05.12.1956
Sameinað þing: 14. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 343 í D-deild Alþingistíðinda. (2788)

59. mál, innflutningur á olíum og bensíni

Sjútvmrh. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Hér er spurt um í fyrsta lagi, hvaða ráðstafanir hafi verið gerðar til að tryggja nægilega flutninga á olíum og benzíni til landsins. Í aðalatriðum standa þau mál þannig:

Þó að það sé ekki algerlega búið að ganga frá því, þá má telja það orðið fullöruggt, að það hafa tekizt samningar við eigendur Hamrafells um, að það skip verði hér í stöðugum flutningum á olíum til landsins nú á næstu mánuðum, og er með því talið, að tryggt megi heita, að við getum flutt alla gasolíu og benzín, sem þörf er á, nú á næstu mánuðum. Þó er búizt við því, að skjóta verði inn í einum farmi af gasolíu eða af þeirri olíutegundinni, sem bátaflotinn notar aðallega nú á vertíðinni. Ég tel því, að það megi heita orðið mjög sæmilega öruggt, að ekki geti dregið til neinna erfiðleika með það að hafa hér á boðstólum gasolíu og benzín á næstu mánuðum. Þetta skip, Hamrafellið, á að geta annað þörfunum nú næstu mánuði að mestu leyti, en þó er talið öruggara, eins og ég sagði, að skjóta inn í einum farmi, og hafa þegar verið gerðar ráðstafanir til þess að leita eftir skipi til þessara flutninga.

Þá er hin olíutegundin, sem mestu máli skiptir, það er fuelolían eða svartolían, sem togaraflotinn notar einkum. Það er stutt síðan leigt var eitt skip til flutninga til landsins með þessa olíu, og ætti því að vera öruggt með þeim birgðum, sem til eru í landinu, að nægilegar birgðir séu til af þessari olíu fram yfir miðja vertíð. Þá hafa einnig verið gerðar ráðstafanir til þess að fá um tveggja mánaða notkun eða svo að láni af olíubirgðum þeim af þessari tegund, sem geymdar eru í Hvalfirði, en áður hefur komið til þess, að við höfum fengið að nota af þessum olíubirgðum, sem þar eru, þegar þannig hefur verið ástatt um flutninga á olíu til landsins. Einnig er svo í athugun að tryggja okkur skip til flutninganna áfram, og sé ég ekki, eins og útlitið er, þó að það sé ekki gott, að það sé ástæða til þess að örvænta um, að takist að flytja þessa olíu til landsins. Hitt er svo aftur annað atriði, að verðlagið á farmgjöldunum er gífurlega óhagstætt.

Ég hygg, að þetta upplýsi í öllum atriðum, hvernig ástatt er með flutninga á olíum til landsins, og þar með sé svarað fyrri fsp. á þskj. 76.

Þá er síðari spurningin. Hún er á þessa leið: Hvaða innkaupsverð og flutningsgjald er nú á brennsluolíum þeim, sem útvegurinn notar, og hvaða verð er gert ráð fyrir að gildi hér næstu vertíð á þessum olíum?

Verðlagsbreytingar á olíum hafa ekki enn orðið nema tiltölulega litlar og að sáralitlu leyti á þeim olíutegundum, sem við notum mest af. Það verð, sem síðast var í gildi og ég hef tölur yfir á fuelolíu eða togaraolíunni, er kr. 242.88 fob: verð á tonn. Á gasolíunni eða þeirri olíutegundinni, sem bátaflotinn notar, var verðið á síðustu förmum kr. 422.24 fob.- verð, og á benzíni var fob.-verð kr. 600.45, — og eins og ég sagði, þá hafa ekki orðið varðlagsbreytingar verulegar nema þá alveg síðustu daga, sem mér er þá ekki nákvæmlega kunnugt um.

Þá er spurt einnig í þessari spurningu um flutningsgjald á þessum olíum, og get ég þá komið að því í sambandi við þær ásakanir, sem bornar hafa verið fram í blöðum og fram komu hér hjá fyrirspyrjanda í sambandi við mistök mín varðandi leigu á olíuskipum og varðandi þar með skipaleigurnar.

Það er hinn mesti misskilningur, að mitt ráðuneyti eða ég hafi á nokkurn hátt staðið í vegi fyrir því, að olíufélögin tækju skip á leigu og gætu flutt inn olíur til landsins eins og þeim ber í rauninni skylda til samkv. samningi þar um við ríkisstjórnina. Þeir hafa þegar með þessum samningi tekið á sig þá skyldu að eiga að flytja tiltekið olíumagn til landsins og fá þar með rétt til þess að annast þessa olíusölu. Það er því ekki á valdi viðskmrh. né neins annars ráðh. að hafa neitt með það að gera, hvort þeir velja þetta eða hitt skip til flutninganna. En það er hins vegar annað, að allmikið af olíunni, og nú reyndar öll olían hefur verið undir verðlagsákvæðum, og breytingar á innkaupsverði eða breytingar á flutningsgjöldum koma vitanlega til með að verka á verðlagið, og þá hafa olíufélögin gjarnan viljað tryggja sér að hafa samkomulag við rétt yfirvöld um það, hvað þau fengju að verðleggja þá olíu, sem flutt yrði inn undir nýjum kringumstæðum, og þar koma vitanlega til verðlagayfirvöldin í landinu.

Nú er það svo, að ég hef ekki með verðlagmálin að gera. Það er ekki á mínu valdi — sá málaflokkur flokkast ekki undir mig — að segja til um það, hvort þeir fá að hafa sína álagningu svona háa eða á annan hátt eða til hvaða liða verður tekið tillit í sambandi við verðlagninguna. Þeir hafa því ekki undan neinu að kvarta í sambandi við mig, og þar er því alger misskilningur á ferðum. En hitt er annað mál, að þeir hafa kosið að leita til mín, ekki aðeins í sambandi við þessi mál, heldur mörg önnur, og mjög keppzt um að reyna að fá meðmæli mín fyrir því, sem þeir væru að gera í sambandi við leigu á skipum og verðlagningu á olíum. En eins og kunnugt er, þá hefur allt olíuverð eins og annað verðlag í landinu verið bundið fram til næstu áramóta, og á því tímabili hafa olíufélögin eðlilega ekki fengið að breyta sínu verðlagi, þó að um nokkra hækkun hafi orðið að ræða á flutningsgjöldum. En þau hafa vitanlega gert sér vonir um, að hækkuðum flutningsgjöldum fengju þau að velta af sér yfir í verðlagið strax eftir áramót, eftir að verðfestingarlögin eru úr gildi. Er þá rétt að rekja þessa sögu málsins, afskipti þau, sem kennd eru við mig í sambandi við þessi mál, eða sem sagt samskipti mín við olíufélögin varðandi þetta mál.

Það var fyrst um það leyti, sem ókyrrðin var einna mest í sambandi við Súez, en áður en kom til þeirra stríðsátaka, sem þar urðu síðar, að olíufélögin töldu, að nauðsynlegt væri að leigja skip til flutninga á gasolíu eða bátaolíu, og þau skýrðu mér frá því, að nú hefðu fragtir hækkað þannig, að þó að síðasta skip, sem þeir hefðu leigt til flutninganna, hefði verið á 98 sh. fragt, þá væri nú svo komið, að það skip, sem þeir gætu fengið til flutninganna á þessari olíu, fengist ekki fyrir minna en 150 sh. á tonn. Mitt svar var það og gefið í fullu samráði yfirleitt við ríkisstj. alla, að ég mundi ekki mæla með því fyrir mitt leyti, að þeir leigðu þetta skip, — hvaða samband þeir hafa svo haft við verðlagsyfirvöldin í landinu, er mér ekki kunnugt um, — en ég fyrir mitt leyti mundi ekki mæla með því, að þeir tækju þetta skip. Síðan liðu nokkrir dagar, og það dró þá heldur úr þeirri spennu, sem var í sambandi við hótanir ríkja á milli varðandi Súezdeiluna, og komu þá olíufélögin enn eftir nokkurn tíma og tilkynntu, að þau gætu fengið skip til flutninganna og fragtin væri þá 129 sh. og 6 pence, og vildu fá meðmæli mín með því, að óhætt mundi vera fyrir þau að leigja þetta skip upp á verðlagningarákvæði síðar.

Það fór á sömu leið. Ég fyrir mitt leyti vildi ekki blanda mér í það og taldi mig ekki vilja mæla með því, að þetta skip yrði leigt eða þeir leigðu á þessari fragt, og það væri nokkur ástæða til að búast við því, að það drægi úr þessari spennu.

Svo liðu nokkrir dagar, og þá beitti ég mér fyrir því, að þeim var veitt heimild til þess að leigja skip allt að þessari fragt og það mundi verða tekið tillit til þess við verðlagningu á olíu, sem vitanlega yrði ekki í sambandi við þennan farm fyrr en eftir áramót, því að nægar birgðir voru fyrir í landinu.

Niðurstaðan varð svo sú, að þá um sama leyti barst olíufélögunum tilboð, líklega tvö tilboð, annað á 120 sh. og hitt á 110 sh., og svo kom hið íslenzka skip, Hamrafell, einnig til skjalanna og bauðst til þess að taka þennan flutning fyrir 100 sh. ferðina, en síðasti túr áður hafði sem sagt verið fluttur til landsins á 98 sh. fragt. Nú hygg ég, að öllum hafi þótt út af fyrir sig, að vel tækist í þessu tilfelli, að svona fór, og er það eflaust engum sérstökum að þakka, nema þá helzt Hamrafellinu, sem þá var orðið til og kom hér inn á markaðinn.

Síðan liðu nokkrir dagar, ég hygg 5 dagar eða svo, og komu þá olíufélögin enn að máli við mig og sögðu, að þau teldu varla öruggt annað en það yrði farið að leigja skip undir togaraolíu, en hins vegar væru erfiðleikarnir á skipamarkaðinum enn þá þannig, að þeir gætu ekki fengið skip fyrir lægra verð en 120 sh. fragt, en síðasta fragt á þessari olíutegund var 83 sh. og 6 pence, og samkvæmt upplýsingum olíufélaganna hafði jafnan verið svo, að fragtin á þessari olíu, svartolíu, hafði verið allmiklu lægri en á gasolíunni, eða sem sagt, síðasta fragt fyrir þessa óróleika var á þeirri olíu 83 sh. og 6 pence, en á bátaolíunni 98 sh. Nú var nýbúið að leigja skip til flutnings á bátaolíu á 100 sh., og ég fyrir mitt leyti sagði þeim, að ég mundi ekki mæla með því, að þeir leigðu þetta skip á 120 sh., eða hækkun úr 83 sh. og 6 pence, en gerði þeim það hins vegar ljóst, sem þeim hefur verið ljóst allan tímann, að þetta er vitanlega þeirra mál, en ekki mitt. Ég ræð ekki verðlagningunni, og ég hef ekki með flutningana á olíu að gera. Þeir slepptu þessu tækifæri og hafa eflaust litið þannig á, enda gat ég ekki fundið annað, en að þeir byggjust við því, að það væri von til þess, að breyting yrði.

Skammur tími leið svo, eða líklega 5–6 dagar, og þá var svo komið, að það var skollið á skyndilega stríð við Súez, og þá sótti allt á verra veg með að fá skip, og fragtir vitanlega þutu upp skyndilega. Og þá tilkynntu olíufélögin, að þau mundu geta fengið skip fyrir 160 sh. og mjög fljótlega. Þá samþykkti ríkisstj, að heimila þeim það fyrir sitt leyti og taka tillit til þess í verðlagningunni síðar að leigja skip á þessu verði. En það reyndist svo, að skip var ófáanlegt; og síðar jókst spennan þarna enn og fragtirnar hækkuðu óðfluga, og næstu tilkynningar voru svo þær, að skip vildu yfirleitt ekki sigla inn á þetta svæði, væru með öllu ófáanleg, það væri ekki gjaldaspursmálið eitt, sem um væri að ræða, heldur fyrst og fremst hitt, að þeir vildu ekki leggja skipin í þá hættu, sem því fylgdi að sigla um þessar slóðir.

Þá tilkynntu olíufélögin nokkru síðar, að þau mundu þó geta fengið skip til flutninganna á 280 sh. En þegar hér var komið, var byrjað á að athuga möguleika á því, þar sem talsvert drjúgar olíubirgðir voru í landinu, að komast yfir mesta hættutímann, m.a. með því að ganga á þær olíubirgðir sem geymdar eru uppi í Hvalfirði. Síðan var framhaldið það, að þetta skip, sem hafði boðizt til þess að fara á 280 sh., bauðst til að fara á 240, lækkaði sig nokkuð; en svo þegar tókst nokkru síðar að fá skip á 220 sh. og það var orðið fyrirsjáanlegt, að erfiðleikarnir af völdum stríðsins við Súez mundu geta orðið nokkuð langvarandi, þá þótti rétt að mæla með því, að þeir leigðu skip á 220 sh., eitt skip til flutninga á þessari olíu til frekara öryggis í sambandi við það að hafa þó til nægar olíubirgðir í landinu.

Er þá sagt frá þessu máli; eins og það hefur gengið fyrir sig, sem vitanlega er mjög á annan veg en komið hefur fram í Morgunblaðinu, og hv. fyrirspyrjandi vildi hér láta skína í.

Það er sem sagt alger misskilningur, að ég hafi haft til þess nokkurt vald eða nokkra aðstöðu að stöðva olíufélögin. Ef þau töldu, að flutningar væru með eðlilegum hætti með því að taka það skip, sem fyrir lá eða þeir töldu sig geta fengið, þá áttu þeir vitanlega að leigja það. Ef þeir vildu fá einhverja frekari tryggingu í sambandi við komandi verðlagningu, þá áttu þeir að snúa sér til verðlagsyfirvaldanna. En það var rétt, ég hafði ekki viljað taka að mér að mæla sérstaklega með því, að þessi verðhækkun yrði ákveðin á olíu, eins og þarna stóð, eftir að ég hafði fengið þá reynslu af fyrri skipaútvegun, sem ég fylgdist með, á þá lund, sem ég greindi frá hér áðan.

Ég vil því undirstrika það, að frá hálfu viðskmrn. hefur ekki á neinn hátt verið gripið inn í störf olíufélaganna. Hitt er svo annað mál, að hver sem vill getur láð verðlagsyfirvöldunum í landinu það, þó að þau hafi ekki hlaupið inn á hvaða hækkun sem fyrir lá og þau hafi kannske ekki séð fyrir, að stríð var að brjótast út við Súez.

Þá er hér spurt um það, hvað ráðgert sé um verð á olíum á næstu vertíð. Þessu er ekki hægt að svara, eins og sakir standa. Þessi mál eru öll í athugun. Í fyrsta lagi liggur það enn ekki ljóst fyrir, hvaða flutningsgjald verður og hvaða innkaupsverð verður á olíum þeim, sem nota þarf nú á næstu vertíð. En ég hygg, að það verði gert allt, sem hægt er að gera, til þess að halda verðlaginu niðri, og ég hygg a.m.k., að olíufélögin efist ekkert um, að það muni verða gert, að olíuverðinu verði haldið niðri eins og hægt er. En vitanlega verður þar að fara eftir því, sem reynslan sýnir um bæði innkaupsverð og flutninga á olíunni. Aðalatriðið er það, að vitanlega grípur verðlagið á olíu mjög inn í alla afkomu útgerðarinnar á komandi vertíð, og vissulega verður þar að taka fullt tillit til þess olíuverðs, sem endanlega verður. Það mun líka verða að athuga til hlítar, hvort ekki er hægt, sumpart með breyttu skipulagi og einnig í sambandi við almenn verðlagningarákvæði, að koma því svo fyrir, að jafnvel sú verðhækkun, sem verður á flutningum til landsins, þurfi ekki að öllu leyti að koma fram í olíuverðinu til útgerðarinnar á komandi vertíð.