30.01.1957
Sameinað þing: 22. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 396 í D-deild Alþingistíðinda. (2825)

96. mál, útfærsla fiskveiðitakmarka

Fyrirspyrjandi (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherrum fyrir svör sín, enda þótt sá grunur minn hafi nú rætzt, að ekki sé ástæða til sérstakrar bjartsýni um skjótar aðgerðir af hálfu hæstv. stjórnar í þessu máli.

Ég get ekki komizt hjá því að vekja athygli á því, hversu nú virðist allt annað hljóð í hæstv. sjútvmrh. í þessu máli heldur en verið hefur hér á undanförnum þingum, Nú hefur hann þær fréttir einar að segja um möguleika til aðgerða í þessu stóra máli, að það sé skoðun allra, að rétt sé að bíða þess, að umræðum ljúki á þingi Sameinuðu þjóðanna. Ég veit ekki, hvort hv. þingmenn, sem sátu hér á þingi á síðasta kjörtímabili, minnast þess, að allt önnur orð hafa fallið þá hjá hæstv. ráðherra.

Hæstv. ráðh. sagði, að unnið hefði verið að undirbúningi málsins. Í hverju er sá undirbúningur fólginn? Jú, það hefur verið boðað til ráðstefnu með fulltrúum frá landshlutunum. Þarf þá byrjunin að verða sú, að það þurfi að spyrja þetta fólk, sem átt hefur í stórkostlegum vandræðum undanfarin ár vegna vaxandi rányrkju á heimamiðum sínum um það, hvort það þurfi á aukinni vernd fiskimiða þessara að halda? Er það allur undirbúningurinn, sem fram hefur farið af hálfu hæstv. sjútvmrh.? Ég verð að segja það, að mér virðist mjög hafa dregið úr skriðnum á skútunni á skömmum tíma, sem þessi hæstv. ráðh. hefur farið með sjávarútvegsmál, og mér finnst ástæðulaust að vekja ekki athygli á þeim veðrabreytingum. sem orðið hafa síðan þessi hv. þm. settist í ráðherrastól og fékk nú sjálfur aðstöðu til þess að taka ákvarðanir um skjótar aðgerðir til verndunar fiskimiðunum fyrir þeim landshlutum, sem ekki hafa einungis ekki notið góðs af friðuninni, sem framkvæmd var fyrir nokkrum árum, heldur hafa orðið fyrir stórkostlegum ágangi af erlendum og innlendum togurum síðan.

Hæstv. sjútvmrh. lýsti því í stuttu máli yfir, að hann gæti ekki gert grein fyrir fyrirhuguðum næstu aðgerðum í friðunarmálunum og hann gæti ekki heldur sagt, hverjar þær yrðu.

Þetta er þá kjarni málsins. Þannig stöndum við í dag. Það er ekki tóm til þess að ræða þetta mál til hlítar hér á þeim stutta tíma, sem ég hef til umráða. Ég vil aðeins láta í ljós ánægju mína yfir þeim upplýsingum, sem hæstv. utanrrh. gaf til viðbótar við þær upplýsingar, sem lágu fyrir í þeirri skýrslu, sem hann minntist á og þingmönnum var send á s.l. hausti. Mér er það alveg fyllilega ljóst, að í þessu máli verður að taka nokkurt tillit til þess, sem gerist á alþjóðavettvangi. Vissulega ber ríka nauðsyn til þess að halda þar á málunum af lagni og festu.

En Íslendingar hefðu aldrei getað stigið þau spor, sem stigin voru fyrir 4 árum í friðunarmálunum, ef þeir hefðu eingöngu spurt um álit annarra og eingöngu treyst á stuðning alþjóðlegrar samvinnu við ráðstafanir sínar. Þess vegna verður sú stjórn, sem fer með völdin í landinu á hverjum tíma, og þeir ráðh., sem þessi mál heyra undir, að halda á þeim af fullri festu.

Ég skal játa það, að mér heyrist eftir hljóðinu í hæstv. sjútvmrh., að stefnufestan sé ekki eins mikil nú hjá honum og hún var á s.l. ári og að það sé óvarlegt að gera ráð fyrir mikilli festu í framkvæmd hans á málinu.

Ég vil svo aðeins endurtaka það, sem ég sagði hér í frumræðu minni, að það er ekki aðeins nauðsyn, heldur er það lífsnauðsyn fyrir útgerð og sjómenn á Vestfjörðum, Austurlandi og Norðurlandi, að ný skref verði stigin til aukinnar friðunar og verndunar fiskimiðanna, — það er lífsnauðsyn, sem verður að viðurkenna, og það er vissulega mikið verkefni og vandasamt, sem fulltrúum okkar á erlendum vettvangi hefur verið falið, að sannfæra þá aðila, þau alþjóðlegu samtök, sem um þessi mál fjalla, um hina ríku nauðsyn, sem er fyrir hendi hjá Íslendingum í þessum efnum.

En ég vil nú þrátt fyrir þessi loðmullulegu svör hæstv. sjútvmrh. vænta þess, að hæstv. ríkisstj. standi við þau fyrirheit, sem gefin eru í málefnasamningi hennar og ég vitnaði til hér áðan.