06.03.1957
Sameinað þing: 44. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 415 í D-deild Alþingistíðinda. (2862)

120. mál, álitsgerðir um efnahagsmál

Fyrirspyrjandi (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir þær upplýsingar, sem hann hefur gefið, og ég tel ástæðu til að fagna því, að það skuli a.m.k. vera til athugunar hjá hæstv. ríkisstj., hvort rétt sé að birta þessi gögn. Hins vegar vænti ég þess, að það hafi varla farið fram hjá hv. þingheimi, að það var töluvert annar tónn í ræðu hæstv. forsrh. heldur en var í Tímanum á s.l. hausti, þegar þessar athuganir voru undirbúnar, eins og ég hef rakið. Þar er talað um úttekt í augsýn allrar þjóðarinnar og lögð rík áherzla á það, að nú eigi að hafa önnur vinnubrögð en áður og leggja öll gögn fram svo fljótt sem mögulegt sé.

Það mun vera fyllilega rétt hjá hæstv. forsrh., að sérfræðingar þeir, sem til voru kvaddir, hafa óskað eftir því, að gögnin yrðu ekki birt nema með þeirra leyfi. En ég hjó eftir því, að hæstv. forsrh. talaði um það, að þessa leyfis hefði enn þá ekki verið leitað, svo að áhugi hæstv. ríkisstj. fyrir birtingu gagnanna virðist enn sem komið er vera takmarkaður, og stingur það mjög í stúf við það, sem áður hefur verið sagt. Að öðru leyti hygg ég, að það sé mjög óvenjulegt, þegar Alþjóðabankinn sendir sérfræðinga eftir beiðnum ríkisstjórna tiltekinna landa, sem eru aðilar að Alþjóðabankanum, að neitað sé um það, að álitsgerðir þessar séu birtar.

Ég harma það að lokum, að mér virðist, að þessi fsp. hafi ekki náð þeim tilgangi að svipta þeirri hulu af, sem yfir þessum málum hefur hvílt, en leyfi mér þó að vona, að eitthvað upplýsist í næstu framtíð um þetta, því að vitanlega er það mikilvægt, að þjóðin fái sem haldbeztar upplýsingar um það, hvernig hennar efnahagsmálum er komið.

Eins og ég tók fram í framsöguræðu minni, þá finnst mér hagfræðingaálitið frá því í fyrra ekki sambærilegt við þetta, því að tilgangur þess var aðeins sá að afla gagna, sem ríkisstj. gæti haft til hliðsjónar, þegar hún tæki sínar ákvarðanir, en vinnubrögðin voru ekki við það miðuð, að álitið kæmi fyrir almenningssjónir. Og jafnvel þó að gagnrýna kynni mega, að það álit var ekki birt, eins og gert er í Tímanum í þeim ummælum, sem ég tilfærði, þá hefði einmitt, ef stjórnarflokkarnir hefðu verið sjálfum sér samkvæmir, átt að láta hendur standa fram úr ermum með að birta þessi gögn sem fyrst.