23.01.1957
Sameinað þing: 20. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 374 í D-deild Alþingistíðinda. (2807)

59. mál, innflutningur á olíum og bensíni

Magnús Jónsson:

Herra forseti: Það er sérstaklega út af einu atriði, að ég stóð hér upp, sem kom fram í ræðu hv. 2. þm. Rang., og það var hinn einkennilegi skilningur hans á hugsjón samvinnustefnunnar. Hann taldi það hina mestu ósvinnu. að það hefði verið komið í veg fyrir, að samvinnuhreyfingin gæti grætt ekki aðeins 15 milljónir á fjórum mánuðum, heldur miklum mun hærri fjárhæð, sem hefði verið um að ræða, ef ríkisstj. hefði sætzt á að leyfa því að taka 220 sh., sem hann hefur væntanlega miðað við, og að þetta hlyti að vekja hina mestu andúð og mótmæli samvinnumanna.

Ég hef alltaf álitið, að þessi hv. þm. væri gamalreyndur samvinnumaður, og ég hef einnig alltaf heyrt, að það hafi verið ein aðalhugsjón samvinnustefnunnar, a.m.k. fyrst framan af, að tryggja með baráttu sinni, að þjóðin gæti búið við sem bezt kjör viðskiptalega og þyrfti aldrei að gjalda meira en sannvirði fyrir þær vörur, sem hún keypti. Og þjóðinni hefur ætíð verið sagt, að öll viðleitni samvinnufélaganna til aukningar sinnar starfsemi, bæði skipaútgerðar og annars, hafi stefnt í þá átt að tryggja það, að þjóðin gæti búið við hin beztu fáanlegu kjör, sem hægt væri að bjóða.

Hér virðist vera algerlega nýtt sjónarmið komið fram, sjónarmið, sem gengur miklu lengra en ég hygg að nokkur, jafnvel þeir, sem oft og tíðum eru af hálfu þessara sömu manna fordæmdir sem gróðabraskarar, hafi látið sér til hugar koma að væri sanngjarnt að fara fram á. Samvinnufélögin eiga að hirða þann óhemjulega gróða, sem hefði verið um að ræða á örstuttum tíma, ef allt hefði farið sem virðist hafa verið ætlun þessara manna að færi um farmgjöld á Hamrafelli.

Ég tel nauðsynlegt að vekja athygli á þessum einkennilega skilningi á hugsjón samvinnufélaganna, og ég held, að það fari að verða ákaflega vafasamur gróði af starfsemi þeirra, ef það á að vera meginsjónarmiðið, að þau eigi að fá að græða sem allra mest á þjóðinni. Ég held, að það sé einnig ný kenning, a.m.k. er það kenning, sem hljóðar einkennilega úr munni þeirra manna, sem styðja núverandi hæstv. ríkisstj., að það eigi fortakslaust að fara að fylgja þeim lögmálum í viðskiptalífinu að láta framboð og eftirspurn ráða verðlaginu og að íslenzkir aðilar, ef þeir fá höndum undir komið vegna sérstakra atvika, eigi að fá að græða eins og þau atvik gefi þeim tilefni og aðstöðu til.

Þetta er mjög nýstárlegur skilningur og harla einkennilegur, þegar hins vegar er svo íhugað allt tal þessara manna um gróða milliliðanna.

Það er nú búið að ræða þetta mál hér svo í einstökum atriðum, að ég sé ekki ástæðu til að fara út í þá sálma. En það er aðeins eitt atriði, sem ég vildi benda á. Ríkisstj. talar um, að hún hafi tryggt landsmönnum svo og svo mikinn hagnað, sem ella hefði orðið að láta úti, með því að semja við eigendur Hamrafells um að flytja olíu í fjórum ferðum fyrir 160 sh. smálestina. En ég spyr nú: Er nokkur vitneskja um það og eru ekki allar líkur til þess, að heimsmarkaðsverð á olíuflutningum verði komið niður fyrir þetta verð, áður en samningstíma er lokið, þannig að ríkisstj. hafi ekki hér verið að færa þjóðinni neinn gróða, heldur blátt áfram með þessum samningum valdið því, að olíuflutningar til landsins á næstunni geti orðið óhagstæðari en þeir ella hefðu orðið? Það bendir margt til þess, að fragtir með olíuskipum fari nú stórlækkandi á næstunni og verði komnar langt niður fyrir 160 sh., áður en þessu samningstímabili lýkur, þannig að hér sé beinlínis verið að stuðla að alveg sérstökum og óvæntum gróða, sem ríkisvaldið sé þarna að tryggja einum aðila.

Það er mjög einkennilegt að halda því fram, að í því að mótmæla þessum óhæfilega gróða, sem þarna er veittur einum aðila í þjóðfélaginu, felist andstaða gegn því, að þessi aðili hafi flutt olíuskip til landsins. Það er reginmisskilningur. Það hafa allir fagnað því, að hér væri komið olíuskip til landsins. Og það væri vissulega þörf á því, að þau væru tvö. Það er álitamál, hvort það sé ekki stundum svo, að Íslendingar gætu fengið olíu flutta til landsins við hagstæðara verði en ef þeir gerðu skipin út sjálfir vegna verðlags hér. En vegna þess mikla öryggis, sem þetta skapar, þá er tvímælalaust æskilegt, að Íslendingar eigi olíuskip. En það þarf ekki að fela í sér, að það eigi að vera svo, að þessi skip eigi að fá að græða ótakmarkað á þjóðinni.

Ég skal svo aðeins að lokum benda á það, sem kom fram í ræðu hæstv. viðskmrh. og var harla kynleg skýring á hugtakinu vítur. Hann mótmælti því, að bæjarstjórn Reykjavíkur — og þar allir stuðningsmenn vinstri flokkanna hefði vítt ríkisstj. fyrir samningana um Hamrafell, það hefði aðeins verið í ályktun bæjarstjórnarinnar tekið fram, að bæjarstjórnin áliti, að það hefði verið hægt að komast að miklu betri kjörum. Ég skil nú ekki, hvernig er hægt að leika þann orðaleik að komast fram hjá því að segja, að hér sé um vítur að ræða, þar sem beinlínis er fundið að því, að ríkisstj. hafi látið undir höfuð leggjast að gera ráðstafanir til þess, að olían yrði flutt við hagstæðara verði til landsins en hún gerði. Þessar vítur standa eftir og hafa vakið almenna athygli. Hv. 2. þm. Rang. og aðrir halda því fram, að þjóðin öll muni fordæma þær aðfinnslur, sem komið hafa fram frá sjálfstæðismönnum fyrir olíuokrið í sambandi við Hamrafell, að það muni fordæmt af þjóðinni. Því fer víðs fjarri. Það vekur undrun allrar þjóðarinnar, að þeir menn, sem hafa talið sig baráttumenn fyrir því að tryggja þjóðinni hagstæð viðskiptakjör á undanförnum árum og hafa þar af leiðandi talið eðlilegt, að þeir hefðu alla forgöngu um viðskiptamál í landinu, skuli einir gerast aðaltalsmenn þess að taka af þjóðinni á örfáum mánuðum þann óhæfilegasta gróða, sem nokkurn tíma nokkru fyrirtæki á Íslandi hefur dottið í hug að taka.