06.03.1957
Sameinað þing: 44. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 423 í D-deild Alþingistíðinda. (2868)

120. mál, álitsgerðir um efnahagsmál

Fyrirspyrjandi (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Satt að segja undrar mig sá málflutningur, sem komið hefur fram af hálfu hæstv. ráðh. Ég vitnaði í þau ummæli Tímans frá s.l. sumri, þar sem einmitt eru mjög vítt þau vinnubrögð, sem fyrrverandi ríkisstj. hafi haft í þessum efnum, og með leyfi hæstv. forseta, þá stendur þar orðrétt:

„Á meðan má gera sér grein fyrir því, hver reginmunur er á þeim vinnubrögðum, sem ríkisstj. ætlar að viðhafa í þessu efni, og viðhorfi íhaldsins, meðan það sat að völdum. Þessi rannsókn er fyrir opnum tjöldum í augsýn fólksins í landinu.“

Svo kemur hér hæstv. forsrh. og segir: Ja, fyrrverandi ríkisstj. birti ekki öll þau gögn, sem henni bárust frá hagfræðingum um ástandið í efnahagsmálum. Þá er það eðlilegur hlutur, að þessi ríkisstj. geri það ekki heldur. — Þetta hlýtur að koma mönnum einkennilega fyrir sjónir.

Mig furðaði nú líka satt að segja á því, að hæstv. forsrh. skyldi álíta það eins konar skilyrði fyrir því, að hægt væri að birta þessar álitsgerðir hinna útlendu og innlendu sérfræðinga, að við, sem gerðum þessar athuganir fyrir ári, veittum til þess leyfi. Ég skal því aðeins skýra frá því, af því að það hefur ekki komið fram áður, hvernig stóð á því, að við óskuðum ekki eftir, að okkar álitsgerð yrði birt.

Svo var mál með vexti, að formaður þeirrar hagfræðinganefndar, sem þá var skipuð, var bankastjóri Framkvæmdabankans, en honum ber samkvæmt sínu erindisbréfi að vera ráðunautur ríkisstj. í efnahagsmálum. Svo vildi til, þegar n. var sett á laggirnar um miðjan september 1955, að hann dvaldist erlendis á vegum ríkisstj. í sambandi við lánaútveganir. Það dróst fram undir októberlok, að hann kæmi heim, en það var seint í nóvembermánuði, sem ríkisstj. krafðist þess af okkur, að álitið væri til, og þá urðum við að skila því skilyrðislaust. En það voru margvíslegar upplýsingar, sem okkur vantaði þá, þannig að ekki var um að ræða nema hálfunnið verk. Þetta var ástæðan til þess, að við vorum ófúsir að birta álitið, enda voru þá settir tveir menn, skrifstofustjórar úr stjórnarráðinu, í framhaldsrannsókn á þessum efnum.

En viðvíkjandi fyrirspurn hæstv. forsrh., er hann beindi til mín, þá er það að vísu ekki í mínu valdi að ákveða um það fyrir hönd þessara fjögurra manna, hvort leyfilegt sé að birta álitið, en ef það kæmi til að standa sérstaklega á því, þá mundi ég vera fús til að beita mínum áhrifum til þess, að leyft yrði að birta eitthvað meira eða minna af því, sem við létum frá okkur fara.