluskyni og geri það ekki heldur núna í neinu ádeiluskyni, í athugasemdum mínum við ræðu hv. 8. þm. Reykv., að í hvorugri ræðu hans kom fram nokkur hugmynd um það, hvernig afla skyldi tekna til að standa straum af þessum mikla kostnaði, og af hálfu hv. þm. N-Ísf., sem vafalaust hefur fundið þessa veilu og varð honum tilefni til þess að standa hér upp, hefur ekki komið fram önnur hugmynd en sú, að það eigi að afnema einhverjar af þeim undanþágum, sem nú gilda um greiðslu skemmtanaskattsins, og bæta innheimtuaðferðir hans. Ég er honum alveg sammála um, að nauðsynlegt er að bæta innheimtuaðferðir skemmtanaskattsins, en það hljótum við báðir að vita, að það dregur aldrei nema örlítinn hluta þeirrar upphæðar, sem hér er um að ræða. Þá vantar mig að vita, þá vil ég fá að vita: Hvaða undanþáguaðila á að afnema? Á að svipta háskólann sinni undanþáguheimild? Sjúkrahúsið á Akranesi? Elliheimilið í Hafnarfirði? Trípólíbíó? Góðtemplarana á Akureyri? Hver á að missa sína undanþáguheimild? Ég kann ekki utan að þá tölu, hversu miklu undanþágurnar nema í heild, en ég hygg, að það þyrfti að afnema þær að mjög verulegu leyti, ef þessi milljón ætti að fást inn í tekjuauka. Annars skal ég með ánægju veita viðtöku öllum tillögum, sem fram koma um að auka raunverulegar tekjur af skemmtanaskatti, m.a. í því skyni að auka rekstrarfé þjóðleikhússins og þá m.a. í því skyni að gera því kleifara en því er við núverandi aðstæður að auka óperuflutning. Ef samkomulag næst um það á Alþingi að auka tekjur þjóðleikhússins um — skulum við segja — hálfa milljón, þá lýsi ég því hér með yfir, að ég er reiðubúinn til þess, að sá tekjuauki fari til þess, að ráðnir verði fastir söngvarar að þjóðleikhúsinu, þannig að enginn vafi þurfi að leika á um mína afstöðu til þess máls.

Ég get svo bætt því við, að um þetta mál hefur verið fjallað í þjóðleikhúsráði og þjóðleikhúsráð allt, einnig fulltrúi Sjálfstfl., sammála um, að miðað við núv. rekstrarskilyrði þjóðleikhússins sé ekki unnt að ráða þar fasta söngvara og alls ekki 5–10 fasta söngvara. En um hitt held ég að þjóðleikhúsráð mundi geta orðið sammála, að ef Alþingi þóknaðist að auka tekjur þjóðleikhússins af skemmtanaskattinum eða með öðrum hætti, þá væri eðlilegt og æskilegt að ráða einhverja fasta söngvara að þjóðleikhúsinu. — Með þessu vona ég að tekin séu af öll tvímæli um afstöðu mína til þessa máls.