13.02.1957
Sameinað þing: 30. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 403 í D-deild Alþingistíðinda. (2835)

186. mál, framleiðsluhagur

Forsrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Svör við þessum fsp. voru tilbúin s.l. miðvikudag, en vegna forfalla fyrirspyrjandans var fyrirspurninni þá ekki svarað. Svörin við fsp. á þskj. 189 frá hv. þm. A-Húnv. eru þannig:

Fyrst vil ég gefa yfirlit yfir heildarupphæð útgjalda til verðuppbóta og niðurgreiðslu vöruverðs 1957, og er áætlunin svo sem hér segir:

I. Greiðslur úr útflutningssjóði:

1. Verðuppbætur vegna útfluttra sjávarafurða samkv. 4., 6., 7. og 8. gr. l. um útflutningssjóð 304.2 millj. kr.

2. Niðurgreiðsla á verði brennsluolíu til fiskiskipa og fiskvinnslu samkv. 11. gr. l. um útflutningssjóð (hér er að ræða um bráðabirgðaáætlun) 22.5 millj. kr.

Eru þetta þá samtals 326.7 millj. kr.

3. Uppbætur á saltsíld, framleidda 1957, það er sama upphæð og var notuð 1956, og er þess vegna að ræða um bráðabirgðaáætlun, 33.5 millj. kr.

Heildartala framleiðsluuppbóta vegna sjávarafurða 1957 verður þá 360.2 millj. kr.

Svo eru í fimmta lagi uppbætur á útfluttar landbúnaðarvörur, aðallega á útflutt kindakjöt af haustframleiðslunni 1956, 36.5 millj. kr.

Heildarupphæð framleiðsluuppbóta 1957 verður þá 396.7 millj. kr.

7. Eldri útgjöld, sem greidd eru með tekjum af gjöldum samkv. lögum um útflutningssjóð: Halli framleiðslusjóðs 1956 20.7 millj. kr. Eftirstöðvar innflutningsréttinda 15 millj. kr. Samtals 35.7 millj. kr.

Heildarupphæð útgjalda útflutningssjóðs 1957 432.4 millj. kr.

II. Útgjöld ríkissjóðs til almennrar niðurgreiðslu vöruverðs:

9. Útgjöld samkv. fjárlagafrv. 1957, áður en niðurgreiðslur voru auknar á s.l. hausti, 59.5 millj. kr.

10. Áætluð viðbót 1957 vegna aukinna niðurgreiðslna frá hausti 1956 24 millj. kr.

Samtals er þetta 83.5 millj. kr.

Alls nema þessar upphæðir 515.9 millj. kr. Svo vil ég jafnframt svara fsp. í sambandi við þetta, en grundvöllurinn undir spurningarnar sex er greiðslur útflutningssjóðs, og hef ég nú rakið, hverjar þær eru. Í fyrsta lagi er þetta miðað við árlegar tekjur.

1. Af heildarupphæðinni, 515.9 millj. kr., eru 35.7 millj. kr., sbr. 7. lið, eldri útgjöld. Eins og ég las áðan, eru það eldri útgjöld, sem greiðast af tekjum 1957, en 480.2 millj. kr. eru vegna ársins 1957, þar af 396.7 millj. kr. uppbætur vegna útfluttra sjávarafurða og landbúnaðarafurða.

Viðkomandi 2. lið fsp. er þeim svarað með lið 4 og 5: Heildarupphæð vegna sjávarafurða 1957 360.2 millj. kr., og heildarupphæð vegna útfluttra landbúnaðarafurða 36.5 millj. kr.

3. liður. Við áætlun um framleiðslu sjávarafurða 1957, sem liggur til grundvallar ofangreindri útgjaldaáætlun, hefur verið tekið tillit til aukins fiskafla vegna aukningar á fiskiskipastólnum. — Uppbætur á útfluttar landbúnaðarvörur eru miðaðar við það, að flutt verði út 2500 tonn af kindakjöti haustsins 1956, en af sömu framleiðslu voru flutt úr 1955 1364 tonn, og á þessum útflutningslið hefur því orðið veruleg aukning.

4. fyrirspurn. Áætlanirnar um útgjöld til uppbóta eru miðaðar við óbreytt kaupgjald og óbreytta vísitöluuppbót svo og við óbreytt gjöld á vörum og þjónustu. Í því sambandi skal minnt á það, að allar helztu rekstrarvörur útflutningsframleiðslunnar voru undanþegnar gjöldum þeim, er á voru lögð í desember s.l.

5. liður. Áætlanir um verðuppbætur á útfluttar landbúnaðarvörur (liður 5) eru miðaðar við haustverð 1956, sem gildir til hausts 1957, en að því er snertir útflutningsverð kjöts er miðað við lítið eitt hærra verð en fékkst fyrir kjöt af framleiðslu 1955. — Verðuppbætur vegna sjávarafurða eru miðaðar við sama útflutningsverð og gilti á árinu 1956.

Svo er 6. liður: „Eru ekki teknar þarna með þær fjárhæðir, sem fara til að greiða niður vísitöluna.“ Því er svarað í 9. og 10. lið. Þær eru teknar með. Útgjöld samkv. fjárlögum 1957, — svo að ég lesi það aftur, — áður en niðurgreiðslur voru auknar á s.l. hausti, 59.5 millj. og áætluð viðbót 1957 vegna aukinna niðurgreiðslna frá hausti 1956 24 millj. kr. Samtals, eins og ég hafði áður lesið, 83.5 millj. kr.

Með þessu held ég að fsp. hv. þm. sé að fullu svarað.