23.01.1957
Sameinað þing: 20. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 361 í D-deild Alþingistíðinda. (2798)

59. mál, innflutningur á olíum og bensíni

Sjútvmrh. (Lúðvík Jósefsson):

Ég verð að játa það, að nú kom þó eitt atriði mjög merkilegt fram í þessum umræðum, sem verður að teljast alveg nýtt, og það svo merkilegt. að ég út af fyrir sig vil vekja athygli á því. Nú segir hv. 1. þm. Rang., sem var viðskmrh. í fyrrv. ríkisstj., að það hafi komið til sín maður, ja, mér skildist helzt samvinnumaður, og bent honum á, að það mundi vera hægt, nú væri sérstaklega hentugt fyrir Íslendinga að leigja alllangt fram í tímann olíuflutningaskip, og mundu þeir þá komast að góðum kjörum, en að gallinn við þetta væri sá, að nú væri ráðgert, að á hausti komanda kæmi íslenzkt skip, sem kæmi til með að taka að sér nokkurn hluta af þessum flutningum. Og svo sagði hann síðar: Ef þetta skip hefði ekki verið væntanlegt, þá hefðu olíufélögin leigt skip til flutninganna á 60 sh., en það var bara ekki gert. — M.ö.o.: Þessi fyrrv. viðskmrh. kemur hér upp og tilkynnir, að hann hafi látið það úr greipum sínum ganga og Íslendinga að tryggja okkur olíuflutningaskip á komandi mánuðum og ári fyrir 60 sh. Fer þá að verða heldur lítið úr því að ásaka mig fyrir það, að ég hafi átt einhvern þátt í að banna olíufélögunum síðar að leigja skip á 120 sh„ þegar hann sjálfur notar ekki tækifærið, þegar hann segir, að það hafi legið á borðinu, að olíufélögin gætu leigt skip fram í tímann fyrir olíuflutninga til íslands á 60 sh., hann lætur það eiga sig.

Þetta er nú að lýsa sök á sjálfan sig og henni ekki lítilli. Og ástæðan til þess, að viðskmrh. gerði þetta ekki og ríkisstj. lét þetta úr greipum sér ganga, var sú, að þeir höfðu áhyggjur af því, að Hamrafellið væri einhvers staðar á leiðinni og mundi þurfa meira, mennirnir, sem hafa verið að heimta það núna, að það yrði drifið niður í 60 sh.

Ætli menn sjái nú ekki, eftir að hafa heyrt þetta, að heldur eru haldlítil rök þessara manna, sem eru að saka núverandi ríkisstj. í sambandi við það, sem gert hefur verið í olíuflutningamálunum?. Ætli menn sjái það ekki núna, að þessi umbrot og þessi óánægja og þessi ólæti eru öll út frá því, sem ég hef hér bent margsinnis á áður, að mennirnir, sem ekki fá að græða á olíusölunni nú, eru reiðir, eru óánægðir? Það er ekki umhyggjan i sambandi við það, hvaða fragtir eru raunverulega skráðar. Það var sem sagt möguleiki á því að tryggja Íslendingum flutninga á 60 sh. Það var bara ekki notað. Og því er borið við núna, að það hafi verið nokkur hætta á því, að það gæti farið eitthvað illa fyrir Hamrafellinu í þessu tilfelli.

Það er rétt, mér var það ljóst, strax og ég kom í þetta starf, og það var eitt af því fyrsta, sem ég spurðist fyrir um, hverju þetta sætti, að olíufélögin, sem tekið hafa að sér þessa miklu olíuflutninga til landsins, sem nú nema orðið yfir 300 þús. tonna á ári, — en Hamrafellið getur vitanlega aldrei flutt nema svona rétt i kringum helming af því magni, — hvernig á því stæði, að það væri þannig staðið að þessum flutningum, að það væri alltaf verið að leigja eitt og eitt skip í senn af þessum frjálsa markaði, uppboðsmarkaði, af hverju væri ekki unnið þannig að þessu að reyna að tryggja sér með samningum við einhverja skipaeigendur, að þeir gætu fengið stöðuga flutninga á þessum olíum allt árið til landsins, og reyna þá að þrýsta flutningsgjaldinu niður, í stað þess að þurfa að sæta þeim ókjörum, sem fylgja því að leigja eitt og eitt skip í senn. En mér er líka ljóst, að það hefur verið lítill áhugi þeirra, sem með þessi mál hafa farið, bæði þeirra, sem hafa farið með viðskiptamálin, og eins hinna, sem stjórna olíusölumálunum í landinu, það hefur verið afar lítill áhugi fyrir því, hvaða verðlag var gildandi hér á olíu.

Þá fullyrti hv. 1. þm. Rang. það, að hér hefðu raunverulega verið gildandi hámarksákvæði í sambandi við flutningsgjöld á salti, kolum og sementi til landsins. Þetta veit hann að hann segir algerlega gegn betri vitund. Í þessu sambandi fer hann svo að vefja hér inn í þessar umræður það, að t.d. fyrirtækið Kol & Salt hagi sínum vinnubrögðum alltaf þannig, þegar það sé að flytja kol til landsins, að það leiti fyrst til verðlagsyfirvaldanna með að fá samþykkta þá fragt, sem þeir ætla að fragta kolin á. Hvað sannar þetta atriði út af fyrir sig? Ekki nokkurn skapaðan hlut annan en það, að Kol & Salt leita eftir skipum til þess að flytja kolin til landsins. Íslenzku skipin bjóða þetta, erlendu skipin bjóða annað, og verðlagsyfirvöldin sjá vitanlega um það, að þeir fái ekki hærri flutningsgjöld ákveðin en þau, sem lægst eru boðin fram. En íslenzku skipin hafa ekki verið skylduð til þess að flytja kol til landsins á fragttaxta, sem verðlagsyfirvöldin hafa ákveðið, sem þau ákveða eftir því, hvað rekstrarþörf þessara íslenzku skipa segir til um. Það veit fyrrv. viðskmrh. mætavel. Því er það svo, að íslenzku skipin, sem hafa tekið að sér þessa flutninga, fá miklu hærra flutningsgjald eitt árið en þau fá annað árið, eftir því, hvað fragttaxtarnir segja á hinum frjálsa markaði. Þetta þekkjum við a.m.k. mætavel, sem einkum höfum starfað í útgerðarmálum. Við vitum. að verðið á salti til okkar þýtur upp eitt árið og á vissum hlutum árs, og skýringin er einfaldlega sú, að fragtirnar eru orðnar miklu hærri, þó að við tökum saltið, heilan saltfarm, upp úr íslenzku skipi. Og það lýsir alveg furðulegri fáfræði fyrrv. viðskmrh., ef hann ætlar að reyna að halda því hér fram við þá, sem eru kunnugir þessum málum, að íslenzk skip flytji ekki heila farma af salti til landsins og taki ekki heila farma af saltfiski og flytji hann á erlendan markað. En taxtarnir. sem þau hafa tekið, eru eingöngu miðaðir við það, sem fragttaxtarnir eru á frjálsum markaði.

Það stendur því alveg óhaggað, sem ég hef sagt hér nokkrum sinnum, að með því að taka Hamrafellið sem olíuflutningaskip og ákveða, að það skuli falla undir hámarksfragtir, sem verðlagsyfirvöldin ákveða, er verið að taka það eitt allra skipa út úr og láta það undir hámarksfragtir eitt allra þeirra skipa, sem annars flytja heila farma. Og ég tel, að það komi ekki til mála að taka það eitt út úr, heldur beri þá einnig að taka önnur íslenzk skip, sem flytja heila vörufarma til landsins eða frá landinu. Ég lýsi því yfir sem minni skoðun, að ég tel, að það komi vel til mála að gera það. En það hefur ekki verið gert fram til þessa.

Ég skal svo láta þessu lokið. Ég ætla, að það sé komið alveg glögglega í ljós, vegna hvers þetta karp hefur hér farið fram á Alþ. í sambandi við olíumálin.