31.05.1957
Sameinað þing: 65. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 319 í D-deild Alþingistíðinda. (2714)

113. mál, verndun fiskimiða umhverfis Ísland

Sjútvmrh. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Út af þessari fsp. vildi ég taka það fram, að það mál, sem hér er spurt um, hefur verið í athugun hjá ríkisstj. að undanförnu, og allshn. hefur verið kunnugt um það og rætt við mig um þetta mál tvívegis. Nú einmitt þessa daga er hér staddur sá fulltrúi Íslands, sem lengst af hefur verið ráðunautur ríkisstj. í sambandi við landhelgismál, og er nú á viðræðufundum við ríkisstj. um þessi mál. Þó að talsvert hafi verið unnið að undirbúningi um framkvæmdir í þessum efnum, hefur þó ekki þótt rétt að gera hér samþykkt í því formi, sem sú till. fjallar um, sem hér liggur fyrir, enda er gert ráð fyrir því, að hægt sé að gera nauðsynlegar ráðstafanir í þá átt, sem till. ætlast til, með auglýsingu frá hálfu ríkisstj., eins og dæmi eru til um áður. En málið er sem sagt í höndum ríkisstj., og er verið nú að ræða það við þá fulltrúa, sem hún vinnur að lausn málsins með.

Þetta er ástæðan til þess, að n. hefur ekki talið rétt að leggja til um fast form að afgreiðslu á málinu hér á þessu þingi.