06.03.1957
Sameinað þing: 44. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 419 í D-deild Alþingistíðinda. (2866)

120. mál, álitsgerðir um efnahagsmál

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Mér þykir sá málflutningur, sem hér er hafður í frammi af hálfu hv. stjórnarandstæðinga, vera kostulegur að ýmsu leyti. Þær álitsgerðir um efnahagsmál, sem hér er um að ræða, eru þrjár.

Í fyrsta lagi er um að ræða álitsgerð, sem samin var af fjórum innlendum hagfræðingum fyrir fyrrv. ríkisstj. í sambandi við undirbúning hennar að þeim ráðstöfunum, sem gerðar voru við næstsíðustu áramót.

Í öðru lagi er um að ræða álitsgerð, sem samin var af tveim starfsmönnum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í Washington að beiðni íslenzku ríkisstj. á s.l. hausti.

Í þriðja lagi er um að ræða álitsgerð, sem samin hefur verið af efnahags- eða samvinnunefnd um efnahagsmál, sem skipuð var m.a. fulltrúum ýmissa stéttarsamtaka. Það er álitsgerð hennar, sem menn eiga við, ef menn þá vita, hvað þeir tala um, þegar menn tala um úttekt á þjóðarbúinu, en alls ekki álitsgerð hinna erlendu hagfræðinga, sem hingað komu. Þeim var aldrei ætlað það hlutverk, sem í þessum umr. og annars staðar hefur verið nefnt úttekt á þjóðarbúinu. Það var hlutverk þeirrar n., sem skipuð var m.a. fulltrúum stéttarsamtakanna, eins og greinilega kom fram í tilkynningu um skipun þeirrar nefndar.

Nú skulum við aðeins virða fyrir okkur í fáeinum orðum, hvers eðlis þessi nál. eru. Þegar fyrrv. ríkisstj. gerði sínar till. um lausn efnahagsmálanna um næstsíðustu áramót, fylgdu þeim till. engar hagfræðilegar upplýsingar, alls engar.

Ég gerði þá oftar en einu sinni fsp. um það hér í þessum sama ræðustól, hvort unnt væri að fá þann hagfræðilega rökstuðning, sem e.t.v. væri fyrir hendi og ég raunar vissi að var fyrir hendi fyrir þeim till., sem þá voru settar fram.

Ég fékk það svar, einnig úr þessum ræðustól, að þáverandi ríkisstj. teldi alls ekki rétt að birta þær hagfræðilegu athuganir, sem hún hefði látið fram fara til undirbúnings málinu, og ástæðurnar, sem gefnar voru upp, voru tvær.

Fyrri ástæðan var sú, að sérfræðingarnir sjálfir hefðu óskað eftir því, að það álit yrði ekki birt, og því var einnig bætt við, ég held, að ég fari rétt með, að það hafi verið sagt hér í sjálfum ræðustólnum, en ekki í einkaviðtölum, að það hafi beinlínis verið skilyrði af hálfu a.m.k. sumra hagfræðinganna, að álitsgerð þeirra yrði ekki birt. Það var beint skilyrði fyrir því, að þeir vildu taka þátt í nefndarstörfunum, að álitsgerðin yrði ekki birt.

Það liggur því i augum uppi, að þessi álitsgerð verður ekki birt nema með leyfi allra fjögurra hagfræðinganna, sem þá álitsgerð sömdu, og einn af þeim er hv. fyrirspyrjandi, sem flutt hefur þetta mál hér inn í þingið. Og það verð ég að segja að er vægast sagt hæpinn málflutningur, þegar núverandi þm., sem hefur áður staðið að hagfræðilegri álitsgerð og neitað að láta birta hana, neitað að láta alla þm. fá aðgang að henni, gerir hér mikið veður út af því, að til skuli vera aðrar álitsgerðir, sem ekki fáist birtar.

Um þessa álitsgerð gilti þó það sérstaka, að það var gert upp á milli þm. í málinu. Þegar ég einu sinni spurðist fyrir um meðferð álitsgerðarinnar hér í þessum sal, þá vissi ég, að þm. stjórnarflokkanna höfðu fengið álitsgerðina til meðferðar, og spurði þá: Hví get ég ekki eins fengið hana? Hvað er í álitsgerðinni, sem gerir það að verkum, að þm. er mismunað varðandi meðferð málsins. Álitsgerðin getur verið þess eðlis, sagði ég, og það segi ég enn, því að sú skoðun finnst mér rétt, að stjórnin ein á að hafa aðgang að henni. Það þekki ég, sem sjálfur hef oftar en einu sinni unnið slík trúnaðarstörf fyrir ríkisstj. og það fleiri en eina, að vel getur verið, að hagfræðingar, sérfróðir menn, gefi þess konar álit, sem þeir ætlist til að sé einvörðungu til afnota fyrir ríkisstj. og æðstu embættismenn. En hér var því ekki til að dreifa, því að þm. stjórnarflokkanna fengu álitsgerðina, en þm. stjórnarandstöðunnar var neitað um hana. Það var það, sem var óeðlilegt og rangt við meðferð málsins hjá hæstv. fyrrv. ríkisstj. Og þetta var ástæða til að gagnrýna og er enn ástæða til að gagnrýna.

Varðandi aðra álitsgerðina, álitsgerð hollenzka og norska hagfræðingsins frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, er þetta að segja: Þeir áttu viðræður við mig sama daginn og þeir komu til landsins af þeirri ástæðu, að málefni Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eru til meðferðar i mínu ráðuneyti. Eitt það fyrsta, sem þeir spurðu um varðandi verkefni sitt, var það: Er ætlazt til þess, að álitsgerð okkar sé til birtingar? Ég svaraði því til, að það færi að sjálfsögðu eftir þeim reglum, sem um þetta giltu varðandi slíkar álitsgerðir, samdar á vegum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, og svo i öðru lagi eftir þeirra eigin ósk. Þá svöruðu þeir eftirfarandi eða dr. Polack fyrir þeirra hönd: Það er yfirleitt ekki venja, að álitsgerðir starfsmanna Alþjóðagjaldeyrissjóðsins séu birtar, nema þá að um það komi fram alveg sérstök ósk af hálfu þeirrar ríkisstj., sem álitsgerðin er samin fyrir. Ef hún kemur ekki fram í byrjun, þá reiknum við með því, að álitsgerðin sé ekki birt. Það er nauðsynlegt fyrir okkur að vita, áður en við hefjum verkið, hvers eðlis álitsgerðin á að vera, hvort hún á að vera trúnaðarskjal fyrir hlutaðeigandi ríkisstj. eða hvort hún á að vera til almennrar birtingar. Ég spurði þá um, hvort þeir teldu það hafa áhrif á vinnubrögð sín, og þeir kváðu, að það mundi vera, og þá spurði ég þá, hver skoðun þeirra sjálfra væri á því, hvort þeir teldu álitsgerðina eiga að birtast eða ekki, og þá sögðu þeir, voru báðir um það sammála, að þeir teldu heppilegra, að þeir höguðu sínum vinnubrögðum þannig, að álitsgerðin væri til afnota fyrir ríkisstj. eina. Hitt er svo annað mál, um það spurði ég þá síðar, og hafa áreiðanlega fleiri gert, hvort stjórnin mætti, ef henni sýndist svo, birta álitsgerðina, og þá svöruðu þeir: Ef stjórnin óskar eftir því, þá biðjum við, að okkur sé skrifað um málið, þannig að við getum gengið frá álitsgerðinni eins og við viljum hafa hana til prentunar. — Þannig liggur málið fyrir.

Það er því hrein fjarstæða að halda því fram, að núverandi ríkisstj. hafi gerzt sek um að draga einhverja óeðlilega dul á þessa álitsgerð. Með málið hefur verið farið nákvæmlega eins og gert var ráð fyrir í upphafi, þegar sérfræðingarnir voru hingað fengnir.

Hitt er svo annað mál, að ég persónulega sé ekkert við það að athuga að birta skýrsluna, ekki það allra minnsta. Það er í raun og veru ekkert í henni, sem ástæða er til þess að halda leyndu. En þessum sérfræðingum yrði að sjálfsögðu að sýna þá kurteisi, enda skylt gagnvart þeim, að fá leyfi þeirra til þess og láta þá ráða því, í hvaða formi skýrslan er birt, því að hún er þeirra verk.

Varðandi þriðju skýrsluna, þ.e.a.s. álitsgerð samvinnunefndarinnar um efnahagsmál, sem falið var að rannsaka hina ýmsu þætti efnahagsmálsins og gefa um það skýrslu, er það að segja, að ríkisstj. hefur þegar fengið verulegan hluta af álitsgerð þeirrar n. í sínar hendur, en ekki álitsgerðina alla. M.ö.o.: Nefndin hefur ekki lokið starfi sínu að fullu. Það er að sjálfsögðu til athugunar, eins og hæstv. forsrh. tók fram, hvort á að birta nokkurn hluta af álitsgerðinni, þann hluta hennar, sem fullsamin er, eða hvort á að biða þangað til n. hefur algerlega lokið störfum. Um það, vænti ég, er enginn ágreiningur, að það er nokkurt álitamál, hvort birta á skýrslur um störf slíkrar nefndar í smáköflum eða bíða þangað til n. hefur lokið starfi sínu að fullu og öllu. Venjan hefur verið sú hér á landi að birta ekki skriflegar skýrslur um störf nefnda, fyrr en störfum þeirra er endanlega lokið. Ég sé satt að segja ekki, hvað óeðlilegt er við þá afgreiðslu málsins, og algerlega ástæðulaust að tala um vanrækslu eða að sé verið að draga fjöður yfir eitthvað í sambandi við þetta. Ég tel sjálfsagt, þegar þessi n. hefur lokið störfum sínum, að birt verði álitsgerð hennar, annaðhvort í heild eða þeir kaflar í henni, sem taldir eru skipta almenning mestu máli.

Þannig liggur málið ofur einfaldlega fyrir og í raun og veru ekkert stórmerkilegt í sambandi við þetta og allra sízt ádeiluefni á núverandi ríkisstj. Að síðustu aðeins þetta: Allra sízt geta þeir menn deilt á ríkisstj. fyrir að hafa ekki birt álitsgerðir um efnahagsmál, sem sjálfir hafa sett að skilyrði fyrir að semja slíkar álitsgerðir, að þær verði ekki birtar.