23.01.1957
Sameinað þing: 20. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 391 í D-deild Alþingistíðinda. (2816)

59. mál, innflutningur á olíum og bensíni

Sjútvmrh. (Lúðvík Jósefsson):

Ég vil bara í tilefni af því, sem nú hefur komið fram, mótmæla því algerlega, að frá minni hálfu hafi verið gefið tilefni til þess í sambandi við þessa fsp., að hér hafa verið umr. með nokkuð óvenjulegum hætti.

Ég hef svarað þeim fsp., sem hér voru skriflega lagðar fram, gerði það strax á venjulegan hátt á fyrsta fundi, þeim skriflegu fsp. Hins vegar hef ég einnig orðið við því að svara hér í þessum umr. ýmsum öðrum munnlegum fsp., sem hafa komið hér á eftir, en vitanlega hef ég ekki talið mig nú hafa skyldu til þess að svara öllum þeim fsp. varðandi önnur ráðuneyti, sem líka hafa blandazt inn í umr., og það er vitanlega allt annað. En það sem menn verða að gera sér ljóst í sambandi við meðferð svona mála, er það, hvort ekki á að halda sér við þá reglu áfram, að fyrirspurnir séu lagðar fram skriflega, eins og mælt er fyrir í þingsköpum, og þeim skriflegu fsp. aðeins einum svarað í þeim umræðutíma. Ef menn vilja hins vegar reyna að efna til almennra umr. um allt aðra hluti, eins og t.d. leigu á tilteknu olíuskipi, sem alls ekki var hér um spurt í þessum skriflegu fyrirspurnum, þá vitanlega átti, eins og hæstv. forseti hefur minnzt hér á, að leggja fram um það þáltill. eða sérstaka fsp. og efna til umræðna um það sérstaklega.

Ég býst svo við því, að þau orð, sem hér hafa verið látin falla af hæstv. forseta, hafi miklu frekar einmitt átt að vera þannig meint, að honum hafi þótt, að leikurinn væri heldur ójafn, þar sem ríkisstj. hefur að vísu getað haft hér ótakmarkaðan tíma, en sá flokkur, sem aðallega hefur staðið hér að fsp., hefur haft mjög takmarkaðan tíma, og að forseta hafi fundizt leikurinn svo ójafn, að hann hafi gert þessa athugasemd, hvort hann vildi ekki reyna að skapa sér frekari aðstöðu til umr. um málið af þeim ástæðum, að á hann hafi hallað í þessum umr.