06.03.1957
Sameinað þing: 44. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 426 í D-deild Alþingistíðinda. (2870)

120. mál, álitsgerðir um efnahagsmál

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Að verulegu leyti hefur málflutningur hæstv. ráðh. snúizt um það að draga inn í þetta mál skýrslu, sem fyrrv. ríkisstj. lét gera, en ekki er spurt um í þeirri fsp., sem hér er um að ræða, og því ekki á dagskrá. Hæstv. forsrh. segir, að hún sé nú samt sem áður grundvöllurinn undir því, sem síðar hafi gerzt í þessu máli, og það hlýtur að hafa verið nokkurs virði fyrir fyrrv. ríkisstj. og sérstaklega hæstv. forsrh. að heyra, hversu mikið núverandi forsrh. lagði upp úr því, eins og hann orðaði það, að sú skýrsla er ekki vefengd, sem gerð er að beiðni hæstv. fyrrv. forsrh.

Þetta bendir dálítið til þess, að samvizka hæstv. forsrh. sé ekki alveg fullkomlega hrein um, að það kunni ekki að verða eitthvað vefengt af þeim skýrslum, sem hann kann að láta birta í þessu máli, en hann sagði, og ég bið hv. þm. að taka eftir því, að stjórnin hefði fyrst í stað óskað eftir því að fá hreinskilnar skýrslur: Við töldum betra að fá hreinskilnar skýrslur, en ekki yfirborðskenndar skýrslur, sem eru lagaðar til birtingar. En í sömu andránni er verið að tala um, að hin svokallaða samvinnunefnd í efnahagsmálum, skipuð af núverandi hæstv. ríkisstj., sé einmitt að undirbúa skýrslu, sem sé löguð til birtingar.

Það er rétt að minnast þess, þegar sú skýrslugerð kemur fyrir sjónir manna.

Annars er röksemdakeðjan í þessu máli þannig: Núverandi hæstv. ríkisstj. lofaði með stórum orðum að birta þær skýrslur, sem hún var að láta gera, og hæstv. forsrh. gekk fram fyrir skjöldu og sagði, að vissulega skyldi þetta birt, og auðvitað hlaut allur almenningur að leggja þann skilning í þessi ummæli og þessi fyrirheit, að þessar skýrslur lægju fyrir um leið og áður en ákvarðanir yrðu teknar í efnahagsmálunum á Alþingi Íslendinga, að þær yrðu einmitt grundvöllur þess, að menn gætu áttað sig á málunum. Þetta var eitt, loforðin um að birta skýrslurnar.

Númer tvö: Það er ekkert birt.

Númer þrjú: Hæstv. forsrh. kemur og segir: Það hefur ekkert verið vanefnt.

Og endirinn er svo sá, að núna skilst mér, að sérstök rannsóknarnefnd sé að vinna að því að rannsaka skýrslurnar til þess að búa þær í þann búning, að þær séu lagaðar til birtingar, svo að orð hæstv. forsrh. séu notuð.

Ég verð nú að segja, að ekki hækkaði hagur strympu, þegar hæstv. menntmrh. kom upp í ræðustólinn. Hann segir: Álitsgerðir þær, sem hér er um að ræða, eru þrjár: 1) Álitsgerð, sem fyrrverandi ríkisstj. lét gera. 2) Álitsgerð tveggja hagfræðinga frá Alþjóðabankanum. 3) Álitsgerð samvinnunefndar ríkisstjórnarinnar um efnahagsmál.

Er þetta rétt? Eru þessar þrjár skýrslur hér til umr.? Má ég, með leyfi hæstv. forseta, lesa fyrirspurnina, sem hér hefur verið lögð fyrir:

„Hvað líður birtingu álitsgerða þeirra um íslenzk efnahagsmál, sem samdar hafa verið af erlendum og innlendum sérfræðingum í sambandi við undirbúning ráðstafana þeirra í efnahagsmálum, sem gerðar voru fyrir s.l. áramót?“

Það er það, sem fyrir liggur til umr., og það er það, sem ríkisstj. á að svara: Hvað líður birtingu þessara skýrslna, sem með stórum orðum var lofað? Málinu er ekki hægt að drepa á dreif með því að gera eins mikið og hæstv. ráðherrar vilja gera úr skýrslugerðum fyrrv. stjórnar, þó að það sé út af fyrir sig ánægjuefni fyrir fyrrv. ríkisstj. En þessi skýrsla er ekki sú, sem hér er að spurt.

Hæstv. menntmrh. sagði, að þm. hefði verið mismunað í fyrra, þ.e.a.s. í tíð fyrrv. ríkisstj., vegna þess að allir stjórnarstuðningsmennirnir hefðu fengið að sjá álitsgerðirnar og skýrslugerðirnar um efnahagsmálin þá.

Út af þessu langar mig til að spyrja: Fengu ekki þingmenn og stuðningsmenn núverandi hæstv. ríkisstj. að sjá álitsgerðir þær og skýrslugerðir, sem hinir erlendu sérfræðingar létu núverandi ríkisstj. í té? Fengu þeir ekki að sjá þær? Aumingja stjórnarliðið varð allt að taka ákvörðun hér á tveimur eða þremur nóttum fyrir jól og hafði aldrei fengið að sjá þessi stórmerku sérfræðingaálit, sem svo mikið hafði verið gumað af og vitnað til í blöðum stjórnarliðanna. Almenningur í þessu landi hlýtur að furða sig á þessum vinnuaðferðum stjórnarinnar — og vesalings stuðningsmenn stjórnarinnar, sem slíkt álag er nú lagt á.

Hæstv. menntmrh. sagði einnig, að hinir erlendu sérfræðingar hefðu sagt: Ef óskað er eftir að birta álitsgerðina, þá á stjórnin að biðja um það, og þá verður hún birt. M.ö.o.: Nú liggur ekkert fyrir um það, að á nokkurn hátt standi á hinum erlendu sérfræðingum að hafa viljað láta birta þær skýrslur, sem um hefur verið talað. Það stendur bara á einum aðila, hæstv. ríkisstj., að biðja þessa sérfræðinga um að mega birta þær skýrslur, sem þeir létu í té.

Hæstv. menntmrh. sagði: Það er ekkert stórmerkilegt við þetta mál. Ég held, að allur almenningur í þessu landi fari að verða ráðh. sammála um, að það sé ekkert stórmerkilegt við þetta né annað í frammistöðu hæstv. ríkisstj. í efnahagsmálum landsins.