21.12.1956
Neðri deild: 42. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2415 í B-deild Alþingistíðinda. (277)

Þinghlé

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hæstv. forseta fyrir árnaðaróskir hans til okkar þingmanna.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að nokkrar greinar hafa orðið með mönnum á þessu þingi, eins og oftast er, og að mínir félagar hafa ekki ætið verið alveg ánægðir með fundarstjórn hæstv. forseta. En nú er sá tími árs kominn, þegar við kjósum að gleyma öllum deilum og hugsa það eitt, sem sameinar okkur, og það er þrátt fyrir allt meira en sundur skilur. Ég vil þess vegna af heilum hug óska hæstv. forseta árs og friðar, gleðilegra jóla, honum og hans fjölskyldu allra heilla, um leið og ég þakka honum fyrir að langsamlega mestu leyti ánægjulegt samstarf á þeim hluta þingsins, sem nú þegar er liðinn.

Ég bið hv. þingmenn um að standa upp og staðfesta með því heillaóskir okkar til hæstv. forseta. — [Þm. risu úr sætum.]