06.03.1957
Sameinað þing: 44. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 412 í D-deild Alþingistíðinda. (2860)

120. mál, álitsgerðir um efnahagsmál

Fyrirspyrjandi (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Þegar núv. hæstv. ríkisstj. tók við völdum í lok júlímánaðar s.l., lét hún það verða eitt sitt fyrsta verk að skipa nefnd til þess að gera athugun á efnahagsmálum þjóðarinnar. Nm. voru sumpart tilnefndir af nokkrum stéttarsamtökum, en sumpart af flokkum þeim, sem að ríkisstj. standa. Í byrjun septembermánaðar s.l. voru svo fengnir tveir kunnir hagfræðingar frá Alþjóðabankanum til þess að semja álitsgerð um íslenzk efnahagsmál, vandamál þau, sem við væri að etja, og leiðir, er til greina kæmu til úrbóta. Sérfræðingar þessir skiluðu svo áliti fyrir lok septembermánaðar.

Það hefur nú vakið undrun almennings, að ekkert skuli hafa verið birt af álitsgerðum þeirra sérfræðinga, er hér hafa verið til kvaddir, og það þótt nú séu liðnir 2 1/2 mánuður frá því að Alþingi samþykkti till. þær um efnahagsmál, er athuganir þessar áttu að vera grundvöllur að. Og víst er um það, að mjög kvað við annan tón í sumum málgögnum hæstv. ríkisstj. um það leyti, er nefndir þessar voru settar á laggirnar, og vil ég leyfa mér að tilfæra sum þessara ummæla, því að í þeim felst líka bezta greinargerðin fyrir því, að fyrirspurn þessi er fram borin.

Þann 12. ágúst s.l. segir Tíminn svo, með leyfi hæstv. forseta, í leiðara, sem ber fyrirsögnina: „Rannsókn á strandgóssi“.

„En þegar stór flokkur manna með fjármagn og blaðakost á bak við sig þykist samt ekkert sjá nema blóma í atvinnu- og efnahagslífinu, er hollast fyrir þjóðfélagið, að úttektin fari fram og að strandgóssið verði dregið undan sjó og rannsakað. Þjóðin þarf að hafa um það glöggar og ótvíræðar heimildir, hvernig komið er atvinnu- og framleiðslumálum hennar. Sú vitneskja verður að vera sú undirstaða, sem viðreisnin hvílir á.“

Og enn fremur segir Tíminn þann 14. ágúst, með leyfi hæstv. forseta, í leiðara, sem ber fyrirsögnina „Hræðslan við rannsóknina“:

„Raunar er augljóst mál, að það er ekki nefndarskipunin sjálf, sem fer í taugarnar á íhaldinu og veldur geðvonzkukasti Morgunblaðsins. Það er hin hagfræðilega rannsókn og úttekt á strandgóssinu, sem íhaldið þolir ekki. Þegar fyrir dyrum stendur að gera hlutlausa og róttæka athugun á gervöllu fjármálakerfinu, veit íhaldið fullvel, að ekki mun lengi á eftir þurfa að deila um blómann á arfinum. Þá munu liggja fyrir órækar sannanir um það, hvernig dýrtíðar- og gróðabrallsstefna íhaldsforingjanna hefur hrakið þjóðarfleyið í strand, þó að enn sé kallað að fljóti. Morgunblaðið óttast, að blekkingin um blómann standi brátt afhjúpuð.“

Og enn segir Tíminn þann 22. ágúst: „Reynslan mun sýna, hvert starf nefnd þessi innir af höndum. Þá er nægur tími til dóma, þó að Morgunblaðsmenn vilji ógjarnan bíða þess. Á meðan má gera sér grein fyrir því, hver reginmunur er á þeim vinnubrögðum, sem ríkisstj. ætlar að viðhafa í þessu efni, og viðhorfi íhaldsins meðan það sat að völdum. Þessi rannsókn er fyrir opnum tjöldum, í augsýn fólksins í landinu. Íhaldið fór öðruvísi að. Í fyrra var framkvæmd nokkur hagfræðileg rannsókn á ýmsum þáttum þjóðarbúskaparins og gert um það sérfræðilegt álit. Hvernig var farið með það? Það var læst niður í skúffu ráðherra og þingmanna og kom aldrei fram í dagsins ljós. Upplýsingar þær, sem þar var að finna um efnahagsástandið, voru meðhöndlaðar eins og ríkisleyndarmál. Þær hafa enn ekki verið birtar almenningi. Þjóðin breytir ekki eftir álitsgerðum, sem hún þekkir ekki.“

Þessu til skýringar er rétt að taka það fram, að s.l. ár eða fyrir áramótin 1955–1956 bað þáv. ríkisstj. nokkra sérfræðinga að gera athuganir og ábendingar i sambandi við vandamál útgerðarinnar. Til þessa voru aðallega kvaddir nokkrir embættismenn, sem samkvæmt erindisbréfum sínum ber skylda til að vera ríkisstj. til ráðuneytis um efnahagsmál, þegar þess er óskað, svo sem bankastjóri Framkvæmdabankans, hagstofustjóri og nokkrir fleiri. Þá var yfirleitt ekki gert ráð fyrir því, að þessi gögn yrðu notuð til annars en að ríkisstj. hefði þau til hliðsjónar, er hún tæki ákvarðanir sínar, og vinnubrögð því miðuð við það. Það var aldrei gert ráð fyrir því, að þau plögg yrðu birt.

En að lokum vil ég svo, með leyfi hæstv. forseta, tilfæra nokkur ummæli Tímans frá 9. okt. s.l., þar sem birtur er útdráttur úr ræðu hæstv. forsrh., sem hann hafði haldið á fundi framsóknarfélaganna þá fyrir tveimur dögum. Þar segir svo:

„Um þá sérfræðilegu rannsókn, sem fram hefur farið til þessa, kvaðst ráðherrann geta upplýst, að hún hefði staðfest í öllum greinum, að fjármála- og efnahagskerfi þjóðfélagsins væri helsjúkt, og yrði óumflýjanlegt að gera stórfelldar ráðstafanir til úrbóta. Hann ræddi nokkuð um komu hollenzka hagfræðingsins dr. Polacks og störf hans. Á þessu stigi málsins er ekki unnt að skýra frá álitsgerð þess ágæta og mikilsmetna sérfræðings í heild, en þó er hægt að nefna, að í niðurstöðunum felst staðfesting á áliti okkar á innviðum fjármála og framleiðslukerfis þjóðfélagsins og á nauðsyn gagngerðra endurbóta.“

Það mun vekja nokkra undrun, að ekkert hefur verið birt af þessum álitsgerðum að undanteknu því, að það hefur að vísu verið birt ein tala, þ.e., að það þyrfti að færa 500 millj. kr. frá öðrum atvinnugreinum til sjávarútvegsins, en ekkert hefur verið skýrt frá því, á hverju þessi tala væri byggð. Það má vekja athygli á því, að í tvö önnur skipti, þegar hliðstæð úttekt — ef maður vill nota það orð — þessari fór fram, — það var árið 1946 og svo síðar árið 1950, þegar gengislækkunarlögin voru undirbúin, — að þá voru öll gögn og skilríki í sambandi við „úttektina“ birt.