22.05.1957
Sameinað þing: 59. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 332 í D-deild Alþingistíðinda. (2752)

168. mál, sameiningÁfengisverslunar og Tóbakseinkasölu

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Ég sé það, að ekki er tekin á dagskrá í dag till., sem ákveðið var hér s.l. miðvikudag, hvernig ræða skyldi, þ.e. till., sem ég og hv. þm. N-Ísf. (SB) flytjum á þskj. 511 um sameiningu Áfengisverzlunar ríkisins og Tóbakseinkasölu ríkisins.

Eftir venju hafði ég gengið út frá því, að tekin mundi verða á dagskrá í dag þessi till. til umr. og því ekki sérstaklega um það rætt við hæstv. forseta, að till. yrði tekin á dagskrána. Nú sé ég, að þetta er ekki gert, en hins vegar standa þannig sakir, að ég þarf nauðsynlega að hverfa af þingi í 2–3 daga og hefði því mjög gjarnan óskað eftir því, að auðið hefði verið að taka þessa till. á dagskrá nú, til þess að hægt væri að vísa henni til nefndar.

Nú vildi ég leyfa mér að fara þess á leit við hæstv. forseta, og það er að sjálfsögðu komið undir hv. alþm. einnig, hvort hann mundi ekki sjá sér fært að leita um það samþykktar þingsins, að þessi till. mætti koma á dagskrá nú, þannig að það væri hægt að mæla fyrir henni og vísa henni til n.

Ég skal strax taka það fram, að ég hef ekki hugsað mér langa framsögu um málið, þannig að það ætti ekki að tefja tíma fundarins, en hins vegar af þeim ástæðum, sem ég gat um, væri mér það mjög kærkomið, ef auðið væri að koma því fyrir á þennan hátt.