23.01.1957
Sameinað þing: 20. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 391 í D-deild Alþingistíðinda. (2818)

59. mál, innflutningur á olíum og bensíni

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti: Í sambandi við þær umr., sem orðið hafa um eðli fyrirspurnatímans, vil ég aðeins drepa á það, að í löndum nálægra lýðræðislanda eru fyrirspurnatímar í þjóðþingum mjög tíðkaðir, og í því landi, sem flestar þjóðir hafa sótt fyrirmynd sína til um þennan fyrirspurnatíma, Englandi, er þessi tími miklu lengri en hér hjá okkur. Ef ég man rétt, þá minnir mig, að dagskrá hvers þingfundar, ég held þrisvar eða fjórum sinnum í viku, byrji á fyrirspurnum og standi sá tími tvo til þrjá klukkutíma oft og einatt. Þar er svarað, eins og hæstv. ráðh. skaut inn í, fjölda fyrirspurna. En þar er sá háttur á hafður, að ekki er aðeins takmarkaður ræðutími þingmanna og fyrirspyrjenda, heldur einnig ráðherra. Það er gert ráð fyrir því, að ráðherra svari í örstuttu máli þeirri skýrt mótuðu fsp., sem til hans hefur verið beint. Umr. almennt af hálfu þingmanna eru ekki leyfðar, aðeins leyft að gera svokallaða viðbótarspurningu, rísa úr sæti sínu og varpa fram viðbótarspurningu, en ætli að verða úr því ræða, þá er þingmanni fyrirskipað að hætta. Ég held, að ef gera ætti breytingu á okkar fyrirspurnatíma, þá gæti þetta verið til athugunar, að jafna meira aðstöðu þingmanna og ráðh. en nú er, láta umr. verða styttri, bæði af hálfu þingmanna og ráðherra. Að ætla sér að skera algerlega niður umr. af hálfu þingmanna eða svo til niður, en leyfa ríkisstj. á hverjum tíma ótakmarkaðan ræðutíma, það tryggir alls ekki það, sem verið er að leita að með fyrirspurnatímanum.

Mér er kunnugt um, að á þingunum á Norðurlöndum eru einnig leyfðir fyrirspurnatímar og þeir taldir sjálfsagðir og eðlilegir, og ég held, að ég fari rétt með, að þeir séu hafðir oftar í viku en tíðkast hér hjá okkur.