06.03.1957
Sameinað þing: 44. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 427 í D-deild Alþingistíðinda. (2871)

120. mál, álitsgerðir um efnahagsmál

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég verð að segja, að lítið þykir mér hv. stjórnarandstaða hafa til að tala um og hugsa um, þegar hún getur pexað um mál eins og þetta í upp undir það klukkutíma. Málavextir eru í raun og veru afar einfaldir. Málavextir eru ofur einfaldlega þeir, það var rétt hjá hv. síðasta ræðumanni, að spurt er, hvað líði birtingu tveggja álitsgerða, álitsgerðar tveggja erlendra manna og álitsgerðar efnahagsmálanefndar, sem ríkisstj. skipaði á s.l. hausti. Um þetta er spurt í till.

Því hefur þegar verið svarað alveg skýrt og skorinort, að varðandi álitsgerð hinna erlendu hagfræðinga er það að segja, að því var aldrei lofað fyrir fram að birta hana. Hún er þess eðlis, í samræmi við vinnubrögð í hliðstæðum tilfellum, að það þarf samþykki höfundanna sjálfra til þess, að hún verði birt. og þá hafa þeir áskilið sér rétt til þess að ganga frá henni til birtingar. Ef á það er lögð alveg sérstök áherzla af hálfu stjórnarandstöðunnar eða einhvers sérstaks aðila, þá er sjálfsagt að gera það að mínu viti. Ég endurtek það, að það er ekkert í þeirri skýrslu, sem er þess eðlis, að ekki komi til mála að birta hana, ekki nokkur hlutur. Í því formi, sem ég geri ráð fyrir að höfundarnir mundu ganga frá henni. En hún var ekki samin til birtingar, og það var ekki beðið um hana til birtingar, og það er kjarni málsins.

Varðandi skýrslu efnahagsmálanefndarinnar gegnir allt öðru máli. Henni var falið að annast þá margumtöluðu úttekt á þjóðarbúinu. Að því hefur sú n. starfað síðan og starfar enn. Hún hefur þegar lokið vissum þætti í sínum rannsóknum. t.d. öllu því, er varðar hag og rekstur útflutningsatvinnuveganna. Um það mál liggja frá henni mjög ýtarlegar skýrslur. Þær eru alveg birtingarhæfar í því formi, sem þær liggja fyrir í, og það stendur ekki á neinu öðru varðandi birtingu þeirra en því, að n. ljúki í heild sínum störfum. (Gripið fram í.) Þær voru til fyrir jólin. (Gripið fram í: Mátti ekki sýna þingmönnum þær?) Það hefði auðvitað vel mátt gera það. (Gripið fram í: Af hverju var það ekki gert?) Af þeirri einföldu ástæðu, að það er vafamál, hvort á að birta einstaka þætti í störfum nefndar. áður en hún hefur lokið störfum fullkomlega. Ef menn síðan halda, að störf efnahagsmálanefndarinnar, sem vann mjög gott og mjög merkilegt starf og vinnur enn, hafi enga þýðingu haft, þá er það alger misskilningur af þeirri einföldu ástæðu, að skýrslurnar hafa ekki verið birtar.

Í efnahagsmálanefndinni áttu sæti og eiga enn sæti fulltrúar stéttasamtakanna í landinu. Það var vitað, að það var eitt höfuðmarkmið núverandi ríkisstj. að ná samstarfi við stéttasamtökin í landinu. að byggja þær ráðstafanir, sem gerðar yrðu, á nánu samstarfi við stéttasamtökin.

Til þess að slíkt samstarf gæti tekizt, þurfti að láta fulltrúa stéttasamtakanna eiga aðgang að öllum upplýsingum, sem þeir óskuðu eftir. Það gerðist einmitt í starfi efnahagsmálanefndarinnar. Með milligöngu þeirra ágætu manna, sem voru fulltrúar stéttasamtakanna í efnahagsmálanefndinni, fengu helztu trúnaðarmenn stéttasamtakanna þær upplýsingar, sem þeir óskuðu eftir. Það er þessi þýðing, sem þessi nefnd hafði fyrst og fremst. Hún veitti stéttasamtökunum skilyrði til þess að fá þær upplýsingar um rekstur atvinnuveganna, aðalútflutningsatvinnuveganna, sem þeir óskuðu eftir, og það átti án efa mjög heilladrjúgan þátt í því, að það samstarf fékkst við stéttasamtökin, sem fékkst um s.l. áramót. Því trúi ég, að enginn ábyrgur maður hér á hinu háa Alþingi neiti, að það var mjög mikils virði, að takast skyldi það samstarf, sem tókst um síðustu áramót milli ríkisvaldsins annars vegar og stéttasamtakanna hins vegar, og ég hika ekki við að fullyrða, að einmitt starf efnahagsmálanefndarinnar og aðild fulltrúa stéttasamtakanna að henni átti mjög mikinn þátt í því, að sú samstaða tókst. Þess vegna er alveg þýðingarlaust fyrir menn að gera lítið úr störfum efnahagsmálanefndarinnar fyrir þá sök eina, að álitið hafi ekki verið birt.

Þessi nefnd gegndi sínu mikla hlutverki. Ég veit ekki annað en að allir þar hafi innt af hendi mjög mikið starf, kynnt sér málin mjög ýtarlega og þegar gegnt mjög merkilegu hlutverki og sýnt heilladrjúgan árangur. Þegar n. hefur lokið störfum sínum að fullu, kemur til athugunar að birta alla niðurstöðu hennar, og ég fyrir mitt leyti vil engan vafa láta leika á því, að ég tel beinlínis sjálfsagt, að það verði gert.

Það er rétt hjá hv. síðasta ræðumanni, að ekki var spurt um, hvað liði birtingu þeirra álitsgerða, sem fjórir hagfræðingar sömdu fyrir síðustu ríkisstj., en þetta kemur einmitt upp um það kátbroslega í öllum málflutningi stjórnarandstöðunnar í þessu máli. Fyrrv. ríkisstj. lét semja fyrir sig álitsgerð um hagfræðileg efni, sem hún neitaði að láta birta, sýndi sínum stuðningsmönnum, en neitaði stjórnarandstöðunni um rétt til þess að fá að sjá, og einn af höfundum þessarar skýrslu er einmitt sá maður, sem flytur málið inn í hið háa Alþ. Neyðarlegast verður allt þetta mál, þegar þess er gætt, að hv. fyrirspyrjandi, sem furðar sig mjög á því, að skýrslur, sem núverandi ríkisstj. hefur að öllu leyti eða sumpart í sínum höndum, skuli ekki þegar hafa verið birtar, þegar upplýst er og ómótmælt af honum, að hann hafi sett að skilyrði fyrir starfi sínu fyrir fyrrverandi ríkisstj., að hans álit yrði ekki birt.

Ég vil að síðustu taka skýrt fram, að ég er ekki að lá hv. fyrirspyrjanda það, þó að hann setti slíkt skilyrði á sínum tíma. Honum er það áreiðanlega jafnljóst og mér, þó að hv. síðasta ræðumanni sé það áreiðanlega ekki, að verið getur mjög tvíeggjað að vinna fyrir stjórnmálamenn og gera það í fullkomnum trúnaði og eiga það síðan á hættu hvenær sem er, að skýrslur manna, upplýsingar og orð séu birt samhengislaust og slitin úr samhengi hvert við annað og kannske við tækifæri, sem eru ólík þeim, sem ríktu, þegar orðin voru töluð. Ég hygg, að ég geti sagt það, og um það munu allir íslenzkir hagfræðingar vera sammála og um það erum við hv. fyrirspyrjandi áreiðanlega sammála, að það hefur komið fyrir oftar en einu sinni, að álitsgerðir íslenzkra hagfræðinga hafa verið misnotaðar herfilega í stjórnmáladellum.

Ég er ekki í minnsta vafa um það og veit raunar, að ástæðan til þess, að þessir 4 hagfræðingar vildu ekki semja sína álitsgerð til birtingar, var beinlínis sú, að þeir kærðu síg ekki um, a.m.k. ekki allir þeirra, að vera dregnir inn í stjórnmáladeilurnar á sama hátt og oft áður hafði komið fyrir. Þetta get ég mjög vel skilið. Þetta er að mörgu leyti algerlega eðlileg afstaða. Það rýrir heilbrigð starfsskilyrði hagfræðinga sem sérfræðinga, sem vísindamanna, ef þeir verða fyrir því hvað eftir annað og geta hvenær sem er átt von á því að vera dregnir inn í stjórnmáladeilur á þann hátt, að þeir og þeirra skoðanir verða að bitbeini aðila, sem stundum reynast ekki hafa fullkominn skilning á þeim röksemdum, sem þeir eru með að fara. Þess vegna hneykslaðist ég í sjálfu sér alls ekki á afstöðu n., sem starfaði fyrir fyrrv. ríkisstj., þegar upplýst var, ég held það hafi verið hér beinlínis úr ræðustól, að þeir sjálfir hefðu óskað eftir því, að álitsgerðin yrði ekki birt. Eftir það krafðist ég þess ekki, að hún yrði birt. Það er sjálfsagður réttur manna, sjálfsagður höfundarréttur manna og þá ekki síður hagfræðinga en annarra að fá að ráða því sjálfir, hvað þeir semja til birtingar og hvað þeir semja til einkaafnota fyrir þá, sem skrifað er til. En með sérstöku tilliti til þessa tel ég það vera vægast sagt ómaklegt að gera mikið veður út af því, að álitsgerð hinna erlendu starfsmanna Alþjóðagjaldeyrissjóðsins skuli ekki þegar hafa verið birt. A.m.k. hv. fyrirspyrjanda hlýtur að vera fullkunnugt um þau efnisrök, sem til þeirrar afstöðu geta legið.