06.03.1957
Sameinað þing: 44. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 414 í D-deild Alþingistíðinda. (2861)

120. mál, álitsgerðir um efnahagsmál

Forsrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Út af þessari fsp. skal ég taka það fram þegar í upphafi, að það er til athugunar að birta ýmislegt af því, sem fram hefur komið við þá rannsókn, sem framkvæmd hefur verið. Það er fyrst og fremst skýrsla efnahagsmálanefndar eða nefndar, sem rannsakaði, hvernig ástatt var um framkvæmdir, hálfgerðar framkvæmdir og framleiðslumál. Enn fremur er skýrsla, eins og hér hefur verið minnzt á, tveggja hagfræðinga frá Alþjóðabankanum. Og í þriðja lagi er til skýrsla, raunar, ef ég man rétt, tvær, fyrri og seinni útgáfa, af rannsókn, sem fór fram að tilhlutan fyrrverandi ríkisstj. En til þess að ganga frá birtingu þessara gagna þarf að vinna talsvert mikið verk, en sá hængur er á því enn, að það var skýrt tekið fram, þegar er sérfræðingarnir frá Alþjóðabankanum létu af störfum sínum hér, að það mætti ekki birta álitið. Bankinn vildi ekki láta blanda sérfræðingum sínum inn í það, að það væri verið að birta þeirra álit, það yrði a.m.k. að sækja um sérstakt leyfi til þess, ef það ætti að fást. Það hefur ekki verið farið fram á þetta leyfi enn, en við það hefur setið. Og það var alveg sama og kom hér fram hjá hv. fyrirspyrjanda. Það voru fjórir hagfræðingar, sem rannsökuðu þessi mál hjá fyrrverandi stjórn, það var fyrirspyrjandi, og það var Benjamín Eiríksson hagfræðingur og bankastjóri, enn fremur var n. til aðstoðar Klemenz Tryggvason hagstofustjóri, og fjórði hagfræðingurinn var Jóhannes Nordal. En þeir tóku skýrt fram, að það mætti ekki birta þeirra álitsgerð, og neituðu því, að hún væri birt. Það yrði a.m.k. að fá sérstakt leyfi þeirra til þess að birta hana, og stendur vitanlega eins á og af sömu ástæðum og með hina hagfræðingana og sérfræðingana.

Þess vegna var álitsgerðin ekki birt. Ef á að taka saman skýrslu úr þessum álitsgerðum, þá þarf að fá leyfi þessara fjögurra manna, enn fremur þeirra tveggja erlendu hagfræðinga, sem um er að ræða. Ég geri ráð fyrir, að verði auðsótt að fá leyfi efnahagsnefndarinnar til þess að birta hennar gögn, en ég tel, að það komi ekki að fullu gagni að birta þessar heimildir, nema þessi gögn séu öll saman birt í heild, því að það sést greinilega af þeim í heild, hvernig þróunin hefur verið, og er þess vegna nauðsynlegt að gera útdrátt úr þeim eða birta þau á annan hátt.

Ástæðurnar eru sem sagt tvær, þ.e. bann frá sérfræðingunum á því að birta gögnin, bæði frá þeim, sem unnu fyrir fyrrverandi stjórn, og þeim, sem unnu núna, og þarf að fá til þess sérstakt leyfi. Og enn fremur þarf, þó að leyfin fáist, að leggja verulega vinnu i að vinna úr þessum gögnum.

Ég man það held ég rétt, ég veit ekki, hvort ég á bæði fyrri og seinni skýrslu hagfræðinganna, sem unnu fyrir fyrrverandi stjórn, en ég geri nú ráð fyrir því satt að segja, hvað sem öðrum skýrslum líður, að sú skýrsla sé ekki fallin til birtingar orðrétt eins og hún er og að það dytti engri ríkisstjórn í hug að birta hana orðrétta eins og hún er. En þannig getur staðið á með fleiri skýrslur, sem eru til leiðbeiningar fyrir ríkisstj., en ekki til birtingar, án þess að það sé unnið úr þeim á þann hátt, sem nauðsynlegt er til þess að birta þær án þess að verða að tjóni.