27.02.1957
Sameinað þing: 40. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 408 í D-deild Alþingistíðinda. (2847)

104. mál, olía frá varnarliðinu

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Ég verð að taka undir það, sem aðrir tveir hv. þm. hafa hér rætt um, að það er næsta undarlegt, hvernig hæstv. utanrrh. bregzt við að svara þeirri fsp„ sem hér liggur fyrir og var hér fyrir það löngum tíma leyfð í þinginu, að það er engum efa bundið, að hæstv. ráðh. hefur haft næg tækifæri til þess að kynna sér málið, eins og það liggur fyrir, enda bar hann ekki fyrir sig, að það hefði verið vegna tímaskorts, að hann gæti ekki svarað þessari spurningu.

Það hefur vitanlega oft komið fyrir, að ráðh. hafa ekki haft aðstöðu til að svara til hlítar spurningum, sem fyrir þá hafa verið lagðar, vegna þess að þeir hafa ekki haft tök á að svara þeim til hlítar, annaðhvort skort um það upplýsingar eða önnur atvik verið fyrir hendi. En ég man ekki til þess að það hafi beinlínis verið skotið sér undan því að svara fsp., sem leyfð hefur verið, á þann hátt sem hér hefur verið gert. Mál þetta liggur svo einfaldlega fyrir, að það getur ekki verið neinn vandi fyrir hæstv. ráðh. að svara því, sem hér er að spurt.

Um þetta mál hefur verið gerður sérstakur samningur, eftir því sem hann upplýsir og reyndar áður hefur verið upplýst, og í þeim samningi hlýtur að vera ákveðið, hvaða verð á að vera á þessari olíu. Það, að það sé sagt, að greiða eigi fyrir hana kostnaðarverð, er ekki nema aðeins upplýsing um þann grundvöll, sem við er miðað. En það er útilokað annað en hæstv. ríkisstj. hafi gert sér grein fyrir því, hvað raunverulegt verð olíunnar væri. Og það er a.m.k. fráleitur samningur og mundi af hverjum einstaklingi hafa verið talinn næsta heimskulegur, — og verður ekki að óreyndu að ætla, að hæstv. ríkisstj. hafi gert slíkan samning, — að semja um það eitt, að vara skyldi keypt á kostnaðarverði, án þess að hafa nokkra hugmynd um, hvert slíkt verð væri.

Ég verð þess vegna að taka undir það, sem hér hefur verið sagt áður, að það er nánast óvirðing við Alþ., sem hefur leyft þessa fsp., sem hér er flutt, að hæstv. ráðh. skuli neita því algerlega að gefa upplýsingar, sem honum hljóta að vera fullkunnar.