23.01.1957
Sameinað þing: 20. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 369 í D-deild Alþingistíðinda. (2803)

59. mál, innflutningur á olíum og bensíni

Sveinbjörn Högnason:

Herra forseti. Ég hef hér ekki margt að segja um þetta, sem hv. 1. þm. Reykv. var að tala um, og ég held, að það sé ekki þörf að ræða við slíka menn, sem hafa eiginlega helzt uppnefni og annað slíkt fyrir sínar röksemdir hér á hv. Alþingi. Ég held að það væri gott, að menn vendu sig af slíkum hlutum, og það sé hvorki þeim til sóma né öðrum.

En mér finnst það merkilegar upplýsingar, sem hafa komið fram, ef það skip, sem keypt er á óhagstæðasta tíma með minnstum stuðningi frá hinu opinbera, er eitt sett undir hámarksákvæði. Hvers vegna eru ekki önnur skip í landinu þá sett undir það sama? Þetta finnst mér svo merkilegar upplýsingar, að ég vildi gjarnan aðeins benda á það, að ég held, að það væri full ástæða fyrir hv. Alþingi að krefjast þess, að önnur skip í landinu séu látin sæta eitthvað svipuðum ákvæðum og hefur verið gert um þetta nýja skip, sem hefur verið keypt á langóhagstæðasta tíma af öllum skipum til landsins og þegar dýrast er. Hvers vegna er ekki reynt að semja við aðra aðila um að fá slíkan afslátt á farmgjöldum eins og hefur verið gert um þetta skip? Hefur það ekki verið reynt, t.d. við Eimskipafélag Íslands, þegar það flytur heila farma? Og ef það hefur ekki verið gert, þá vildi ég fyrir mitt leyti óska eftir því, að hæstv. viðskmrh. héldi áfram á sömu braut við önnur félög, sem græða á því, að farmgjöld hafa hækkað, að það sé fleira en aðeins eitt skip og það, sem síðast hefur verið keypt og með minnstum stuðningi frá hinu opinbera, sem sé látið sæta slíkum ákvæðum og slíkri aðbúð hjá hæstv. ríkisstj. eins og hér um ræðir.

Mér finnst það alveg furðulegir hlutir að heyra þessar upplýsingar, og allra merkilegast þykir mér að heyra það frá þeim, sem telja sig nú mest fylgjandi frjálsri samkeppni hér í landinu, að þeir skuli sérstaklega deila á þetta nýja skip. sem kemur á heppilegasta tíma fyrir okkur, sem hugsazt gat, bjargar okkur frá því að lenda í olíuskömmtun og benzínskömmtun eins og allar þjóðirnar í kringum okkur, hefur beinlínis orðið til þess, og lækkað verðið fyrir okkur um 60–80 sh. á tonn, — að það skuli nú vera undir látlausum árásum, um leið og það kemur, frá fulltrúum þeirra, sem telja sig fylgja frjálsri samkeppni í landinu. Hvað er það, sem er að ske hérna? Hvað er það, sem er að ske?

Mér fyrir mitt leyti sem einum af samvinnumönnum í landinu finnst það í raun og veru mótmælavert, að þeir, sem hafa staðið fyrir að semja við hæstv. ríkisstj., hafa þetta svona miklu lægra og gefa þannig hinum olíufélögunum, sem það líka flytur fyrir, hreint og beint eftir af því, sem þau eiga að greiða á frjálsum markaði. Mér finnst það mjög athyglisvert og vafasöm leið, hvort það á að fara hana. Og mér finnst samvinnumenn í landinu eigi fulla heimtingu á því yfirleitt, að greitt sé fyrir þeirra skip eins og fyrir önnur skip, sem sigla með þessa farma til landsins.

Það, að skipið þurfi ekki meira með. Hver segir, að það þurfi ekki meira með? Hver veit, hvernig flutningarnir verða aftur á næsta ári og hversu hagstætt verður að reka skipin þá, eins og hv. þm. V-Húnv. líka hefur tekið fram? Við getum aldrei sagt um það, hvað þarf með, til þess að reksturinn geti borið sig. En það hefur hingað til verið talinn sanngjarn hlutur og ég hygg alltaf gagnvart Eimskipafélagi Íslands, og svo minnir mig að hafi verið á styrjaldarárunum, að það tæki þau farmgjöld, sem giltu á frjálsum markaði. Hver segir, að Eimskipafélagið hafi þurft þess með, t.d. á styrjaldarárunum, að taka allar þær fragtir, sem það gerði? Hvað safnaði það mörgum tugum milljóna fram yfir það, sem það þurfti með? Þessir menn steinþögðu þá, þegar dýrtíðin var að fara upp fyrir einmitt mjög dýrar fragtir og annað slíkt á styrjaldarárunum.

Nú þegar kemur skip, sem samvinnumenn eiga, og semur strax um 60–80 sh. lægra á hvert tonn að flytja til landsins heldur en það getur fengið hvar sem er annars staðar í flutningum, þá er ráðizt á það. Væri ekki rétt að segja við slíka menn: Beinið atgeiri yðar annan veg? Ég vil nú ekki segja „konungur“, því að ég vil ekki fara að uppnefna menn hér, eins og öðrum er títt. En mér finnst þó ætti að beina atgeirnum vissulega eitthvað á annan veg en þennan. Og ég vil segja hv. 1. þm. Reykv. það, þegar hann hneykslaðist á því, að hv. þm. V-Húnv. fannst það heldur ófullnægjandi sannanir, að bæði hann og hv. 1. þm. Rang. telja það nógar röksemdir að segja: Ég hef þetta fyrir satt, — að hann hefði gott af því og þeir, sem telja það nógar röksemdir, að vita það, að yfirleitt er þjóðin alveg sannfærð um það, þegar þessir menn hafa ekki aðrar röksemdir en þær að segja: þetta segirðu satt eða þetta hef ég fyrir satt, að þeir eru að segja ósatt.