23.01.1957
Sameinað þing: 20. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 368 í D-deild Alþingistíðinda. (2802)

59. mál, innflutningur á olíum og bensíni

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Það er von, að menn brosi af því að hér er vissulega skemmtilegt blað, sem ég held á, þar sem marga skemmtilega grein er hægt að lesa, — það er Þjóðviljinn.

Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir þau svör, sem hann gaf mér, og játa, að ég misfór, þegar ég sagði um þennan skatt, að hann væri 16 millj. kr., það var mín missögn. Það var vitanlega 9 millj. kr., sem er sú rétta upphæð. Hins vegar vildi ég taka fram, að það, sem ég vitnaði til af hans orðum, var efnislega rétt fyrir utan þessa tölulegu meinloku í mínum orðum. Með leyfi hæstv. forseta, þá stendur hér í laugardagsblaði Þjóðviljans, í grein um olíumálin eftir Lúðvík Jósefsson viðskmrh.: „Hamrafell. — 3. Látið greiða 9 millj. kr. í sérstakan skatt af kaupverði skipsins“.

Nú segir hann, að hann hafi hvergi sagt. að það væri sérstakur skattur á félagið eitt. En ég segi: Ef sagt er: Maður er látinn borga sérstakan skatt, — hver skilur það þá á annan veg en þann, að það sé sérskattur á þann mann einan? Hvernig er hægt að túlka þetta með öðru móti? Nú segir hann: Þetta er sérstakur skattur á alla. — Ja, því kallar hann það þá sérstakan skatt?

Hér er sem sagt aðeins um eitt tiltölulega lítið atriði að ræða úr hinum mikla blekkingavef hæstv. ráðh., að hann er að láta í það skína, að þarna hafi verið endurheimtar 9 milljónir af Hamrafellsverðinu, af þeim 15 millj., sem félaginu voru gefnar að ástæðulausu, en hann verður að viðurkenna í umr. nú, að þarna sé alls ekki um sérstakan skatt að ræða, heldur skatt, sem lendi á öllum þeim, sem eins stendur á um og Hamrafellið, þ.e.a.s., það er almennur skattur á alla þá, sem sömu atvik standa til um og um Hamrafellið að þessu leyti. (Gripið fram í.) Ja, hvað eru þeir margir? Það eru sjálfsagt allir þeir, sem skulda út á skip, t.d. Sambandið væntanlega út á önnur skip sín að einhverju leyti, Eimskipafélag Íslands eflaust út á sum sín skip, önnur félög út á sum skip sín. mjög sennilega flugfélögin. Annars er mjög eðlilegt, að hv. 2. þm. Rang. spyrji, vegna þess að Tíminn, málgagn forsrh., er tvisvar búinn að prenta upp það eftir forstjóra skipadeildar Sambandsins, að óvíst sé, hvernig eigi að skilja jólagjöfina að þessu leyti.

Tíminn sýnist þar með vera þeirrar skoðunar, að það sé með öllu óvíst, að þetta sé réttur skilningur hjá hæstv. olíumálaráðherra og nú væntanlega mjólkurþingmanni þarna að austan, að hér sé um raunverulega skattlagningu að ræða. Og það er aðeins eitt lítið dæmi um það, hversu hér hefur verið óhöndulega á haldið af stjórnarvöldunum í sinni löggjöf fyrir jól. Ég játa, að það er mjög óvirðulegt að kalla þingmenn ekki réttu nafni, en ég fór eftir göfugasta fordæmi, þar sem hæstv. viðskmrh. hafði talað hér um Morgunblaðsmenn áður fyrri, og var ekki um að villast, við hverja hann átti, og þar sem hv. 2. þm. Rang. er þekktur fyrir það að segja við kjósendur: Kjósið með mjólkurbrúsunum ykkar, — þá kom mér það í huga, að það væri rétt að taka upp slíkt líkingarheiti á öllum þingmönnum, úr því að hæstv. forseti fann ekki að því við hæstv. viðskmrh. hér áðan í hans ræðu. (Forseti: Ég held nú, að það fari bezt á því, að menn séu kallaðir réttu þinglegu nafni, en auknefnagáfa, eins og hv. 1. þm. Reykv. var hér með og kannske aðrir, sé ekki þinginu til neinnar sæmdar og fari bezt á því að láta slíkt vera.)