12.10.1956
Sameinað þing: 1. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 63 í B-deild Alþingistíðinda. (28)

Rannsókn kjörbréfa

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Mikil dæmalaus vandræði, að þessir ágætu þingmenn Sjálfstfl., sem hér hafa talað af slíkri andagift nú undanfarið, skuli ekki hafa lesið þetta allt saman yfir sjálfstæðismönnunum í landskjörstjórn í sumar. Mikið ósköp er undarlegt, að þeir skuli hafa geymt þetta allt saman þangað til núna. Ég held, að þeim hefði verið nær að taka sig dálítið fyrr til og lesa dálítið upp úr Þjóðviljanum. Ég held, að þeir hefðu haft gott af því, þessir hæstaréttarmenn Sjálfstfl. í landskjörstjórn, að heyra allt þetta, sem hér er verið að lesa upp, sem var sagt alveg rétt. Ég gæti nú trúað, — og meginið af því var komið og nógu mergjað áður, — að það hefði átt að vera hægt að þruma þetta yfir hausamótunum á fulltrúum Sjálfstfl. Í landskjörstjórn og reyna að berja réttlætið nokkurn veginn inn í hausana á þeim, áður en þeir áttu að þjóna því, Ég held nú þess vegna, að hv. sjálfstæðisþingmenn, sem núna virðast hafa lært svona vel af Þjóðviljanum, ættu héðan af að muna eftir því að reyna að lesa hann dálítið vel og betur og skilja dálítið betur, þegar hann talar rétt, og reyna að koma sínum eigin flokksmönnum í skilning um það og vera ekki svona linir í að framfylgja því, sem Þjóðviljinn er að segja þeim alveg réttilega. Ég held þess vegna, þó að það sé ákaflega ánægjulegt, að Sjálfstæðisflokksmenn skuli vera okkur svona sammála um allt í orði nú á eftir, að þeir hefðu átt að sýna þetta í verki, þegar mest reið á.

Það er hálfundarlegt með þennan blessaðan Sjálfstfl., hann talar þessi ósköp nú, en hvað gerir hann, þegar réttlætið kallar á hann, þegar hann hefur valdið, þegar hann hefur stað og stund til að breyta rétt, — hvað gerir hann þá? Þá breytir hann rangt. Nei, ég held, að allur þessi mikli gangur, sem hér hefur verið í hv. þm. Sjálfstfl., allur þessi rembingur, allur þessi vindur, sem í þeim er hér, hefði átt að reyna að blása dálítið á hæstaréttarmenn Sjálfstfl. í landskjörstjórn í sumar, svo að þeir hefðu fengið eitthvað pínulítið af réttlætinu inn í sig þá. Ég skil eiginlega ekki, hvað Sjálfstfl. er að burðast við að hafa tvo menn í landskjörstjórn, burðast við að bola fulltrúa, sem Alþýðubandalagið eða ella Sósfl. hefði haft í landskjörstjórn, út úr landskjörstjórninni og setja tvo menn inn í landskjörstjórn, sem þeir sjálfir auðsjáanlega ekki treysta til að vita upp né niður, vita hvorki hvað sé rétt né rangt. (Gripið fram í.) Ég held, að það sé bezt að vita, hvað er rétt, og breyta eftir því, og það er það, sem okkar menn mundu hafa gert, ef þeir hefðu átt fulltrúa í landskjörstjórn í sumar. En það var Sjálfstfl., sem sá um það, að hann átti tvo menn, og þessir tveir menn voru slíkir meistarar í að vita hvorki rétt né rangt, slíkir meistarar í að geta aldrei komið sér saman um neina lögskýringu og verandi þó báðir hæstaréttarlögmenn og jafnvel hæstaréttardómarar, að það er engu líkara en að Sjálfstfl., jafnvel kannske sjálfur hv. form. hans, hafi staðið þarna á bak við og ruglað þá svo í ríminu, að einmitt það rétta hafi komið út, sem passaði fyrir Sjálfstfl. M. ö. o.: Þegar tveir sjálfstæðismenn í landskjörstjórn geta ekki vitað, hvað sé rétt og hvað sé rangt, og geta aldrei komið sér saman, þegar annar þeirra álítur eitthvað rétt, þá álítur hinn það endilega rangt, og þegar annar álítur eitthvað rangt, þá álítur hinn það endilega rétt, svo að þeir séu aldrei nokkurn tíma á sama máli um réttlætið, þá passar það alveg fyrir þá.

Nei, ég skal segja ykkur, hvernig ég held að þetta hafi verið. Ég held, að herforingjaráð Sjálfstfl., þar með taldir hans fulltrúar í landskjörstjórn, hafi ætlað að vera ákaflega sniðugt í sumar. Það er upplýst hérna í umr., að þá langaði til þess að svindla, þeim datt í hug, hvort það væri nú ekki hægt að fara eitthvað svipað að eins og bandalag Alþfl. og Framsóknar, og athuguðu vafalaust þetta á sínum leynifundum gaumgæfilega, herforingjaráðið. Nei, þeir komust víst að þeirri niðurstöðu, að af því að Sjálfstfl. hefur það mikið atkvæðamagn í Rvík, þá gæti hann aldrei svindlað eins mikið og hinir höfðu möguleika á. Þess vegna komu þeir sér niður á, að það væri kannske hægt að hafa einhver tök heldur á hinum og nota það á eftir, og herforingjarnir lögðu þess vegna sínar áætlanir, og það virtist passa alveg ágætlega inn í þær ráðagerðir, hvernig hæstaréttardómarar og hæstaréttarlögmenn, fulltrúar Sjálfstfl. í landskjörstjórn, greiddu atkv. En þegar einu sinni herforingjar eru búnir að leggja sínar áætlanir um, hvernig heyja skuli stríðið, og stríðið síðan fer fram og þeir tapa stríðinu, af því að vitlaust var áætlað, þá er ekki til neins að koma á eftir og segja: Við vildum endilega fá að hafa ráðagerðirnar öðruvísi, þetta var alveg ómark, eins og það var gert. — Sannleikurinn er, að það er of seint að iðrast eftir dauðann. Þið hefðuð átt að athuga þetta allt saman, sem þið eruð að tala um núna, áður en þið létuð ykkar menn í landskjörstjórn kveða upp þá dóma, sem þeir hafa gert.

Hv. þm. G-K. sagði hér áðan, að þessir dómarar, þessir hæstaréttardómarar, þessir fulltrúar Sjálfstfl. í landskjörstjórn, hefðu bjargað tilgangi Hræðslubandalagsins. Ég er efins um, nema þeir hafi líka bjargað tilgangi Sjálfstfl. (ÓTh: Með að leiða ykkur í gildru?) Með að ætla að koma öðrum í gildru, sem Sjálfstfl. ætlaði að leiða þá út úr. Ég er ákaflega hræddur um, að þannig hafi í þessu öllu saman legið. Og þegar hv. þm. G-K. talar hérna svona fagurlega um, að ekki hafi Sjálfstfl. haft nokkur áhrif á, hvað þessir menn hafi gert eða að hvaða niðurstöðum þeir hafi komizt, þá skyldi nú Sjálfstfl, aldrei hafa haft nein áhrif á þessa menn í sambandi við neina dóma, sem þeir hafa kveðið upp? Og undarlegt er það nú, að svona hálærðir menn þurfa endilega að komast að ólíkum niðurstöðum um það, sem er alveg ótvírætt, ef það liggur ekki eitthvað á bak við það, sem þarna er, og hv. þm. G-K. virðist einmitt alveg sérstaklega hafa hnotið um það, sem Þjóðviljinn hafði sagt 29. maí um fláttskap íhaldsins, og las þetta upp hér til þess að reyna að snúa þessu nú upp á Alþýðubandalagið.

Jú, það var svo sem alveg augljóst mál, hver fláttskapur var þarna að verki, og mér fannst nú hv. form. Sjálfstfl., hv. þm. G-K., raunverulega alveg viðurkenna, þegar hann var að lesa þetta upp, að þetta væri ákaflega líklegt, að svona hefðu einhverjir aðilar hugsað í þessu sambandi og svona ótuktarverzlun hefði nú komið út úr þessu. En hv. þm. G-K, gleymdi bara að minnast á eitt í sambandi við þetta allt saman, hver framdi þennan fláttskap 28. maí. Hver var það, sem lagði grundvöll að þessari hugsanlegu verzlun? Var það Alþýðubandalagið?

Var það það, sem átti fulltrúa í landskjörstjórn, sem hefðu aldrei kannske komið sér sjálfum saman um að kveða upp einn og sama dóminn, eða var það Sjálfstfl., sem átti tvo fulltrúa, sem hann lét koma sér saman um að vera aldrei sammála? Hvar var grundvöllurinn lagður að þessum fláttskap, og hvað var það, sem átti að koma út úr þessu? Það var ekki Alþb., sem kom þar nærri. Það var Sjálfstfl., sem stjórnaði þessu, það var hann, sem lét kveða þarna upp dóminn, og það verður kannske sagt um Sjálfstfl. eins og sagt var um einn sniðugan höfðingja hér fyrrum daga: Enginn frýr þér vits, en — eins og það var í gömlu útgáfunni — grunaður ertu um græzku. — Ekki er það alveg óhugsandi, að slíkar áætlanir hafi verið gerðar þarna eða a. m. k. ef þær hafa ekki verið gerðar, þá eiga þær undarlega vel við það, sem Sjálfstfl. hefur komið bezt í þessu máli.

Nei, Sjálfstfl. hefur valið í þessu máli, hann hefur ákveðið, hvað sé rétt og rangt, hann gerði það í sumar, hann valdi 28. maí í sumar. Þá var ákvörðunin tekin. Við, sem vorum á móti þeirri ákvörðun og höfum ekki breytt um neina skoðun í því sambandi, gátum rekið þann áróður, sem við reyndum að reka í sambandi við kosningarnar út af þessari ákvörðun. En hitt var alveg orðið augljóst mál, að það var staðreynd fyrir kjósendur, um hvað þeir áttu að kjósa, og það hefur enginn staðfest það betur en einmitt þeir hv. þm. Sjálfstfl., sem hérna hafa talað núna, að það er nokkurn veginn augljóst, að kjósendur hefðu í sumar kosið allt öðruvísi, svo framarlega sem landskjörstjórn hefði ekki kveðið upp þennan dóm. Ég býst við, að það sé varla nokkur þm. hér, sem álítur, að útkoman úr kosningunum hefði ekki orðið allt önnur, ef því hefði verið lýst yfir, að Alþfl. og Framsfl. væru skoðaðir sem einn flokkur.

Nei, Sjálfstfl. féll á sjálfs sín bragði í þessum kosningum, og þess vegna er hann reiður yfir byltunni núna.

Hv. þm. G-K. segir, að kjósendur sjálfir eigi eftir að dæma. Vissulega. Til allrar hamingju eiga þeir eftir að dæma, vonandi með betri aðferðum en hv. þm. G-K. ætlaði sér að viðhafa í kosningunum í Kópavogi, þegar hann lýsti því yfir, að með því að undirskrifa bara, þá væru menn að kveða upp fullkomnasta dóminn. Kjósendur eru alltaf að dæma. Kjósendur eru líka að dæma þessa dagana, Kjósendur eru að láta íhaldið fá slíkar hrakfarir þessa dagana í verkalýðsfélögunum á Íslandi, að það hefur aldrei farið aðrar slíkar. Kjósendur eru að dæma, og ég er hræddur um, að íhaldið sé dálítið hrætt við þennan dóm. En það þarf ekki að óttast, að það verði ekki nægilegt lýðræði viðhaft í hverjum þeim kosningum, sem fram eiga að fara hér eftir, og ég skal kannske koma betur að því, að það verður ef til vill hægt að treysta það betur en Sjálfstfl. hefur stundum ætlað sér.

Hv. þm. G-K. hét alveg sérstaklega á Alþb. til hjálpar í þessum efnum. Ég held hann hefði átt að heita á sína menn í landskjörstjórn í sumar til hjálpar í þessum efnum, tala þessi hjartnæmu orð, sem hann sagði til okkar, um að bjarga nú lýðræðinu. Ég held, að hann hefði átt að þruma þetta yfir hausamótunum á þeim í sumar, þegar þeir stofnuðu því í hættu, að þjóðarminnihluti tæki meiri hluta hér á þingi og hvorki Alþb. né Sjálfstfl. hefði getað gert nokkurn skapaðan hlut á eftir. Þá var lýðræðinu stofnað í voða. Lýðræðið er ekki í voða núna. Nei, núna er þjóðarmeirihluti á bak við þingmeirihluta og bak við stjórn. En lýðræðinu var stofnað í hættu í sumar, þegar Sjálfstfl. lét sína menn í landskjörstjórn gefa bandalagi Alþfl. og Framsóknar möguleika á því að fá hreinan þingmeirihluta með þjóðarminnihluta á bak við sig. Þeirri hættu er afstýrt. Ég held þess vegna, að þegar hv. þm. G-K. kemur með miklar tilvitnanir um lagakróka og orðhengilshátt, þá hefði hann átt að lesa það yfir sínum hæstaréttarmönnum í lands kjörstjórn. Lagakrókar og orðhengilsháttur. (ÓTh: Má ég segja svolítið? Ég kunni það ekki þá, því að það var ekki komið í Þjóðviljanum þá.) Svona er það. Ef hann veit ekki það lítið, sem hann veit vel, úr Þjóðviljanum, þá veit hann það ekki. Þess vegna segi ég það, að það er ákaflega hart, að lagakrókarnir skuli vera þannig útbúnir, þegar sjálfstæðismennirnir eru að hengja sig í þá, að þeir skuli aldrei hengja sig á sama krókinn. Ég held, að þeir ættu að reyna að koma sér nokkurn veginn saman um að skilja héðan af, hvernig lagakrókarnir ættu að vera, svo að þeir gætu hér eftir kveðið upp dóma nokkurn veginn í samræmi hver við annan.

Hv. þm. G-K. ítrekaði það, að Sjálfstfl. hefði alltaf verið á þeirri skoðun, sem hann hafði þá vitnað í Þjóðviljann um. Hann var bara ekki á því í sumar, 28. maí. Hann lét sína fulltrúa í landskjörstjórn kveða upp úrskurði, sem voru alveg þveröfugir þar við.

Hv. 2. þm. Eyf. talaði um, að það hefðu verið gerðar tilraunir til þess að ná þingmeirihluta með þjóðarminnihluta og að slíkar tilraunir væru ákaflega ljótar, þær hefðu m. a. verið gerðar í sumar. Og hverjir gerðu þessar tilraunir mögulegar? Það voru einmitt fulltrúar Sjálfstfl. í landskjörstjórn. Það voru þeir, sem gerðu þetta mögulegt með sínum úrskurði í sumar, Það þýðir ekkert að vera með allan þann kattarþvott, sem hv. þm. Sjálfstfl. eru með í sambandi við þetta mál. Það eru þeir, sem eru sekir um, hvernig komið var í þessu máli og að ekki var gripið inn í, þegar staður og stund var til þess.

Það hefur verið rætt um ýmislegt í sambandi við þetta og m. a. um það, hvort það væri alveg ótvírætt, hver lagabrot eða svindl eða annað slíkt hefði átt sér þarna stað. Og hv. þm. G-K. las margt upp um svindl og brask og annað þess háttar, Ja, hv. þm. G-K. veit nú ósköp vel, að því miður er hægt að svindla og braska í þjóðfélaginu og í kosningum, án þess að varði við lög. Því miður. Meira að segja hæstaréttarmenn Sjálfstfl. eru ekki alveg vissir um, hvaða lagabókstaf hvaða svindl eða hvaða brask kann að brjóta, En af því að þessi hv. þm. G-K. talaði nú svona ákaflega mikið og vitnaði svona mikið viðvíkjandi svindli og braski og hvað þetta væri ákaflega ljótt og þá alveg sérstaklega í sambandi við kosningar, þá liggur mér við að minna hann á, hvort þessi heilagi flokkur, Sjálfstfl., þessi vammlausi flokkur í þessum málum, þegar undanskildir eru landskjörstjórnarmennirnir hans, hefði aldrei haft neinar tilhneigingar til þess að beita svindli og braski í þessum málum. Hér hafa hv. þm. Sjálfstfl. talað eins og heilagir menn.

Ég held, að hv. 2. þm. Eyf. hafi hér áðan eitthvað verið að minnast á, að það hafi jafnvel verið athugað, hvort Sjálfstfl. hefði ekki getað grætt tvö þingsæti á því að fara í eitthvert svindl og brask. En hann sagði, að það væri ekki sæmandi að reyna að svindla sér tvö þingsæti með einhverju svoleiðis svindli og braski.

Hv. 5. þm. Reykv. (JóhH) sagði, að það væri alveg voðalegur hlutur, sem Hræðslubandalagið, eins og hann orðaði það, hefði gert í sumar, það hefði verið með áætlun um að ræna meiri hluta þings út á minni hluta kjósenda, þessi áætlun hefði að vísu misheppnazt. Og hv. 2. þm. Reykv, (BÓ) sagði að vísu, að Sjálfstfl. hefði vel athugað það, að hann gæti svo sem svindlað líka, hann væri bara svo heiðarlegur, hann væri bara svo réttlátur, að honum dytti ekki í hug að gera þess háttar, það væri hinn hreini, hinn vammlausi flokkur, sem aldrei kæmi nærri svindli, vafalaust hvorki í verzlun né kosningum. Hann jafnvel las upp tilvitnanir um óguðlega menn, þessi hv. 2. þm. Reykv., sem hefðu ætlað að stela þingmeirihluta með minni hluta þjóðar að baki, og ítrekaði tilvitnanir, sem hann kom með um, að þetta væri eitt mesta brask og svindl, sem nokkurn tíma hefði tíðkazt. Það er sem sé alveg augljóst mál, að Sjálfstfl. er svo heilagur flokkur í þessum efnum, að honum dettur aldrei í hug að ætla að fara að svindla sér þingmeirihluta með þjóðarminnihluta að baki sér.

Ég held þess vegna, að eftir að Sjálfstfl. hefur gengið í þessa endurnýjun lífdaganna, gerzt svona afskaplega heiðarlegur, vammlaus og hreinn flokkur, sem aldrei detti neitt svindl í hug og aldrei mundi detta í hug að reyna að stela þingmeirihluta með minni hluta þjóðar að baki sér, þá sé rétt að vitna í málgagn flokksins, Morgunblaðið, og það, sem það segir um tilgang flokksins, um draumsjón flokksins, um hans miklu hugsjón, um það, sem hann sé að berjast fyrir í kosningum, og það mikla mark, sem hann setji sér, og ég ætla að gefa Morgunblaðinu orðið, þar sem það segir 23. júní 1953, rétt fyrir kosningarnar, sem þá fóru fram. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Aldrei fyrr hefur Sjálfstæðisflokkurinn átt eins glæsilega sigurmöguleika og í væntanlegum þingkosningum. Ekki skortir sjálfstæðismenn nema 344 atkv. frá andstæðingum sínum til þess að vinna 10 ný kjördæmi og fá með því hreinan meiri hluta á þingi þjóðarinnar. 344 atkv. standa í vegi fyrir heilbrigðu, ábyrgu meirihlutastjórnarfari á Íslandi í stað pólitískra hrossakaupa samsteypustjórnanna, þar sem illgerlegt er fyrir kjósendur að greina, hvaða flokkur á lof og hver last skilið fyrir stjórnarframkvæmd sína. Atkvæðin, sem Sjálfstæðisflokkinn skortir, eru þessi: Hafnarfjörður 52, Ísafjörður 5, Siglufjörður 84, Mýrasýsla 4, Dalasýsla 6, V.-Ísafjarðarsýsla 82, V.-Húnavatnssýsla 50, N.-Múlasýsla 26, A.-Skaftafellssýsla 27 og V.- Skaftafellssýsla 3.“

Þetta voru þau 344 atkv., sem Sjálfstfl. auglýsti eftir 1953 í kosningunum að hann vantaði til þess að fá hreinan þingmeirihluta á Íslandi. Hann hefði þá haft eitthvað milli 37 og 40% kjósenda að baki sér, og út á það ætlaði hann sem sé að fá þennan þingmeirihluta. Allt það, sem Sjálfstfl. hefur verið að fordæma í þessum umræðum, sem hann hefur núna haft í frammi, allt saman þetta hefur hann sjálfan dreymt um, hefur hann sjálfur opinberlega lýst yfir, að hann ætlaði sér að reyna að ná.

Hér tala þm. Sjálfstfl. um réttlæti, um lýðræði, um þingræði og standa sjálfir berir að því að hafa ætlað sér að afnema þetta allt saman með misnotkun á núverandi kosningaskipulagi í landinu. Ég held, að þeir ættu að tala ofur lítið varlegar í þessum efnum, hv. þm. Sjálfstfl.

Hv. 2. þm. Eyf. (MJ) segir, að það hafi alltaf verið draumsjónin, að Alþ. sé skipað í sem nánustu samræmi við þjóðarviljann, Það hefur bara ekki verið draumsjón Sjálfstfl. Það er fyrst núna allt í einu í dag, sem hann virðist vera að uppgötva það. Draumsjónin í kosningunum 1953 — og það má mikið vera, ef það hefur ekki örlað á sömu draumsjóninni núna — var að vinna hreinan meiri hluta á þingi með þjóðarminnihluta að baki sér, og það átti þá eftir skoðun Sjálfstfl. að vera hið heilbrigða og ábyrga meirihlutastjórnarfar í landinu.

Hv. 2. þm. Eyf. (MJ) sagði hér áðan um núverandi Alþ.: Alþingi nú er skrípamynd af þjóðarviljanum. — Núverandi Alþ. og sú stjórn, sem það hefur valið, hefur meiri hluta þjóðar að baki sér. Núverandi Alþ. og sú stjórn, sem nú situr að völdum, er rétt mynd af þjóðarviljanum, alveg sérstaklega hvað það snertir, að ríkisstj., sem hefur þingmeirihluta að baki sér, hefur líka þjóðarmeirihluta að baki sér. En það Alþ., sem hefði gefið Sjálfstfl. meiri hluta með 344 atkv. til viðbótar við það, sem hann hafði við kosningarnar 1949, ef hann hefði bætt þeim við sig í kosningunum 1953, hefði að áliti Sjálfstfl. ekki verið skrípamynd af þjóðarviljanum. Ef Sjálfstfl. hefði haft meiri hluta á Alþ. með 38 eða 39% af þjóðinni á bak við sig, var það ekki skrípamynd af þjóðarviljanum. Nei, það var heilbrigt, ábyrgt meirihlutastjórnarfar. Er nú ekki betra fyrir þessa hv. þm. að tala eitthvað ofur lítið minna um réttlætið, lýðræðið o. s. frv.? Ég er hræddur um, að það sé nokkuð mikil hræsni, sem hérna kemur fram. Það er talað um, m. a. af hv. 2. þm. Eyf., að nú þurfi að kippa í taumana. Það þurfti ekki að kippa í taumana 1953, ef Sjálfstfl. hefði fengið hreinan þingmeirihluta með því að bæta við sig 344 atkv., en það þarf að kippa í taumana, af því að hann var með skollaleik í landskjörstjórn í sumar og lék af sér. Það er talað hérna um, að þeir séu að berjast fyrir því, sjálfstæðismennirnir, að halda uppi sönnu lýðræði og réttlæti. Jú, hið sanna lýðræði og réttlæti: 344 atkv. til viðbótar því, sem hann hafði áður, til þess að fá meiri hluta einn á Alþ. með 38 eða 39% þjóðarinnar að baki sér, það var hið sanna lýðræði og réttlæti.

Hv. 2. þm. Eyf. sagði meira að segja, að stjórnskipulegt öryggi landsins væri í hættu.

Það var svo sem ekki neitt smáræði, sem var í hættu, Það var í hættu núna, en það var ekki í hættu 1953, ef Sjálfstfl. hefði fengið hreinan þingmeirihluta með 38 til 39% kjósenda að baki sér. Þá var ekki stjórnskipulegt öryggi landsins í hættu.

Stjórnskipulegt öryggi landsins er ekki í hættu nú. Sú stjórn, sem situr að völdum, hefur ekki aðeins þingmeirihluta, heldur líka þjóðarmeirihluta að baki sér. Það hefði stjórn Sjálfstfl. eftir kosningarnar 1953 ekki haft, ef Sjálfstfl. hefði orðið að sinni draumsjón um lýðræði og mannréttindi. Ég held, að þeir ættu að draga ofur lítið úr hræsninni, þessir hv. þm. Sjálfstfl.

Hv. 5. þm. Reykv. (JóhH) sagði hér áðan, að það væru alvarleg svikráð að reyna að svindla til sín meiri hluta á þingi með minni hluta hjá þjóð. Ég vil spyrja hv. 5. þm. Reykv.: Er ekki Sjálfstfl. þá alveg sérstaklega sekur um þessi alvarlegu svikráð? Það eru ekki svona ljótar hugleiðingar hjá bandalagi Framsfl. og Alþfl. í sambandi við kosningarnar í sumar einar saman. Nei, Sjálfstfl, hefur gengið með þetta, hefur ekki einu sinni getað þagað yfir því. Það er enginn efi á því, að til þess að koma í veg fyrir, að hægt sé að svindla til sín meiri hluta á þingi með minni hluta hjá þjóð, er ekki nóg að breyta meira að segja kosningalögunum og meira að segja ekki nóg, að landskjörstjórnarmenn skilji þau rétt, það þarf að breyta stjskr. sjálfri, ef það á að tryggja, að það sé alltaf meiri hluti þjóðar á bak við meiri hluta þings.

Hv. 5. þm. Reykv. sagði hér áðan, að það hefði verið gerð tilraun til þess að ræna sjálfsákvörðunarrétti þjóðarinnar með því að reyna að ná þingmeirihluta með þjóðarminnihluta að baki sér. Hann dæmir Sjálfstfl. sjálfan í þessu sambandi.

Hv. 2. þm. Reykv, (BÓ), sem hér var að ljúka sinni ræðu áðan, sagði, að Sjálfstfl. væri svo sem ekki að tala hérna vegna þess, að hann hefði von um, að meiri hluti Alþingis hallaðist á sveif með réttlætinu. Nei, það var nú svo sem ekki það. Hann sagði, að hann byggist ekki við, að meiri hluti þingsins þjáðist af réttlætiskennd. En Sjálfstfl. þjáðist af réttlætiskennd 1953, þegar hann fór fram á það að fá meiri hluta hér á Alþ, með minni hluta þjóðarinnar að baki sér. Ja, ég sé það, að þeir eru flestir farnir út, þessir hv. þm. Sjálfstfl., sem voru að tala hérna áðan, og það er ekki nema von.

Hv. 2. þm. Reykv. sagði áðan, að það væri verið að kjöldraga heiðarlega framkvæmd kosningalaga. Hverjir kjöldrógu hana? Voru það ekki fulltrúar Sjálfstfl. í landskjörstjórn? Og hverja langaði til þess að kjöldraga bæði kosningal. og stjskr.? Var það ekki Sjálfstfl. 1953? Ég held því, alveg í bróðerni sagt, að þm. Sjálfstfl. eigi ekki að venja sig á svona allt í einu upp úr þurru að fara að tala um réttlæti og lýðræði og allt saman þetta, sem þeir hafa haft ósköp lítið við að tala um á undanförnum árum. Ég held, að þeir verði ofur lítið fyrst að stinga hendinni í eigin barm og skoða sína eigin sögu.

Hv. þm, G-K. náði hámarkinu, þegar hann talaði um, að Alþb. hefði sett réttlætið, lýðræðið og þingræðið fyrir auð og völd. Það er nú svo sem alveg auðséð, að þessi hv. þm. virtist nokkurn veginn hafa hugmynd um, hvað það hefur þýtt fyrir hann að vera í völdum undanfarið. Það hefur verið fórnað nokkuð miklu af þessu öllu saman, þegar hann hefur komið við völdin, og þó kannske allra mest, þegar mest reyndi á hann og hans flokksþingmenn um, hvort þeir vildu standa á verði gagnvart því að taka gild kjörbréf manna, sem engin kjörbréf höfðu. Þessi hv. þm. G-K., sem talaði svona, tók svona mikið upp í sig núna og talaði um kokvídd Alþb. í sambandi við að gleypa 4 þm., hafði kokvídd til þess að gleypa yfir 40 þm. 1941. Hann lét allan Sjálfstfl. samþ. að framlengja umboð allra þm., eftir að þau voru öll runnin út. Þegar engir þm. voru til og engir höfðu rétt til þess að sítja á Alþ. lengur, þá lét hann bara þessa þm. útnefna sig sjálfa. Og svo kemur þessi maður og fer að tala um, að það sé verið að selja réttlætið, lýðræðið og þingræðið fyrir auð og völd. Hann var sjálfur ráðh. þá.

Nei, ég held, að ég verði að fullvissa Sjálfstfl. um, að það verður reynt að bjarga bæði lýðræði og þingræði á Íslandi þrátt fyrir allar aðgerðir bæði landskjörstjórnarmanna Sjálfstfl. í landskjörstjórn, þrátt fyrir allar tilraunir miðstjórnar Sjálfstfl. til þess að hagnýta sér núverandi kjördæmaskipun til þess að ná þingmeirihluta með þjóðarminnihluta að baki sér. Það verður reynt, og um þetta á þjóðin eftir að dæma.

Það, sem liggur fyrir að gera, er að undirbúa að breyta þannig kosningal. og stjskr., að Íslendingar eigi ekki oftar á hættu, frá hverjum sem vera skal, að það sé hægt að skapa meiri hluta hér á Alþ. með minni hluta þjóðarinnar að baki sér. Slíkt verður ekki gert með því, sem oft hefur komið upp hjá ýmsum sjálfstæðismönnum, að koma t. d. á eintómum einmenningskjördæmum eða slíku. Slíkt verður aðeins gert með því að breyta stjskr. áfram í þá átt, sem alltaf hefur vakað fyrir verkalýðshreyfingunni, að tryggja jafnari rétt manna til áhrifa á skipun Alþingis. Það mun verða gert. Kosningalögunum mun verða breytt, og stjskr. mun verða breytt. Það er miklu meira í húfi í sambandi við öll þessi mál en tvö þingsæti eða svo. Það, sem er í húfi, er, að héðan af verði slík kosningal. og stjskr. á Íslandi, að það sé alltaf tryggt, að þingmeirihluti hafi þjóðarmeirihluta að baki sér og að slíkar tilraunir sem gerðar hafa verið á undanförnum árum, bæði í sambandi við síðustu kosningar og fyrri kosningar, um að reyna að skapa sér þingmeirihluta með þjóðarminnihluta geti ekki tekizt. Til þessa þarf að taka bæði sjálf kosningal. og sjálfa stjskr. til endurskoðunar, og það höfum við tryggingu fyrir að verði gert. Og við munum reyna að vinna að því, Alþb.-menn, að í því sambandi verði skapað slíkt réttlæti í þessum málum í framtíðinni, að bæði það, sem bandalag Framsfl. og Alþfl., og það, sem Sjálfstfl. ætlaði sér 1953, geti ekki endurtekið sig, að héðan af geti þjóðin verið örugg um það, að þegar hún gengur til kosninga, þá komi alltaf þannig út úr þeim kosningum, að þingmeirihluti sé fulltrúi fyrir þjóðarmeirihlutann.