06.03.1957
Sameinað þing: 44. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 416 í D-deild Alþingistíðinda. (2863)

120. mál, álitsgerðir um efnahagsmál

Forsrh. (Hermann Jónasson):

Ég þarf ekki að endurtaka það, sem ég sagði áðan, að þetta mál er í athugun og það þarf að fá þessi leyfi. M.a. þarf ég að fá leyfi hv. fyrirspyrjanda. Ég get sagt honum það og sagt þinginu það hér, að það, sem er ekki birtingarhæft í áliti hans og félaga hans, þ.e. orðalag á ýmsum hlutum viðkomandi efnahagsmálum, gerir það að verkum, að hann álítur, að ekki sé rétt að birta það. Það er líka í hinu álitinu.

Hins vegar er álit fjögurra hagfræðinganna, sem rannsökuðu fyrir fyrrv. ríkisstj., miklu ýtarlegra en það verk, sem hagfræðingarnir erlendu unnu hér — ef ég man rétt — aðeins á 14 dögum. Það er aðallega yfirlit um það, eins og sagt hefur verið, hvað þyrfti að flytja til framleiðslunnar, reikna það út, en álitið, sem var gert fyrir fyrrv. ríkisstj., er miklu nánari rannsókn á öllu atvinnukerfinu í landinu og dregnar niðurstöður siðan af því. Og ég álít sannast að segja, að það sé næsta mikil ósanngirni að deila á ríkisstj. fyrir að birta ekki álit, sem útlendur hagfræðingur hefur gert og er þannig, að það þarf a.m.k. að orða það á annan hátt, til þess að sé rétt að birta það, en viðurkenna jafnframt að hafa sjálfur gengið frá áliti, sem sé þannig orðað, að ekki sé hægt að birta það, standa hér frammi fyrir þingheimi og segja: Mitt álit er ekki hægt að birta, því að það er þannig orðað — það finnst mér hálfeinkennileg framkoma, og það, sem ég vil spyrja hv. þm. um, er það: Má ríkisstj., ef hún gefur heildarskýrslu um þessi mál, birta hans álit?