23.01.1957
Sameinað þing: 20. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 354 í D-deild Alþingistíðinda. (2795)

59. mál, innflutningur á olíum og bensíni

Sjútvmrh. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Það er nú ljóst mál, að erindi hv. 1. þm. Rang. (IngJ) hingað upp í ræðustólinn var fyrst og fremst að lesa hér upp 5 mínútna blaðagrein, sem á að birtast í Morgunblaðinu á morgun. Hann gerir sér það eflaust ljóst eins og allir hér, að í því, sem hann sagði, kom ekkert nýtt fram, hér var aðeins verið að tönnlast á því, sem áður hefur fram komið í þessu máli og er búið að marghrekja hér áður. En það er nú venjan að gera sér von um það, að með því að birta þetta nógu oft og í nógu útbreiddum blöðum, megi samt koma rangfærslunum þannig áleiðis, að einhverjir fari að trúa.

Þessi hv. þm. endurtekur það hér enn einu sinni, að ég sem viðskmrh. hafi neitað olíufélögunum um leyfi til þess að leigja tiltekið olíuskip til flutninga á olíum til landsins á 120 sh. tonnið. Ég hef lýst því yfir opinberlega í blöðum og hér á Alþingi áður og því er ekki mótmælt af olíufélögunum, að ég hef aldrei skorizt í þeirra mál í þessum efnum. Þau hafa ekkert bréf né á neinn hátt neitt plagg frá mér um það, að ég hafi bannað þeim að leigja þetta skip. Þau höfðu fullt frelsi til þess að leigja skipið. Það er þeim kunnugt um, og það er þessum hv. þm. einnig kunnugt um. En þau óskuðu ekki eftir því að leigja þetta skip nema fá tilskilda tryggingu hjá verðlagsyfirvöldunum í landinu fyrir að fá ákveðna hækkun á olíuverði um leið, og eins og ég hef sagt áður, ef þar á einhvern um að saka, að ekki hefur fengizt heimild til þess að hækka olíuverðið, þá á vitanlega að saka verðlagsyfirvöldin í landinu um það, en þeim er einnig kunnugt um, að ég hef ekki með þau mál að gera.

Þessu er þá snúið við, þegar ég segi þetta, og sagt, að ég sé að bera sakir á félmrh., Hannibal Valdimarsson. Svona er málflutningurinn. Vitanlega ásaka ég ekki hann fyrir það, nema síður sé, því að ég styð hann algerlega í því, að það var ástæðulaust að veita þeim heimild til hækkunar á olíuverðinu í landinu. En hitt er svo rétt, að olíufélögin ásaka mig sérstaklega fyrir það, að ég sé valdur að því, að þau fá ekki að hækka olíuna.

Það liggur því alveg ljóst fyrir, að olíufélögin höfðu með samningi við ríkisstj. tekið að sér að flytja nægilegar birgðir af olíu til landsins og þau höfðu heimild til þess að leigja þau skip, sem þau óskuðu eftir, eftir því sem þau töldu leiguna vera hagstæða hverju sinni. En hitt er svo annað mál, hvort einstakir ráðh. vilja veita þeim það í leiðinni að samþykkja handa þeim verðhækkun fram yfir það, sem öðrum er veitt í landinu, en hér giltu þá lög um algera verðstöðvun. Vegna þess að þetta skip var ekki leigt og skyndilega skall svo yfir styrjöld í heiminum, þá hækkuðu fragtir gífurlega á skömmum tíma, og þá kom þetta dæmi, að það varð nokkru síðar að leigja skip fyrir 220 sh., og svo á að reyna að grípa tækifærið og kenna mér um það eða ríkisstj., að þetta skip var ekki leigt af þeim aðilum, sem höfðu þó fulla heimild til þess, en töldu það ekki hagstætt.

Ég veit, að endurteknar yfirlýsingar hér á Alþingi eða í blöðum frá minni hálfu um þetta atriði, sem þó liggur alveg ótvírætt fyrir, hafa vitanlega engin áhrif á 1. þm. Rang. eða á þá Morgunblaðsmenn yfirleitt. Þeir halda áfram að prenta þetta upp sí og æ, þó að þeir viti, að þeir séu að skýra ranglega frá málum.

Þá kemur aftur hin fullyrðingin, sem líka er í sífellu tönnlazt á, að ríkisstj. hafi rétt að Olíufélaginu og SÍS 15 millj. kr. með því að leigja af þessum aðilum skipið Hamrafell til fjögurra túra yfir vetrarmánuðina á 160 sh. í flutningsgjald á tonn, þar sem skipið muni hafa getað tekið að sér þessar ferðir fyrir 80 sh., er nú sagt, þó að hingað til hafi því verið haldið fram, að það hefði getað tekið að sér þessa flutninga fyrir 60 sh. Ég hef gert grein fyrir því, bæði hér á Alþingi og einnig í blöðum, hvernig þetta mál lá réttilega fyrir, og get endurtekið hér aðeins nokkur aðalatriði.

Ég hef bent á það, að hámarksákvæðin um fragtir hafa hingað til, í allri stjórnartíð m.a. þessa hv. þm., sem var hér að enda við að tala, ekki gilt yfir flutninga, þar sem um heila farma hefur verið að ræða. Íslenzk skip öll hafa fengið að taka það flutningsgjald, sem gildandi hefur verið á hinum frjálsa markaði, þegar um hefur verið að ræða flutning á heilum vöruförmum. Þannig er þetta enn í dag, að íslenzk skip, sem núna eru að koma með kol til landsins, íslenzk skip, sem eru að koma með salt, þau taka nú í dag þá fragtataxta í þessum efnum, sem eru samsvarandi við það, sem er á frjálsum markaði. Hámarksákvæðin eru ekki látin gilda í þessum tilfellum og hafa aldrei verið látin gilda. Þegar fragtirnar hafa farið hækkandi, hafa þessi íslenzku skip því fengið hærri fragtir í öllum þessum tilfellum og fá það enn í dag. Skipið Hamrafell hlaut því vitanlega að setja fram það sjónarmið, eins og eðlilegt var, að það ætti að búa við nákvæmlega sömu kjör í þessum efnum og önnur íslenzk skip, að það ætti ekki að taka það eitt út úr og setja það undir hámarksfragttaxta, eins og gert hefur verið aðeins um þau skip, sem flutt hafa stykkjavöru til landsins. En ég hef hins vegar lýst því yfir, að ég álít, að það komi vel til mála, að þessi gamla regla verði endurskoðuð og það verði sett ákvæði um að láta hámarksreglurnar einnig gilda yfir olíuflutningaskip og yfir flutninga á salti, kolum og öðrum varningi til landsins, þó að íslenzk skip eigi þar í hlut. Þetta atriði er alltaf dregið undan af þeim sjálfstæðismönnum, sem um þetta mál tala. Hér þurfti því að skapa algera sérreglu í þessu tilfelli með þetta nýja olíuflutningaskip. Nú var farin sú millileið í þessu í fyrstu lotu málsins, að skipið lækkaði frá gildandi fragttöxtum, sem voru á erlendum skipum, það lækkaði fragt sína mjög verulega, eða úr 220–240 sh., sem almennt voru á frjálsum markaði, í 160 sh., og tók þar með að sér að flytja olíu til landsins á þeim tíma, sem skip voru nálega ófáanleg og olíufélögin höfðu tilkynnt ríkisstj. dag eftir dag, að ekki væri hægt að fá nein skip til þessara flutninga. (Gripið fram í.) Ja, hvað kostar hún núna, og hvað kostar hún næst? Vitanlega hafa allir gert sér það ljóst, að fragtir munu, þegar fram líða stundir, fara lækkandi, þær hafa alltaf farið lækkandi með vorinu, en verið hæstar yfir háveturinn, og enn fremur er þess að vænta, að áhrifin frá flutningaerfiðleikunum, sem sköpuðust vegna Súezstríðsins, fari minnkandi. Ég fyrir mitt leyti stóð því á því, að Hamrafellið yrði tekið á leigu í þessa fjóra túra. Þar sem þetta lá fyrir, að hér var um alveg nýja aðferð að ræða í þessum verðlagsmálum gagnvart þessu olíuflutningaskipi, þar sem það var eitt tekið út úr þeirra skipa, sem flytja heila farma til landsins, og látið slaka um 60–80 sh. á hvert tonn frá hinum frjálsa markaði og þar sem það tók að sér flutninga, sem önnur skip voru ekki fáanleg til um þetta leyti, yfir langóhagstæðasta tímann og þegar nokkur ótti var í mönnum hér um það, hvort tækist að útvega nægilega olíu hingað til landsins í vetur, þá taldi ég eftir atvikum rétt, að skipið yrði leigt til þessara fyrstu túra á þessum grundvelli.

Hitt gerði ég mér svo alveg ljóst, að það er vitanlega enginn vandi fyrir hvern sem er að koma á eftir og segja: Af hverju gerðuð þið ekki enn betur? Af hverju létuð þið þá ekki slá enn meira af? Þar geta þeir vitanlega djarflega úr flokki talað, sem aldrei hafa gert neitt í þessa átt fyrr. Hvernig stóð þessi hv. þm. sig, 1. þm. Rang., sem viðskmrh. í þessum tilfellum, þegar var verið að flytja til landsins vörur í heilum förmum, hvort sem var salt eða kol eða aðrar vörur, og þegar fragtir fóru upp, — hvað gerði hann þá í því að knýja íslenzk skip til þess að búa þar við lægri fragtir en hin erlendu skip tóku? Hann gerði ekki nokkurn skapaðan hlut í þessum efnum. Hann hefur ekki fram að færa, eins og ég í þessu tilfelli, 60–80 sh. lækkun á tonni. Hann hefur ekki einn einasta shilling fram að færa, vegna þess að hann gerði ekkert í þessu efni. Hann getur því kannske djarft úr flokki talað um það, að ég skuli ekki koma með meiri afslátt en ég gerði í þessu tilfelli.

Það er svo sama eðlis, þegar verið er að deila á mig og aðra í ríkisstj. fyrir það, að hér sé verið að steypa yfir landslýð hærra verði á olíu en þörf er á, og mikið er verið að spá um það, hvert muni verða verð á olíu og hvað það muni hækka, þegar það liggur svo fyrir, að olíuverð hefur um langan tíma staðið hér algerlega óhreyft, þrátt fyrir það að í öllum löndum í kringum okkur hafi olíuverð farið stórkostlega hækkandi. Og nú hefur það átt sér stað í fyrsta sinni í sögunni, en þess munu sem sagt engin dæmi vera til áður, að verðlag á olíum á Íslandi er orðið lægra en í nálægum löndum við okkur. Nú senda sem sagt erlend skip, sem hingað leita eða veiða hér við land, daglega svo að segja beiðni um að fá að kaupa olíuvistir sínar á Íslandi, af því að þau vita, að hér er olían orðin lægri í verði en í heimalöndum þeirra.

Mér er það alveg ljóst, að það er ekki hægt að halda því í allan vetur, að verð á olíum og benzíni hækki ekkert hér. Sannleikurinn er sá, að í þessum málum hefur verið gert mjög mikið fram til þessa, meira en hægt verður að standa á út veturinn. Það verður án efa að gefa hér eitthvað eftir, vegna þess að olíurnar hafa stórkostlega hækkað í innkaupi og í flutningi, og það eru miklir örðugleikar yfirleitt fyrir alla að fá þær olíur, sem þeir óska eftir að fá keyptar. Það er því ekkert undarlegt, þó að hér verði að fara fram einhver verðhækkun í þessum efnum, og það er búizt við því. En á þessu sjá menn, hversu sanngjarnt það er að bera á ríkisstj., að hún sé að leggja hér á landsmenn meira eða hærra verðlag í þessum efnum en beinar ástæður eru til.

Í þessum útúrsnúningi er því svo haldið fram, eins og hv. 1. þm. Rang. gerði hér nú síðast, að svo illa sé ríkisstj. þokkuð fyrir afskipti sín af olíumálunum, að jafnvel stuðningsmenn hennar, eins og bæjarfulltrúar í bæjarstjórn Reykjavikur, viti hana fyrir framkomu hennar í olíumálunum, eins og hér var orðað. Vitanlega er þessu algerlega snúið við. En það er sízt meiri ósæmd í þessu en öðru því, sem þeir Morgunblaðsmenn yfirleitt segja í þessum olíumálum. Þessir aðilar hafa alls ekki vítt ríkisstj. fyrir það, sem hún hefur gert í olíumálunum almennt, síður en svo. Það hefur hins vegar komið þarna fram að til eru þeir stuðningsmenn ríkisstj., sem telja, að það hefði átt að ganga lengra en gert var í samningunum við Hamrafell og það hefði vel getað tekið að sér þessa flutninga, sem það tók að sér, fyrir enn lægra gjald en það tók. Ég ber ekkert á móti því, að Hamrafell hefði getað staðið undir því. En þegar það er skoðað í þessu ljósi, sem ég hef hér dregið upp, að hér er þó um algert frávik að ræða frá þeirri almennu reglu, sem verið hefur, og hér er um verulega tilslökun að ræða, þá taldi ég fyrir mitt leyti vel við unandi, að Hamrafellið yrði leigt á þeim kjörum, sem gert var, þó að ég játi, að það hefði án efa getað stundað þessar siglingar fyrir lægra gjald. Og það sjónarmið, sem kemur fram hjá þessum stuðningsmönnum ríkisstj. í bæjarstjórn Reykjavíkur, er aðeins það, að það er óskað eftir því, að ríkisstj. hefði í þessum efnum gengið enn lengra en hún gerði. Hitt er með öllu rangt, að þeir séu að víta ríkisstj. fyrir það, sem hún hefur almennt gert í olíumálunum, enda væri það skrýtilegt, að slíkt kæmi frá nokkrum öðrum en þeim, sem annaðhvort eru olíusalar sjálfir eða beinir umboðsmenn olíufélaganna, að kvarta undan því, hvernig haldið hefur verið á þeim málum, því að þar hafa engir undan að kvarta fram til þessa aðrir en þeir, sem selja olíu, því að þeim hefur verið haldið niðri, en hinir hafa búið hér við stöðugt verð í þessum efnum, sem engir aðrir í nálægum löndum hafa búið við á sama tíma.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að karpa frekar um þetta. Ég ætla, að það, sem um var spurt í þessari fsp. í upphafi, hafi hér verið upplýst og þessar síendurteknu rangfærslur hafi verið leiðréttar svo sem þörf er á. Það er vitanlega hægt að endurtaka þessi ósannindi sí og æ. En það breytir bara engu um hið rétta í málinu sjálfu.