23.01.1957
Sameinað þing: 20. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 364 í D-deild Alþingistíðinda. (2800)

59. mál, innflutningur á olíum og bensíni

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Það var mjög eftirtektarvert, að hv. þm. V-Húnv., sem talaði hér síðast, hneykslaðist á því, að menn hefðu eitthvað fyrir satt. Hann vill auðsjáanlega frekar, að menn fari með rangt mál, heldur en að þeir haldi sig að sannleikanum. Og er það ekkert nýtt í hans málflutningi.

Ég vil hins vegar taka undir það, sem hann lýsti yfir ánægju um komu þess nýja olíuflutningaskips. Ég tel það heillaríkan atburð fyrir Ísland, að það skip er hingað komið. og ég hef ætíð verið þeirrar skoðunar, að það ætti að leyfa þeim Íslendingum, sem hafa til þess getu og aðstöðu, að kaupa það og önnur skip, flugvélar og annað slíkt til landsins. Það hefur hins vegar af ýmsum ástæðum strandað stundum í ríkisstjórninni, stundum á þessum aðila og stundum á öðrum, og sannast bezt að segja hefur hvorugur þeirra aðila, sem um langt skeið fóru með völd hér, átt einn alla sök, heldur mörg atriði komið til greina, og er það miklu lengri saga en sé hægt að rekja hér. Eins er það með öllu ástæðulaust að áfellast aðra aðila fyrir það, að þeir skyldu verða seinni í svifum um kaup á olíuskipi heldur en Sambandið og Olíufélagið: Það er vitað mál, að þarna er um stærstu og öflugustu félagasamsteypu eina að ræða í landinu, og þess vegna eðlilegt, að hún yrði fljótari í svifum heldur en þeir aðilar, sem margir með ólíka hagsmuni þurftu að koma sér saman, til þess að úr slíkum kaupum gæti orðið. Og vil ég þó taka fram, að ég hef verið þess mjög hvetjandi, bæði að Sambandið og Olíufélagið fengju að kaupa það skip, sem þau hafa nú fengið að kaupa, og aðrir aðilar byndust samtökum um að kaupa skip til viðbótar.

Ég tek fram, að ég tel, að Sambandið og Olíufélagið eigi út af fyrir sig lof skilið fyrir framtakssemi sína í þessu máli, þó að þau eigi ekki lof skilið fyrir það að vilja vera undanþegin íslenzkum lögum. Og það er sannast sagt ákaflega einkennilegt, þegar hv. þm. V-Húnv. kemur hér og segir: Ja, hvað hefðu einhverjir útlendingar sagt, sem hafa lánað fé, ef þeir hefðu átt von á því, að það yrðu settar reglur á Íslandi um farmgjöld þessara skipa? — Vitanlega reiknuðu þessir menn með þeim farmgjöldum, sem voru, þegar skipakaupin voru gerð, og gátu ekki reiknað með öðrum hærri farmgjöldum, og það er heldur engin nýjung, að reglur séu settar um farmgjöld skipa, sem lán er fengið til í útlöndum. Þannig er t.d. með öll skip Eimskipafélags Íslands. Það eru fengin stór lán í útlöndum til þeirra kaupa, sérstaklega hin síðari ár, eftir að laust fé er gengið til þurrðar. Þar fyrir hefur engum dottið í hug, að útlendingar gætu sett íslenzkri ríkisstj. þá kosti, að ekki mætti setja farmgjöld fyrir flutninga með skipum Eimskipafélags Íslands. Hitt er svo dálítið lærdómsríkt, að Samband íslenzkra samvinnufélaga hefur yfirleitt hagað flutningum sínum til landsins þannig, að það gæti komizt hjá farmgjaldaeftirliti, samkv. því, sem nú er upplýst, en Eimskipafélagið aftur á móti á hinn veginn, að það er háð farmgjaldaeftirliti.

Þetta vildi ég aðeins drepa á, úr því að ég stóð hér upp. Hins vegar er það, sem kom mér til að taka til máls, að hæstv. viðskmrh. hefur alveg látið vera að upplýsa þrjú atriði, sem hann hefur vikið að í sínum málflutningi, sumpart nú og sumpart áður fyrr á Alþingi og sumpart í Þjóðviljanum ekki alls fyrir löngu. Hann hefur gert mikið úr því, að ríkisstj. hafi aflað olíu af birgðum þeim. sem geymdar eru í Hvalfirði, og var svo að skilja á honum hér fyrir jólin, að ef sú olía hefði ekki fengizt, þá hefði orðið alger olíuskortur og jafnvel stöðvun á rekstri atvinuvega hér í vetur. Nú vil ég spyrja hæstv. ráðherra að því: Hver er eigandi þessarar olíu í Hvalfirði, og með hvaða kjörum er sú olía látin í té? Enn fremur vil ég spyrja hæstv. ráðh. að því: Er það rétt, sem hann sagði í grein sinni í Þjóðviljanum, að það hefði verið lagður sérstakur skattur á Hamrafellið, 16 milljónir, í jólagjöfinni, sem Íslendingum var gefin af stjórnarflokkunum rétt fyrir hátíðarnar í vetur? Ég hafði skilið það svo, að þarna væri um almenn löggjafarákvæði að ræða, sem tækju ekki sérstaklega til Hamrafellsins, og ég verð hins vegar að viðurkenna, að þessi löggjöf öll er mjög torskilin, en víst væri það fullkomin rangsleitni, ef sérstakur skattur hefði verið lagður á þetta eina fyrirtæki, sem næmi 16 millj. kr. Það er því mjög þarflegt, að hæstv. ráðh. upplýsi það betur, af hverju hann valdi þetta orðalag í Þjóðviljagrein sinni.

Loksins vil ég taka undir það, sem hæstv. ráðh. lauk orðum sínum með, að það er alveg ljóst, af hverju umræður hafa orðið hér á Alþingi svo miklar um þetta mál. Það er vegna þess, að það er upplýst, að hæstv. ríkisstj. hefur látið einu fyrirtæki í landinu í té gróða, sem nemur a, m. k. 15 millj. fyrir fjögurra mánaða siglingu, þó að viðurkennt sé, að félagið hafi ekki þörf á því, og landslög gæfu ríkisstj. heimild til þess að hindra slíka óeðlilega gróðagjöf. Og þetta er ríkisstj., sem segist vera að berjast á móti okri og hækkuðu verðlagi.