30.01.1957
Sameinað þing: 22. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 397 í D-deild Alþingistíðinda. (2826)

96. mál, útfærsla fiskveiðitakmarka

Sjútvmrh. (Lúðvík Jósefsson):

Hv. þm. N-Ísf. talar hér um breytta afstöðu mína til þessa máls og að honum þyki, að málið sækist seint í mínum höndum, vitnaði hér til þess, að mín afstaða hefði verið sú, að áður hefði ég látið orð um það falla, að ég vildi vinna hratt að framgangi þessa máls. Mín afstaða er óbreytt í þessu máli á alla lund, og hún er gagnstæð því, sem hann lýsti hér yfir, að þetta mál muni ráðast, eins og hann orðaði það. á alþjóðavettvangi. Mín skoðun er sú, að þetta mál eigi að útkljást hér heima á Íslandi og ákveðast hér. Það hefur mín skoðun verið, en það hefur hins vegar jafnan verið skoðun hans flokks, eins og hann játaði hér einnig nú í ræðu sinni, að hann teldi, að þetta mál mundi ráðast fyrst og fremst á alþjóðavettvangi. Hins vegar hef ég aldrei verið svo einsýnn, að ég hafi ekki viljað taka skynsamlega tillit til þess, sem er að gerast erlendis og mætti verða okkur stuðningur við það, sem við ætlum okkur að ákveða hér heima.

Ég hef því ekki viljað setja mig gegn því, að þegar bein þátttaka Íslendinga í umr. um þetta mál erlendis stendur yfir, þá sé dokað við með framkvæmdir í málinu um tveggja til þriggja mánaða skeið, þar til slíkum umr. er lokið, og það er aðeins það, sem ég hef fallizt á í þessum efnum. Ég er þeirrar skoðunar, að það hefði verið næsta óeðlilegt af okkur að geta ekki beðið þann tíma, enda geri ég mér fyllilega ljóst, að það tekur nokkurn undirbúningstíma hér heima að ganga þannig frá því, sem gera skal í málinu, að landsmenn almennt geti staðið saman um það, sem ákveðið er, og að rök séu dregin saman til þess að styðja þessar aðgerðir, sem frambærileg eru hvar sem er.

Hv. þm. N-Ísf. undraðist mjög, að það væri búið að boða hér til ráðstefnu með fólki frá hinum ýmsu landshlutum til þess að ræða þetta mál og til þess að gefa því kost á því að segja frá sinni sérstöðu til málsins.

Þessi afstaða hans sýnir bezt, hversu feikilega lítið hann hefur raunverulega hugsað um þetta mál og hversu mjög hann virðist nú vera slitinn úr öllu eðlilegu samhengi við sina kjósendur, því að ein aðalkrafa fólksins þar á landinu, sem menn eru óánægðastir með það, sem gert hefur verið í landhelgismálunum, er einmitt það, að fulltrúar beint frá þessum landshlutum fái að segja sitt orð um það, hvernig verði staðið að framkvæmd málsins.

Það þarf vitanlega ekki að halda neina ráðstefnu til þess að spyrja fulltrúa frá þessum héruðum um það, hvort þeir óski eftir nokkrum breytingum eða ekki. Það hefur engum manni dottið í hug. En það er afstaða manna, t.d. á Vestfjörðum og Norðurlandi og Austurlandi, að ef kunnugri menn heimamálum þar hefðu fengið að fylgjast með því, sem áður var gert í þessum efnum, þá hefði grunnlínunni og mörgu í framkvæmd málsins verið hagað á annan veg en gert var, og það er einmitt þetta, sem nú er verið að reyna að forðast. Nú er verið að leita eftir því, að heimamenn fái aðstöðu til þess að greina frá sinni sérstöðu. Það getur skipt menn verulegu máli um það heima fyrir, hvort grunnlínan er miðuð við þennan punkt eða einhvern annan og hvernig þar með heildarfriðunarlinan er ákveðin.

Enn fremur er það, að það er ekki nema að vonum, að menn á hinum ýmsu stöðum á landinu líti mjög einhliða á það frá sínu sjónarmiði, hvað hægt er að gera. og þeir þurfa því gjarnan að fá í gegnum fulltrúa sína að kynnast því í sameiginlegum umr. um málið, hvernig eðlilegast og bezt er að standa að heildarlausn málsins, og til þess er þessi fundur einnig hugsaður. Til þessa fundar hefur líka verið boðað í fullu samráði við aðalforustumenn í héruðunum, og það hefur verið tekið mjög vel undir það, að þeir ættu kost á því að standa að undirbúningi málsins.

Hitt hlýtur svo hv. þm. að vita eins og allir alþingismenn, að hér á Alþingi hafa komið fram margar og mismunandi till. um það, hvað gera skuli í næsta áfanga þessa máls. Menn virðast engan veginn vera á einu máli um það, hvað skuli gert, og hinir sérfróðu menn málsins, sem rætt hefur verið við, hafa ekki heldur verið allir á einu máli um það, hvað skyldi miða næstu aðgerðir í málinu við.

Eins og ég upplýsti hér, hefur farið fram þó nokkur undirbúningur í þessu máli, og það er enn unnið að því. Hins vegar vænti ég, að allir skilji, að þetta mál er þannig, að það er engin aðstaða til þess, á meðan skoðanir hafa ekki verið felldar saman til hlítar, að tilkynna mjög um það í allra áheyrn, hvenær ákveðin verður breyting á friðunarlínunni, því að það er vitanlega langsterkast fyrir Íslendinga að skapa hér heima fyrir sem allra mesta samstöðu um slíkar framkvæmdir.

Hv. þm. N-Ísf. kvartaði undan því, að nú hefði dregið úr skriðnum á skútunni, eins og hann orðaði það, í þessum efnum. Ja, hver var skriðurinn á skútunni í þessum efnum, áður en núv. stjórn tók við? Hvað eru mörg ár síðan friðunarlínan var ákveðin? Ég hygg, að það sé komið talsvert á fimmta ár, síðan friðunarlínan var ákveðin, og allan þann tíma hafa verið uppi kröfur, bæði hér á Alþingi og hvarvetna úr þeim landshlutum, sem hafa fengið litla leiðréttingu sinna mála, og skriðurinn á þeirri íhaldsskútu, sem hann hlýtur að hafa haft í huga í þessum efnum, sem ráðið hefur ferðinni fram að þessu, hefur verið sá, að engu hefur fengizt um þokað, og helztu forustumenn í þessum efnum hafa beinlínis barizt fyrir því, svo að óumdeilt er, að vilja gera samkomulag við erlendar þjóðir um að festa núverandi ástand alveg til nokkurra ára.

Það var nú sá skriður, sem hv. þm. hlýtur að hafa haft í huga. Ég fyrir mitt leyti er á þeirri skoðun að þó að við að sjálfsögðu tökum tillit til þess, hvernig þessi mál standa á erlendum vettvangi, og reynum að haga framkvæmd málanna þannig, að okkar vígstaða verði sem sterkust, þá eigi samt sem áður okkar meginafstaða að miðast við það, að við tökum ákvörðunina óheftir og óbundnir af öðrum í þessum efnum, en vitanlega þegar aðstaðan er bezt fyrir okkur.

Ég tel svo ekki skipta höfuðmáli, hvort framkvæmdir dragast um örfáa mánuði eða ekki, en ég geri mér vonir um, að það megi takast að sameina alla flokka og sem mest af þjóðinni um þær till., sem ákveðið verður að standa á, og að það þurfi ekki að dragast ýkjalangan tíma enn, þar til hægt verður að vinna hér að beinum framkvæmdum.

Það er svo nokkurn veginn ljóst mál, að þær umr., sem nú standa yfir á þingi Sameinuðu þjóðanna, munu enda með því, að málinu verði enn vísað til alþjóðaráðstefnu, sem ráðgert er að haldin verði á árinu 1958, og ég vænti líka, að flestir Íslendingar séu á þeirri skoðun, að það komi ekki til mála fyrir Íslendinga að bíða fram yfir þá ráðstefnu með framkvæmdir í þessu máli, þegar þess er nú einnig að gæta, að það er allsendis óvíst, að nokkuð endanlegt fáist út úr þeirri alþjóðaráðstefnu.

Ég held svo, að hv. þm. N-Ísf. hafi ekki undan neinu að kvarta í þeim svörum, sem hann hefur hér fengið. Hann gat varla búizt við öðru en því, að þetta mál væri hér í undirbúningi. En ég trúi því varla, að hann hafi búizt við því að geta fengið hér tilkynningar um það upp á dag, hvenær yrði ákveðið að framkvæma útfærslu friðunarlínunnar.