23.01.1957
Sameinað þing: 20. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 383 í D-deild Alþingistíðinda. (2811)

59. mál, innflutningur á olíum og bensíni

Sjútvmrh. (Lúðvík Jósefsson):

Þó að ég viti það nú, að það muni vera eftir ein eða tvær ræður enn þá frá hálfu þeirra sjálfstæðismanna, þar til þeir eru búnir að tala sig dauða allir, — en þeir munu greinilega hafa fengið fyrirskipun um það, að þeir mættu héðan ekki út fara, fyrr en þeir væru allir búnir að tala sig dauða í þessu máli, — þá ætla ég nú samt að grípa inn í enn einu sinni til þess að leiðrétta nokkuð þær missagnir, sem hér er reynt að halda fram.

Síðastur talaði hér hv. þm. N-Ísf. og ætlaði nú að reyna að sanna það, að ég hefði gripið inn í afskipti olíufélaganna og meinað þeim að leigja olíuskip á hagstæðu verði, og vildi reyna að sanna það með tilvitnun í bréf frá mér varðandi þessi mál. Þetta tókst nú heldur óhöndulega. Hvenær var það, sem ég skrifaði þetta eina bréf, sem ég skrifaði olíufélögunum varðandi þetta mál, þegar ég tek það fram, að ég óskaði eftir því, að þau upplýstu mig um það, hvaða ráðstafanir félögin gerðu til leigu á olíuskipum? Það var þegar olíufélögin voru búin að tilkynna það æ ofan í æ í bréfi, að þau geti ekkert skip fengið til olíuflutninganna, og voru búin að sleppa mörgum leigum, sem höfðu þá legið til boða, af því að þau vildu ekki taka á sig neina áhættu af olíuflutningunum, nema þau fengju ákveðin vilyrði um það, hvaða olíuverð ætti að gilda í landinu. Eins og ég hafði tekið fram, skipti það mig vitanlega miklu máli sem viðskmrh. og sem sjútvmrh., að olía yrði flutt til landsins. Ég taldi mér því skylt að fylgjast með því, hvaða aðgerðir félögin hefðu í frammi til þess að tryggja, að olía yrði flutt. En olíufélögin höfðu samning við fyrrv. ríkisstj. um það, að þau áttu að annast olíuflutningana. Þau höfðu tekið að sér að flytja alla olíu til landsins. Og var það óeðlilegt, þó að ég færi fram á, þegar þau voru búin að tilkynna það áður, að þau fengju ekki skip til flutninganna, að þau létu mig fylgjast með því, hvaða ráðstafanir þau gerðu til þess að tryggja Íslendingum olíu? En af hverju las ekki þessi hv. þm. eitthvað upp um það, þar sem ég í bréfi hafði bannað þeim að leigja skip? Af hverju gerði hann það ekki? Ég skora á hann að reyna að koma með eitthvað slíkt, þar sem ég hafi í einhverju tilfelli bannað félögunum að leigja þetta margumtalaða skip. Af hverju komu ekki olíufélögin fram með það? Af því að það er ekki til.

Þegar ég segi í grein, sem ég hef skrifað um þessi mál, að ég hafi ekki fyrir mitt leyti verið við því búinn að mæla með því, að þau leigðu skip á 150 sh. fragtina, þegar fragtin hafði áður verið 98 sh., þá er það allt á þeim grundvelli, að ég hef sagt þeim, að ég vildi ekki fyrir mitt leyti mæla með því, að slík geysileg hækkun yrði samþykkt inn í verðlagið. Það er aðeins viðvíkjandi verðhækkuninni, því að félögin vissu það allan tímann, enda fram tekið í bréfi frá mér til þeirra, að þau væru algerlega frjáls að því að taka það skip til leigu, sem þau vildu, en þau fengju ekki heimild mína til þess að hækka olíuna sem þessari fragtahækkun nam. Það er um það, sem heimildin er. Og það ætti hv. þm. N-Ísf. að skilja, að félögin voru algerlega frjáls að því að leigja skip, ef þau töldu það hagstætt og vildu, en að þau fengu hins vegar ekki heimild mína til þess að hækka fragtina eins og þau voru að óska eftir. (Gripið fram í.) Það var skrifað af viðskmrn. í samráði við ríkisstj. alla og það ráðuneyti, sem fer með verðlagsmálin, þar sem ríkisstj. hafði gert samþykkt um það á sínum tíma. Þegar þótti sýnilegt, að olíufélögin gætu ekki flutt olíu til landsins og vildu ekki taka skip á leigu, nema þau fengju ákveðin vilyrði um fragtina, þá gerði ríkisstj. samþykkt viðvíkjandi fragtinni. (Gripið fram í.) Það er nú alveg furðulegt, að þessi hæstv. ráðh. skuli ekki hafa kynnt sér það, undir hvern verðlagsmálin heyra. (BBen: Ég mótmæli því, að ég sé meiðyrtur með því að kalla mig ráðh. í núv. ríkisstjórn, og skora á hæstv. forseta að skerast í leikinn.) Ef ég hef sleppt „fyrrverandi“ ráðherra, þá skal ég endurtaka það þannig hér á réttan hátt: Þessi fyrrverandi ráðh., ef hann ekki getur kynnt sér það eins og hver og einn, hvaða ráðh. það er, sem fer með verðlagsmálin. Það er greinilega gefið hér út í forsetaúrskurði, hver það er, sem fer með verðlagsmálin, og ég hélt, að allir hv. alþm. vissu það, að það er félmrh., sem fer með verðlagsmálin, þau flokkast ekki undir viðskmrn., þó að þessi hv. þm. og ýmsir aðrir flokksbræður hans séu að lemja hausnum í steininn í sífellu og reyna að hrópa það yfir landslýðinn, að það sé ég, sem fari með þessi mál. (SB: Er ráðherrann að afsaka sig?) Nei, ég er ekkert að afsaka mig, ekki á neinn hátt. Ég er bara að reyna að koma réttu inn í kollinn á þessum mönnum, en það virðist vera heldur erfitt að koma því af hinu rétta inn í þeirra koll, sem þeir vilja ekki hafa.

En þá er reynt að halda því hér fram, að ég hafi sagt í þessum umræðum, að bæjarfulltrúar í bæjarstjórn Reykjavíkur, sem annars eru stuðningsmenn ríkisstj., hafi ekki vítt ríkisstj. fyrir leiguna á Hamrafelli.

Þetta er alveg furðulegt, að það skuli tveir þm. Sjálfstfl. vera að tyggja þetta hér upp hver eftir öðrum. Þeir ættu að líta aðeins í þá ræðu, sem ég flutti hér og er væntanlega skrifuð.

Ég sagði, að þessir bæjarfulltrúar hefðu ekki vítt ríkisstj. fyrir afstöðu hennar til olíumálanna almennt; það var það, sem ég sagði. Ég sagði hins vegar, að þeir hefðu fundið að því, að ríkisstj. hefði ekki gengið lengra til þess að fá lækkaða fragtina á Hamrafellinu; að því hefðu þeir fundið. Svo koma hér tveir þm. Sjálfstfl. og segja, að ég hafi ekki viljað viðurkenna það, að ríkisstj. hafi verið vítt af þessum mönnum. Ég hef ekkert talað um það, ekkert verið að ræða sérstaklega um orðið „vítur“ á einn eða neinn hátt. Ég bara mótmæli því, að það hafi komið fram í þessari samþykkt í bæjarstjórn Reykjavíkur eða hjá þessum stuðningsmönnum ríkisstj., að þeir hafi vítt ríkisstj. fyrir afstöðu hennar til olíumálanna almennt, og ég bætti því við: enda væri það alveg furðulegt, ef slíkar vítur gætu komið frá nokkrum öðrum en þeim, sem væru beinir umboðsmenn olíufélaganna í landinu. Og af hverju? Vegna þess, að það liggur fyrir, að hér hefur verið óbreytt olíuverð í landinu, öllum olíunotendum til góða, á sama tíma sem olíuverð hefur farið hækkandi í öllum löndum hér í kringum okkur. Væri það ekki einkennilegt, ef bæjarfulltrúar í Reykjavik væru að mótmæla þessu? Hitt er hins vegar ekki nema mannlegt, að þeir óski eftir því, að það hefði mátt takast að fá Hamrafellið til þess að flytja olíuna á enn lægra gjaldi en það tók að sér.

Þetta hvort tveggja fellur því algerlega um sjálft sig sem í rauninni dautt og ómerkt. Hv. þm. N-Ísf. sagði hér, að það mætti segja um þessa ríkisstj., að hún væri í olíunni, hún væri alltaf í olíumálunum. Já, ég efast ekkert um það, að það eru til þeir menn hér, sem kvarta alveg sérstaklega undan því, hvernig ríkisstj. hefur haldið á olíumálunum. Ég efast ekkert um það. Ég þekki það frá daglegum umkvörtunum frá forustumönnum olíufélaganna. Ég veit, að þeir eru daglega að kvarta undan því, að þeir skuli ekki fá að hækka sitt verðlag. Þeir eru daglega að reyna að ráðast á mig og alla ríkisstj. fyrir það að veita mótspyrnu gegn því, að þeir fái að hækka sitt verðlag. Þeir telja höfuðsynd núverandi ríkisstj. að hafa staðið svona fast á þessum málum, og Morgunblaðið og Vísir hafa verið eins og oft áður dygg stuðningsblöð þessara aðila í árásum á ríkisstj. út af því að hafa haldið svona fast á olíumálunum.

En ég vil segja það, að ég tel, að það, sem ríkisstj. hefur í þessum efnum gert, hafi verið rétt, olíufélögin hafi fyllilega þolað að taka á sig þann hluta af verðhækkuninni, sem þau hafa þurft að bera nú á undanförnum mánuðum. En hitt er mér alveg ljóst, eins og ég hef líka minnzt á hér áður, að það verður vitanlega ekki hægt að láta þau bera alla þá gífurlegu hækkun á olíu til lengdar, sem annars hefur orðið bæði á verðlagi olíunnar úti í heimi og eins á flutningi hennar hingað til landsins.

En það er þó ekki verið að minnast á það af þeim sjálfstæðismönnum, sem hér tala nú, sem er vitanlega það merkilegasta af öllu, sem fram hefur komið í þessum umr., að þegar þeir áttu viðskmrh., þegar þeir voru í ríkisstj., þá bauðst þeim, eftir því sem viðskmrh. úr þeirra stjórn sagði hér í umr., tækifæri til þess að tryggja landsmönnum olíuflutninga hér á næstu mánuðum fyrir 60 sh. á tonn, og hann vildi ekki þiggja það. Hann vildi ekki standa að því, að slíkt yrði gert. Mennirnir, sem eru núna að deila á það, hvernig haldið er á olíumálunum, þeirra málstaður hann er svona. Og afsökunin var þessi: Það var von á því, að Hamrafellið væri einhvers staðar á næstunni og kæmi til landsins seinna, og það mundi sennilega ekki geta staðið undir 60 sh. Af því væri ekki hægt að tryggja landsmönnum flutningana á olíum til landsins á þessu verði. — Hvers vegna skrifa þeir ekki um þetta í Morgunblaðið? Væri það nú ekki reynandi næst? Og hvers vegna tala þeir ekki um það í sambandi við verðlagninguna á olíum, að það hafi staðið Íslendingum til boða að tryggja alla olíuflutninga til landsins á 60 sh. á tonn, en viðskmrh. Sjálfstfl. hafi ekki viljað þiggja það?

Hv. þm. Vestm. (JJós) flutti hér fsp. líka, og ég verð nú að segja það, að ég get ekki meint annað en að þessi fsp. hans hafi verið flutt hér líka í beinu framhaldi af því, að það sé hér einhver flokksleg skylda á sjálfstæðismönnum að tala sig dauða í þessu máli, jafnvel þó að þeir hafi eiginlega ekki um neitt að tala. Hann spyr hér um atriði, sem ég var búinn að svara áður í þessum umr. eins skýrt og vel og við var hægt að búast að ég gæti svarað því. Það er nú ekki venja, að ráðh. svari hér á Alþ. fsp„ sem koma fram á óþinglegan hátt, án þess að þær séu lagðar fram skriflega. (SB: Ef hann getur það með góðu móti.) Já, og ég svaraði öllu, sem hægt var. En ég hef orðið fyrir því af ráðh. frá hálfu Sjálfstfl., að hann hefur beinlínis, — þó að hann hefði svarið liggjandi á hendinni, — vísað fsp. frá og sagt, að hann svaraði því ekki, nema það kæmi fram skriflega, eins og lög og reglur standa til á Alþingi. Ég var vitanlega ekkert að nota mér slíkt, heldur svaraði þessari fsp. — Hann spyr um það: Hvenær má síðast skila þeirri olíu, sem við fáum nú með sérstökum kjörum úr Hvalfirði? Hvenær má síðast skila henni? Og hvað á að greiða hana á, ef henni verður ekki skilað, heldur á að greiða hana með peningum?

Ég sagði hér frá því, að þessir samningar heyrðu ekki undir mitt ráðuneyti, ég hefði ekki með þá að gera. Það hefur verið utanrrn., sem hefur haft með það að gera. Hitt væri mér kunnugt um, að í aðalatriðum væru greiðsluskilmálarnir þeir, að við hefðum rétt á því að skila því magni af olíu aftur, sem við fengjum þarna, en sagði enn fremur, að vegna þess að nokkur vafi léki á um það, hvaða fragt ætti að leggja til grundvallar, þá mundi vera búið að ákveða um verð, sem lagt yrði til grundvallar, fast verð, ef við óskuðum heldur að fara þá leið að greiða olíuna. Hins vegar gæti ég ekki upplýst nánar um þetta atriði, því að þetta væri ekki undir mínu ráðuneyti og ég hefði ekki með það að gera sem slíkt. (JJós: Ekki hvaða fasta verð það er?) Nei, nefnilega það með fasta verðið. Þetta hafði ég sagt áður og segi enn. Ég get því ekki sagt þetta. Það er annar ráðh., sem hefur haft með þennan hluta málsins að gera.

Ég vil svo að lokum undirstrika það, að það, sem sannazt hefur í þessum olíuumræðum hér á Alþingi, er fyrst og fremst þetta: Hér á Íslandi hefur nú um margra mánaða tímabil, allan þann tíma, sem núverandi ríkisstj. hefur farið með völd, verið fast og óbreytt olíuverð, og öll olía hefur verið sett undir hámarksákvæði, einnig sá hluti olíunnar, sem áður var alveg frjáls, sem olíufélögin gátu áður verðlagt alveg frjálst, t.d. í tíð viðskmrh. Sjálfstfl. Hér er núna lægra verð en í löndunum hér í kringum okkur á olíuvörum, og það hefur aldrei komið fyrir áður. Enn fremur hefur það komið fram alveg greinilega, að olíufélögin eru frjáls að því og hafa verið frjáls að því að velja sér þau olíuflutningaskip, sem þau hafa viljað. Þegar þau hafa stanzað við það að leigja olíuskip, þá hefur það eingöngu verið vegna þess, að þau vildu fá fyrir fram samþykki ríkisstj. fyrir tilteknu verðlagi á olíunni eða í sambandi við hinar nýju fragtir. Það hefur eingöngu verið það. Leigan á Hamrafellinu verður að skoðast í því ljósi, að Hamrafellið var tekið eitt út úr allra íslenzkra skipa, sem voru að flytja til landsins heila farma, hámarksfragtir höfðu ekki áður verið í gildi í slíkum tilfellum og eru ekki í gildi enn í dag í slíkum tilfellum. Önnur íslenzk skip fá að taka þær fragtir, sem hinn frjálsi markaður segir til um, en Hamrafellið var með sérstökum samningi fengið til þess að taka að sér þessa flutninga yfir versta tíma ársins, þegar önnur skip voru yfirleitt ekki fáanleg, og fengið til þess að slá allverulega af frögtunum á frjálsum markaði.

Hitt er svo allt annað mál, hvort rétt hefði verið að taka Hamrafellið eitt út úr þarna strax og ákveða því hámarksfragt. Ég álít, að það hafi ekki verið sanngjarnt, það hefði þá átt að taka öll önnur íslenzk skip líka, sem önnuðust hliðstæða flutninga, og setja þau öll á hámarksfragtir og þar með skylda þau til þess að flytja til landsins vörur á lægri töxtum en erlendu skipin fá fyrir sams konar flutninga. Og það ber vitanlega að athuga framvegis, hvort ætti þannig að fara að, bæði með Hamrafellið og önnur íslenzk skip. En í fyrstu umferð tel ég að Hamrafellið hafi verið látið ganga til móts við þessa skoðun á hóflegan hátt og eðlilegan hátt og þá ekki síður með tilliti til þess, að það var verið að leggja á þetta nýja skip mjög verulega þungan skatt einmitt um þetta leyti.

Þetta eru atriði, sem hér hafa upplýstst í þessu máli. Hitt má svo öllum vera ljóst; að hávaðinn í sjálfstæðismönnum í þessu máli á ekkert skylt við umhyggju þeirra fyrir lágu olíuverði í landinu. Það hafa þeir sýnt á undanförnum árum. Það sýndu þeir, þegar þeir vildu ekki tryggja landsmönnum 60 sh. fragt, og það sýndu þeir t.d. fyrir rúmu ári, þegar þeir samþykktu að beiðni olíufélaganna stórkostlega verðhækkun á olíu, og var þó ekki um neitt Súezstríð þá að ræða. Þá höfðu bara fragtir svona nokkuð almennt hækkað.

Hávaði þeirra á ekkert skylt við áhuga þeirra fyrir því að sjá hér um lágt olíuverð, en það eru umbrot og illska í þeim út af því, að olíufélögin hafa verið látin blæða nokkuð að undanförnu með því að halda föstu hjá þeim verðlaginu. Af því er þeirra hávaði sprottinn.