06.03.1957
Sameinað þing: 44. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 430 í D-deild Alþingistíðinda. (2872)

120. mál, álitsgerðir um efnahagsmál

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Það má nú segja, að skörin taki að færast upp í bekkinn, þegar það er orðið kátbroslegt að spyrjast fyrir um efndir á fyrirheitum hæstv. núverandi ríkisstj. En það kann nú að fara úr þessu að verða svo, að mönnum þyki dálítið kátbroslegt, þegar farið er að vitna til þess, sem hæstv. ríkisstj. hefur áður sagt eða málgögn hennar, og svo aftur til efndanna.

Þá verð ég að láta í ljós nokkra undrun yfir því, að hæstv. menntmrh. skuli telja það hneykslunarefni, að þm. skuli vera að eyða tíma sínum og tíma þingsins í að ræða um efnahagsmál og spyrjast fyrir um rannsóknir, sem gerðar hafa verið í þeim efnum, — rannsóknir, sem búið er að lýsa yfir af ekki ómerkari manni en hæstv. forsrh. sjálfum að hafi verið úttekt á þjóðarbúinu og hafi lagt grundvöll að þeim ráðstöfunum, sem gerðar hafa verið nú um síðustu áramót.

Ég skil satt að segja ekki, í hvað merkilegra er eiginlega hægt að eyða tíma sínum hér á hv. Alþ. heldur en að fræðast um slík efni, og það væri ástæða til þess að lýsa frekar vonbrigðum yfir því, að hæstv. ríkisstj. skuli hneykslast yfir því, að þm. skuli leyfa sér að ætlast til að fá fróðleik um slík grundvallaratriði eins og þarna er um að ræða.

Hæstv. ráðh. svaraði því að vísu ekki beint, en mér skildist þó óbeint, að þm. stjórnarliðsins hefðu ekki fengið neinar upplýsingar um þá rannsókn, sem gerð hafði verið í efnahagsmálunum, þegar þeim var ætlað að taka ákvörðun sína um afstöðu til tillagna ríkisstj. fyrir síðustu áramót, og ég verð satt að segja að lýsa mestu undrun yfir því, að þm. stjórnarliðsins skyldu láta bjóða sér slíkt, að taka sína afstöðu og ljá stuðning sinn skilyrðislaust við till. hæstv. ríkisstj. án þess að fá aðstöðu til þess að kynna sér þau álit, sem þessar till. voru byggðar á. Það má vel segja, að það hafi verið óeðlilegt að láta þm. í té í fyrra, eins og hæstv. forsrh. upplýsti, þm. stjórnarliðsins athugun þá, sem gerð var af fjórum hagfræðingum. En ég held nú sannast sagt, að það hafi þó verið eðlilegri vinnubrögð að leyfa þeim mönnum, sem áttu að bera ábyrgð á afgreiðslu málanna, að kynna sér þann grundvöll, sem stuðzt var við, heldur en að ætlast til þess, að þeir kyngdu öllu saman, sem hæstv. ríkisstj. byði þeim, án þess að hafa nokkra aðstöðu til þess að vita, hvað um væri að ræða. Það finnst mér nánast vera hin furðulegustu vinnubrögð.

Þá er því haldið fram hér, að þessir hagfræðingar, sem hingað voru fengnir í sumar hafi ekki átt að framkvæma neina úttekt. Ég veit sannast sagna ekki, hvað þeir hafi átt að gera hingað til lands. Það sé einhver nefnd, efnahagsnefnd, sem hæstv. menntmrh. segir að hafi unnið mjög gott og þarft verk og ég skal ekkert um segja og enginn hefur sagt hér neitt hallmæli um, við vitum ekkert um það, hvað hún hefur unnið, og það virðist vera ósköp erfitt að fá að vita um það, en hins vegar megi ekkert byggja á og sé ekkert gerandi með það, sem þessir erlendu sérfræðingar hafi sagt.

Hæstv. forsrh. taldi sig þó þess umkominn í haust að lýsa því yfir sérstaklega á fundi í sínum flokki hér í Reykjavík, að það væri álit hinna erlendu hagfræðinga, sem leiddi það í ljós, að efnahagskerfið væri helsjúkt, og hann taldi sig þess umkominn á grundvelli þeirrar athugunar að vera með ýmiss konar árásir og ásakanir á hendur fyrrverandi ríkisstj. og Sjálfstfl. fyrir það, sem gerzt hefði í þessum málum. Nú má enginn fá að vita, hvað þetta hafi verið, og hæstv. menntmrh. upplýsir, að hann hafi talið í byrjun, að það væri engin ástæða til þess að birta þetta, nema það væri eftir vilja eða eftir ósk þeirra manna, sem að því unnu í upphafi, hinna erlendu hagfræðinga.

Nú kemur hins vegar fram hjá hæstv. forsrh., að þessir menn hafi fyrst og fremst bent á úrræði til að leysa vandann, og ég skil nú sannast sagna ekki, að það hafi verið mögulegt fyrir þá að benda á úrræði, nema þeir hafi gert sér grein fyrir forsendunum líka, og það er óneitanlega ákaflega fróðlegt að vita um það, og ég veit ekki, hvað er fróðlegra en að kynnast því, hvað kunnir sérfræðingar, sem mjög hefur verið farið lofsamlegum orðum um af hæstv. ríkisstj. og vafalaust mjög maklega, hafi talið að væru vænlegustu úrræðin til úrbóta á okkar vandamálum. — Mér skilst hins vegar, að kjarni málsins sé nú orðinn sá, að hæstv. núverandi ríkisstjórn hafi nánast snúið máli sínu upp í vörn fyrir hæstv. fyrrverandi ríkisstj. fyrir það, að hún hafi ekki látið birta þá skýrslu, sem þá var samin af fjórum hagfræðingum, og þá fer maður að geta látið sér detta í hug, að það hafi verið eitthvað hæpið, sem Tíminn hélt fram í sumar, að það hefði verið óhæfileg aðferð, sem þá var viðhöfð af ríkisstj.

Að lokum vildi ég aðeins segja það í framhaldi af því, sem hæstv. forsrh. áðan sagði mjög lofsamlega og réttilega um þá fjóra hagfræðinga, sem sömdu álitsgerðina um næstsíðustu áramót og hann taldi hafa lagt skýrastan grundvöll að þessum athugunum öllum: Ef það hefur verið ætlunin að byggja þessa framhaldsrannsókn á raunhæfum grundvelli og styðjast víð fyrri athuganir á því. Því í ósköpunum var þá ekki þessum fjórum mönnum falið að framkvæma þessa athugun?