06.03.1957
Sameinað þing: 44. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 422 í D-deild Alþingistíðinda. (2867)

120. mál, álitsgerðir um efnahagsmál

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Það eru harla kynleg viðbrögð hæstv. ríkisstj. við þeirri fyrirspurn, sem hér er fram borin, og hljóta að vekja allmikla undrun ýmsar þær upplýsingar, sem fram koma frá hæstv. ráðh. Hæstv. menntmrh. sá þörf á því að koma til aðstoðar hæstv. forsrh. og reyna að bæta úr þeim vandræðalegu upplýsingum, sem hann var að reyna að gefa áðan, en ég held í sannleika sagt, að hæstv. menntmrh. hafi gert starfsbróður sínum þar lítinn greiða, því að hann upplýsir það í sinni ræðu, að í viðræðum við hina útlendu sérfræðinga hafi það borið strax á góma, hvort ætti að birta skýrslur þeirra eða ekki, og ráðh. sagði orðrétt í sinni ræðu áðan, að með málið hefði verið farið eins og gert var ráð fyrir í upphafi, þannig að það hefur alls ekki í upphafi verið gert ráð fyrir því, að þessi plögg væru birt. Þá upplýsir hann jafnframt, að hagfræðingunum, sem hingað voru fengnir, hafi í rauninni alls ekki verið ætlað að framkvæma þessa úttekt á þjóðarbúinu, sem búið var að tala um, heldur hafi einhver n. átt að framkvæma hana, sem að mjög litlu leyti er skipuð sérfræðingum, ef það er nokkur sérfræðingur í henni í þeim efnum. Ég veit þá sannast sagt ekki, hvað þessir hagfræðingar hafa átt að gera hingað, og það a.m.k. stingur mjög í stúf við það, sem alltaf hefur verið haldið á loft, bæði af hæstv. forsrh. í ræðum hans og í blöðum stjórnarinnar, að hagfræðingar þessir hafi sannað eitt og annað og hafi sannað það, sem hafi verið haldið fram af ríkisstj. um ástandið í efnahagsmálunum, og þar m.a. má benda á það, sem hv. 9. landsk. las áðan úr tilvitnun í Tímann, umsögn af ræðu hæstv. forsrh. á fundi framsóknarfélaganna, að það væri álitsgerð þessara hagfræðinga, sem hefði staðfest það í einu og öllu, að efnahagskerfið væri helsjúkt. Nú er það orðin uppistaðan í vörn hæstv. ríkisstj., að það sé ástæðulaust að deila á hana, vegna þess að hún hafi farið nákvæmlega að eins og fyrrverandi stjórn, og þess vegna sé undarlegt, að sjálfstæðismenn séu að deila á ríkisstj.

Þetta náttúrlega ber að sama brunni og svo margt annað í starfi hæstv. ríkisstj., sem hér skal ekki farið út í á þessum stað, að það virðist vera orðið helzta haldreipi stjórnarinnar að tala um, að núverandi stjórn sé ekkert verri en fyrrverandi stjórn. En var það ekki einmitt núverandi hæstv. ríkisstj., sem ætlaði að framkvæma endursköpun á öllum hugsanlegum sviðum þjóðlífsins? M.a. var margoft um það talað og það þó mest í málgögnum hæstv. forsrh. og af honum sjálfum alveg sérstaklega, að nú ætti að taka upp alveg ný vinnubrögð, nú ættu allar álitsgerðir að verða birtar og allt ætti að framkvæmast fyrir augum alþjóðar. Það hafa ekki áður verið gefnar neinar hliðstæðar yfirlýsingar, og þess vegna er það furðulegt, þegar hæstv. ráðh. eru að óskapast yfir því, að nú sé spurt að því, hvernig standi á því, að þessi lofuðu vinnubrögð hafi ekki verið viðhöfð. Þeir hneykslast öll ósköp yfir því og furða sig á, að nokkrum manni skuli detta í hug að ætlast til þess, að hæstv. ríkisstj. fari eftir því, sem hún hefur lofað. Það er kannske til of mikils ætlazt af stjórninni. Reynslan staðfestir það kannske, að það sé ekki hægt að ætlast til þess hér eftir, að hún fari eftir því, sem hún hefur áður lofað.

En það er eitt, sem mér finnst einna broslegast við þetta allt saman og kom fram í ræðu hæstv. forsrh., og það er það, að þessi úttekt á þjóðarbúinu hafi raunverulega verið framkvæmd af fyrrverandi stjórn. Nú á aðaluppistaðan í rannsókninni að vera athugun, sem gerð var af hagfræðingum fyrir fyrrverandi stjórn, það, sem nú er gert, sé ekki nema einstök atriði af þessu máli, allt velti á, að hv. 9. landsk. og aðrir leyfi að birta álitsgerð, sem þeir gerðu um næstsíðustu áramót fyrir fyrrverandi stjórn, þar sé að finna allan sannleika málsins, þar sé öll úttektin. Hvað er þá orðið eftir af öllu, sem búið er að tala um afrek núverandi stjórnar í að kanna ástand þjóðfélagsmálanna og efnahagsmálanna alveg niður í kjölinn, ef niðurstaðan af þessu verður sú, að það er ekki núverandi hæstv. ríkisstj., sem hefur framkvæmt úttektina, heldur ætlar hæstv. forsrh. að byggja í einu og öllu dóm sinn á áliti, sem samið var fyrir fyrrverandi stjórn, sem hann hefur manna mest fordæmt og talið allt til foráttu?