23.01.1957
Sameinað þing: 20. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 380 í D-deild Alþingistíðinda. (2809)

59. mál, innflutningur á olíum og bensíni

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. Ég skal ekki tefja lengi þessar umræður og stend upp aðallega vegna þess, að mér fannst ekki koma ljóst fram í ræðu hæstv. viðskmrh., með hvaða kjörum fengin væri eða fengin yrði, ef til kemur, olían frá Hvalfirði, sem mér skildist hann eiga von á eða kannske hafa fengið og hann taldi vera frá hinu svokallaða setuliði. (Gripið fram í: Varnarliði.) Varnarliði, já. Ég bið afsökunar.

Það er náttúrlega gott og getur verið hagkvæmt fyrir alla, að þessi olía er tryggð, og mér skildist af ræðu hæstv. ráðh., að hana mætti svo endurgreiða í fríðu eða með olíu aftur eða þá í peningum. Út af þessu vildi ég mælast til þess að fá upplýst það atriði í þessu máli, hvað löngum tíma í síðasta lagi, eftir að hún er fengin, yrði heimilt að skila aftur olíu í staðinn fyrir þá olíu, sem látin yrði af hendi frá varnarliðinu. Og ef ekki yrði úr því og að því kæmi að greiða yrði þessa olíu í peningum, sem eðlilegt mundi vera undir þeim kringumstæðum, þá vildi ég mælast til þess, að hæstv. ráðh. vildi upplýsa, hvað mikið fyrir tonnið yrði þá að greiða í peningum fyrir þessa olíu frá varnarliðinu, sem umrædd er og umrædd var af hæstv. ráðherra.

Ég ætla, að ég þurfi ekki að hafa hér um fleiri orð. Það eru þessi tvö atriði, sem mér fannst vanta í upplýsingar hæstv. ráðh., hvenær mætti í síðasta lagi skila aftur olíu í staðinn fyrir væntanlega olíu, sem fæst, og ef ekki kemur til þess, með hvaða verði yrði að greiða hvert tonn af olíunni, ef að því ráði yrði að hverfa að greiða hana í peningum.