23.01.1957
Sameinað þing: 20. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 370 í D-deild Alþingistíðinda. (2804)

59. mál, innflutningur á olíum og bensíni

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Mér finnst nokkurt tilefni hafa gefizt til þess að leggja hér orð í belg út af ræðu hv. 2. þm. Rang. Hann furðar sig mjög á því, vegna hvers aðrir aðilar, sem flytji vörur til landsins, séu ekki látnir sæta svipaðri aðstöðu og Hamrafell, sem hér hefur veríð um rætt, þ.e.a.s., að það sé samið við þá um afslátt frá heimsmarkaðsverði eða að verðlagsákvarðanir séu settar á vöruna, og sérstaklega vildi hann sem einn af samvinnumönnum þessa lands, eins og hann orðaði það, mótmæla slíkum aðgerðum eins og þessum.

Ég tek undir það, að það er full ástæða til þess að athuga þetta mál miklu nánar og láta það ekki, eins og verið hefur, vera algerlega laust, að þeir, sem flytja vörur til landsins í heilum förmum, fái, ef þeim býður svo við að horfa, að sitja að heimsmarkaðsverði, þegar aðrir, sem flytja stykkjavörur og aðrar vörur annars eðlis til landsins, verði að sæta mjög hörðum verðlagsákvörðunum. En þannig er þessu máli varið, að Eimskipafélag Íslands hefur að undanförnu að langsamlega mestu leyti flutt vörur til landsins, sem hafa verið undir ströngum verðlagsákvörðunum, á sama tíma sem Samband ísl. samvinnufélaga með sinn skipastól, — og er ástæða til að upplýsa þennan góða samvinnumann um það, — hefur í æ ríkara mæli sveigt vöruflutninga sína með skipunum til landsins í það horf að flytja heila farma, svo sem sement, kol og önnur slík efni, til þess á þann hátt að geta komizt fram hjá verðlagsákvörðunum og verðlagseftirliti með vöruflutninga sina og raka þar saman verulega miklum gróða, sem annað félag, sem í þessu sambandi sýnist hafa verið miklu þjóðhollara, hefur farið á mis við. Og það er staðreynd, sem hægt er að sýna fram á, að ef Eimskipafélag Íslands hefði fengið að njóta sömu verðhækkana í farmgjöldum og Samband ísl. samvinnufélaga að undanförnu í sambandi við þessa vöruflutninga sína, þá mundu landsmenn hafa þurft að greiða hundruð millj. króna meira fyrir vörurnar á undanförnum árum, á einu ári, heldur en þeir hafa gert. Ég hygg, að það sé hægt að leggja fram reikninga um, að það mundi nema a.m.k. 250 millj. kr., sem þá hefði þurft að leggja til víðbótar á landsmenn í sambandi við vörugjöldin, en Eimskipafélag Íslands hefur staðið undir að þessu leyti, vegna þess að það með þeim þungu verðlagsákvæðum hefur ekki fengið að hækka í samræmi við hækkanir á heimsmarkaðsverði, eins og flutningar á hinum heilu förmum hafa hækkað, sem í æ ríkari mæli hafa verið teknir af hálfu Sambandsins, en hinir í hlutfallslega meiri mæli lagzt á Eimskipafélagið. Þetta finnst mér full ástæða til að nánar sé athugað, og það er gott, að það kemur fram rödd úr hópi samvinnumanna um, að þessi mál séu tekin til gaumgæfilegri athugunar en verið hefur.

Hvers vegna fékk Eimskipafélagið að flytja vörur á stríðsárunum, og af hverju voru ekki verðlagsákvarðanir á frögtunum þá, — höfðu sjálfstæðismenn nokkuð við það að athuga, og þurfti félagið þetta? spyr hv. 2. þm. Rang. Sannarlega þurfti félagið þetta, og það er eitt af mestu gæfusporum okkar þjóðfélags, að Eimskipafélagið að stríðinu loknu hafði sjóði til þess að byggja upp sinn kaupskipaflota, og er eitt af því, sem landsmenn almennt hafa notið hvað mest hagnaðar og gagns af á undanförnum árum. En hvernig var með vöruflutninga á stríðsárunum? Ætli það hafi ekki verið margir, sem ekki hafa verið neitt spenntir fyrir að taka að sér vöruflutninga á stríðsárunum, og það hafi ekki verið þannig, að margir hafi horfið frá vöruflutningum á þeim hættutímum, sem áður höfðu þá vöruflutninga með höndum? Og er það ekki líka staðreynd, ef rifjað væri upp í gögnum, að fragtirnar á stríðsárunum hafi haft verulega lítil áhrif á verðbólguna hér í landi, svo lítil, að eftir því sem ég man bezt, þá fór fram sérstök rannsókn á því í n., sem skipuð var af hálfu ríkisstj. og vann að þessum málum, og lágu þá fyrir opinberlega hér á þingi og annars staðar upplýsingar um það, að sáralitlu munaði í verðbólgunni, þó að fragtirnar væru algerlega fráskildar, þegar reiknuð væri út vísitalan? Að þessu leyti voru þess vegna vöruflutningar Eimskips ekki til þess að auka verðbólguna í þessu landi, heldur til þess að gera mögulegt, að við Íslendingar gátum haldið áfram að lifa okkar hagsældarlífi, þegar aðrar þjóðir áttu í vök að verjast á þessum hættutímum.

Að lokum vil ég svo segja það, að það 16% gjald, sem fellur á Hamrafellið vegna afborgana af kaupverðinu og vöxtum, er að sjálfsögðu ekki neitt sérstakt gjald, eins og hv. 1. þm. Reykv. benti á. Það var eins og það væri bara Hamrafellið eitt, sem hér ætti hlut að máli. Það eru bæði þau skipafélög, sem nefnd hafa verið, bæði Sambandið og Eimskipafélagíð. Auk þess er t.d. Eimskipafélag Reykjavíkur að byggja skip núna, sem bráðlega verður fullbúið og þessi gjöld lenda á, ef þá verður ekki búið að breyta lögunum og afnema þau innan tíðar, og eins er kunnugt um ýmsa aðra aðila, sem haft hafa á prjónunum að kaupa kaupskip að undanförnu. Þess vegna er hér auðvitað um almennan skatt á alla þá að ræða, sem sambærilega aðstöðu hafa.