06.02.1957
Sameinað þing: 25. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 315 í D-deild Alþingistíðinda. (2704)

95. mál, ferðamannagjaldeyrir

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Það er enginn efi á því, að það mál, sem hér er til umr., er allrar athygli vert. Erlendir ferðamenn, sem hingað koma til landsins, sæta mjög óhagstæðum kjörum, þegar þeir verða að skipta erlendum gjaldeyri fyrir hið skráða gengi. Það er enginn vafi á því, að þetta á sinn þátt í því, að erlendir ferðamenn koma minna til Íslands en vera mundi ella, og sömuleiðis kemur það í veg fyrir, að ýmsir útlendingar, námsmenn t.d., komi hingað til dvalar jafnmikið og þeir mundu gera, ef það verð, sem þeir fengju fyrir gjaldeyri síns heimalands, væri þeim hagstæðara en fram kemur í hinni opinberu gengisskráningu.

En það er ekki nóg að gera sér grein fyrir því, að þetta vandamál er fyrir hendi og að æskilegt væri að geta stuðlað að auknum ferðum erlendra ferðamanna og annarra útlendinga hingað til landsins. Þetta mál er jafnhliða og fyrst og fremst fjárhagsmál. Það, sem hér er um að ræða, það, sem felst í hugmyndinni um ferðamannagjaldeyri, er að greiða ákveðnum hópi manna, sem skilar erlendum gjaldeyri til bankanna, hærra verð fyrir gjaldeyrinn en svarar til hins lögákveðna gengis, og það kostar peninga auðvitað, og má búast við, að það mundi kosta meiri peninga í framtíðinni, ef ferðir hingað og dvöl hér yrði gerð álitlegri en hún nú er. Fjárhagshliðin er því í raun og veru aðalvandinn, sem hér er við að etja.

Í grg. till. og í rökstuðningi flm. saknaði ég ábendinga um það, hvernig leysa skyldi fjárhagsvandamálið. En segja má auðvitað, að það eigi að vera eitt aðalhlutverk þeirrar nefndar, sem kosin yrði, ef till. yrði samþ., að fjalla um það. Ef hv. flm. hefur hugleitt málið og hefur ákveðnar ábendingar í því efni að gera, hygg ég, að rétt væri, að þær komi fram, áður en málið fer til nefndar.

Ég hygg, að um það verði ekki deilt, að skoða verður málið fyrst og fremst frá þessu sjónarmiði, sem fjárhagsmál. Ég vil taka undir, að það væri æskilegt, að hægt væri að hrinda þeirri hugmynd, sem á bak við till. felst, fram, en þó því aðeins auðvitað, að skynsamleg lausn, sem Alþingi gæti sameinazt um, fyndist á því vandamáli, hvernig afla ætti fjár til að greiða þetta viðbótargengi á þann gjaldeyri, sem erlendir ferðamenn og aðrir selja íslenzkum bönkum.