07.11.1956
Sameinað þing: 6. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 340 í D-deild Alþingistíðinda. (2784)

28. mál, endurskoðun laga um atvinnu við siglingar á íslenskum skipum

Fyrirspyrjandi (Jóhann Jósefsson):

Ég vil þakka hæstv. félmrh. fyrir þær upplýsingar, sem hér voru gefnar, og ræð af þeim, að hæstv. ríkisstj. hafi gert ráðstafanir til þess að sinna þessu máli samkv. óskum þeim, er fyrir lágu við samþykkt þáltill., er ég gerði að umtalsefni, að því er varðaði skipstjórnarmenn.

Ég efast ekki um, að það muni líka þurfa að endurskoða réttindi og námsskyldur þeirra, sem við vélarnar fást, en þessi fsp. snertir nú einkum þá, sem skipunum sjálfum eiga að stjórna.

Ég heyrði það, að n. hefði verið skipuð og skólastjóri stýrimannaskólans að sjálfsögðu formaður hennar ásamt öðrum góðum mönnum. En ég vil benda á það, að til þess var mælzt, bæði í framsögu og eins í grg. fyrir þessari þáltill., að haft væri samráð við sjómannasamtökin, Farmanna- og fiskimannasamband Íslands, skipstjórafélagið Verðandi í Vestmannaeyjum og öll önnur sjómannasamtök, sem væru líks eðlis víðs vegar um land, til þess að það frv., sem fram kæmi, yrði sem líkast óskum þeirra manna, sem mest hafa hert á því að fá þessi lög endurskoðuð.

Mér þykir gott að heyra það, að hæstv. ráðh. hefur hert á n. að skila af sér, þannig að hægt verði að leggja hér fram frv. fyrir þetta þing, og vil vona, að það muni takast. Með einu af frv., sem sjútvn. Ed. fékk — ekki til þingmeðferðar, heldur til meðferðar skv. félagsóskum, það var frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands — á þinginu sem leið, var svo komizt að orði, að margendurteknar óskir hafi komið fram um breytingar á lögunum um atvinnu við siglingar á íslenzkum skipum, sérstaklega að því er snertir fiskibátaflotann, beiðnum um undanþágur frá téðum lögum hafi bókstaflega rignt yfir stjórnarráðið og verið sendar Farmanna- og fiskimannasambandinu til umsagnar. Mest hefur ásóknin verið frá Vestmannaeyjum og töluvert frá öðrum verstöðvum. En óskirnar um breytingar á lögunum hafa verið einna háværastar frá Vestmannaeyjum.

Þetta segir Farmanna- og fiskimannasambandið, og ég þykist vita, að það muni vera rétt hermt, því að því hefur verið mjög haldið að mér einmitt frá Vestmannaeyjum, að þörf væri breytinga á lögunum og að þau væru sett í það form, að menn gætu haft lögleg réttindi, en að hægt væri að losna við eða a.m.k. minnka mikið þann leiða sið, sem kominn er á, að láta menn starfa á flotanum við ábyrgðarmikil störf, sem lærdóm þarf til að inna af hendi, með undanþágum frá námi ár eftir ár.

Ég vil svo vænta þess, að hæstv. ríkisstj. herði svo á þessu máli, að lagt verði fram frv. það snemma, að það sé a.m.k. komið fram, áður en vetrarvertíð byrjar hér sunnanlands, og helzt ef það væri það snemma, að það gæti verið gengið í gegnum þing.

Ég skal geta þess til skýringar, að orsökin fyrir því, að sjútvn. Ed. á s.l. þingi vildi ekki fara sjálf að setjast við að semja breytingar á lögunum, kom til af þeirri gömlu reynslu, að við slíkar breytingar á réttindum til atvinnu, hvort sem það er til sjós eða lands, vill oft verða togstreita og ágreiningur, og okkur þótti viturlegast að fara þá leið eða fá Alþ. til að stilla svo til og hæstv. ríkisstj., að þeir menn, sem bezta þekkingu hafa á þessum málum utan þings, kæmu sér niður á höfuðdráttunum og legðu ríkisstjórninni í hendur frv., sem hún gæti svo borið fram, og þá væntir maður, að minni ágreiningur gæti orðið um afgreiðslu málsins á þinginu. Nú er svo komið, að þetta er í utanþingsnefnd, sem er að fjalla um málið, eins og hæstv. ráðh. lýsti, og þess vegna enn óvænlegra nú. Þó að einhver vildi taka sig til og setja fram frv. um breyt. á þessum lögum fyrir næstu vertíð, þá yrði sennilega allajafna vísað til þess, að meðan n., sem væri að starfa að málinu utan þings, væri ekki búin að koma fram með sitt álit, yrði tregur framgangur þess hér á þingi, ef ég get mér rétt til.

Ég vil svo vona, að þessu máli verði hraðað af hæstv. ríkisstj. eins og frekast er unnt.